fimmtudagur, maí 31, 2007

Greinarmerkjasetning, sem gildir í íslensku, er eitthvað, sem ég ekki skil

Eftir nokkra klukkutíma mun ég standa fyrir framan hóp af tilvonandi læknanemum og kenna þeim kommureglurnar í íslensku (og allt annað sem ég veit og ekki veit um íslensk fræði). Síðustu þrjá daga er ég búin að vera að býsnast yfir téðum reglum enda eru þær alls ekki samræmi við daglega notkun málhafa. Ég hafði bara aldrei rýnt almennilega í þær fyrr en mér var sagt að ég þyrfti að kenna þær (og þar með skilja þær almennilega).

Hér eru reglurnar


en einnig hér, og þá ítarlegar og með dæmum.


3. 4. og 5. grein eru fínar, allt gott og blessað þar, bara um ávarpsliði og upptalningu og beina ræðu og svona, en í 6. grein versnar málið. Þar er sagt að setningar sem fleyga aðrar setningar séu afmarkaðar með kommu. Sem sagt t.d. svona:

a) Stúlkan, sem þú elskar, heldur fram hjá þér.
b) Kókómjólkin, sem ég drakk í hádeginu, var volg.

Þetta finnst mér óeðlileg kommusplæsing ef þetta stendur svona eitt og sér. Ef búið er að kynna stúlkuna og kókómjólkina til leiks, t.d. í setningunni á undan, væri þetta þó alveg eðlilegt:

c) Ég fann kókómjólk og kexpakka á glámbekk í morgun.
d) Kókómjólkin, sem ég drakk í hádeginu, var volg.

Ef þarna væru ekki kommur væri ljóst að verið væri að tala um aðra kókómjólk en þessa á glámbekknum. Þetta finnst mér alveg skýrt. Þess vegna finnst mér skrítið að svona setningar megi ekki vera kommulausar þegar það á við.

Þá skil ég ekki hvers vegna tilvísunarsetningar á eftir nafnorðum þarf að afmarka með kommum en ekki má afmarka tilvísunarsetningar á eftir sá (sú, það, þær, þeir, þau) og þar:

e) *Stúlkan sem þú elskar heldur fram hjá þér. (stjarnan merkir að setningin sé ekki rétt)
f) Sú sem þú elskar heldur fram hjá þér.

Svo er valfrjálst hvort notaðar eru kommur þegar önnur fornöfn eða atviksorð standa við setningar sem fleyga aðrar. Hér er lagið ,,Hvar sem ég fer" með Á móti sól með réttri kommusetningu (leyfilegri, þó eru kommurnar á undan hvar og hvert valfrjálsar).


Hvar, sem ég fer

Hugsa um þig á daginn og dreymir fram á nótt.
Er dimmir fæ ég hallað mér að þér, þú ert allt, sem ég á.

Hvar, sem ég fer, hvert, sem þú leiðir mig,
þar vil ég vera, þar vil ég vera með þér.

Að hvíla þér við hlið og hvísla að þér orð
er sem heimurinn sé allur hér hjá mér.
Hér er allt, sem ég þarf.

Án þín væri lífið mér lítils virði og ósátt
leið að lokum komin, þú ert allt, sem ég á. (þetta erindi er nokkuð myrkt og þarfnast nánari útskýringa til að hægt sé að nota rétt greinarmerki)

Hvar, sem ég fer, hvert, sem þú leiðir mig,
þar vil ég vera, þar vil ég vera með þér.


Ég held ég haldi nú bara áfram að gera greinarmun á mínum tilvísunarsetningum, sama hvað einhver úldin reglugerð frá 1974 segir. Enda er ekki einu sinni farið eftir greinarmerkjasetningunni í henni sjálfri! Skýringin, sem gefin var, (hahaha) var að lögin hefðu ekki öðlast gildi þegar þau voru samin, sem er vitaskuld satt, en ég skil þó ekki af hverju ekki var hægt að laga það EFTIR að þau höfðu tekið gildi, t.d. þegar breytingar
skv. auglýsingu nr. 184/1974 voru settar inn í...

...æi voðalega nöldra ég.
Ef ég fer með fleipur vil ég vita það, svo leiðréttið mig í kómakerfinu hérna.
Ég er farin í bælið.

mánudagur, maí 28, 2007

Setning dagsins

,,Heyrðu, ég er alveg búin að sjá út af hverju við erum ennþá á lausu. Naglaböndin! Þetta er það fyrsta, sem karlmenn leita eftir. Ef maður færi bara í manikjúr, pældu í, hvað maður myndi hösla!"
Þuríður Helgadóttir 28. maí kl. 16.24


[kommusetning uppfærð 31. maí kl. 00.26. SLI]

miðvikudagur, maí 23, 2007


Og hér er kórinn fagri í allri sinni dýrð.


Við erum með tónleika:

26. maí kl 16.00 í Skálholtskirkju
31. maí kl 20.00 í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn

Mæli með þeim.

Friður,
kórstúlkan
þriðjudagur, maí 22, 2007

KaSu og sumarið

Jæja, loksins er að koma sumar og þá fer Svanhvít til útlanda. Vilji einhver vita mín ferðaplön í sumar eru þau svohljóðandi:

4.-11. júní - Kórferðalag með Kammerkór Suðurlands til Elsass-héraðs í Frakklandi. Tónleikar í Strassborg og fleiri stöðum, gist á rómantísku hóteli þar sem má vera með hunda en ekki börn. Frábær hópur og frábær tónlist.

11.-17. júní - Sevilla og Cádiz á Spáni. Sólbað og sviti á ströndinni á Spáni. Jafnvel í tjaldi ef ég verð í stuði. Loksins fer Svanhvít til Andalúsíu!

17.- ca. 21. júní - Kosice í Slóvakíu. Heimsókn til Ivetu vinkonu, jafnvel slást fleiri góðir Slavar í hópinn. Já, Svanhvít hefur vingast við óvinina í austrinu, hinum hræðilegu austantjaldslöndum sem þrá ekkert heitar en að skemma árlega kvöldskemmtun fyrir Íslendingum.

22.-24. júní - eitthvað skemmtilegt einhvers staðar í Mið-Evrópu.

24. júní - flýg heim frá Frankfurt. (Reyndar geri ég út frá Frankfurt, flýg þangað og þaðan til allra landanna - 10€ er ekki svo slæmt fyrir miða til Bratislava með sköttum.)

Svo er ég svo heppin að vera á Loftbrúrmiða svo ég má taka 100 kíló með mér... vantar einhvern eitthvað þungt frá Evrópu? Nei djók, nenni ekki að bera það...

Júlí-ágúst - vinna


Nokkrir hlekkir:

David Blaine trikk - því miður krakkar, la magia no existe

Póstkort frá því um 1900 þar sem er spáð fyrir um árið 2000.
Af hverju er þetta ekki allt til? Mig langar í vængi, og það væri ekkert slæmt að hafa svona veðrahvolf yfir borginni ... Hvað þá að fara á húsinu sínu í vinnuna!

Hvernig datt manninum í hug að búa til risamynd af peningaseðli úr eggjum?

Magnaðar myndir af gömlu fólki og ævi þess rakin.

O magnum mysterium eftir Morten Lauridsen
Við erum að syngja þetta verk í kórnum, þetta er frábær flutningur.

Tíhí

miðvikudagur, maí 16, 2007

mánudagur, maí 14, 2007

Orðræðan

Af hverju segir fólk "Hún sökkti sér í þunglyndi", og "hann hafði tilhneigingu til að verða þunglyndur" eins og fólk hafi um það eitthvert val? Sama fólk myndi aldrei segja "Hún náði sér í krabbamein" eða "Hann hafði tilhneigingu til að fá sér mígrenisköst". Maður hneigist til mennta, bóka, íþrótta, ekki sjúkdóma.

Ég hef heyrt ljótar sögur af því að enn í dag líti fólk ekki á þunglyndi sem alvöru sjúkdóm heldur eitthvað sem þurfi bara að harka af sér. Það er eins og að segja einhverjum að harka af sér gigt eða eða astma.

Og hana nú.

Og hér er skemmtileg þraut svona rétt eftir Júró:

http://europe.bizrok.com/


Sigmar ætti að tékka á þessu og athuga aðeins sögukunnáttuna og landafræðina áður en hann fer að blanda Slóveníu við Tsjernóbyl aftur. Blessunarlega skilja mjög fáir íslensku því að það væri skandall ef sumir 'brandararnir' hans væru þýddir yfir á meira notuð mál.

fimmtudagur, maí 10, 2007


Gósentíð

Já, það hefur líklega ekki verið leiðinlegt að vera pistlahöfundur eða atvinnubloggari síðustu vikur what with all the kosningar og Júróvisjón. Líkingarnar og orðaleikirnir eru óþrjótandi, samsæriskenningar og kosningabandalög, háralitir og flokkalitir, kosningar á báðum vígvöllum. Ég skipti mér minnst af Júróvisjón en á eftir að lesa allar fréttir um kosningaúrslitin eins fljótt og þær berast af mestu nákvæmni - já, ég verð í vinnunni.

Kosturinn við það er að þetta er nokkurs konar uppskeruhátíð blaðamanna - ég held þeir viti fátt skemmtilegra - svo líklega á maður eftir að hrífast með og hrópa upp við hverjar nýjar tölur, spá í spilin og spekúlera... verst að maður getur ekki haft bjór við hönd, alveg ótrúlegt hvað hann hefur mikil áhrif á prófarkalesturinn ... til hins verra.


Og svo maður taki smá moggablogg á þetta:"En þó að Íslendingur hafi ekki unnið Evróvisjón, þá getum við huggað okkur við það að það er mjög líklegt að Íslendingur vinni kosningarnar á laugardaginn. Og hver veit nema hann verði líka rauðhærður, þó ívið snögghærðari."

ho ho ho

þriðjudagur, maí 08, 2007

Imogen Heap

Ég er búin að horfa á þetta myndband þrisvar í dag og er ekki nærri hætt. Þetta finnst mér flott. Ein kona, ein græja, í rauntíma, ég bið ekki um meira. Það réttlætir allar græjurnar og vinnsluna á öðru sem hún gerir að hún geti þetta líka án þeirra.

gersovell:

http://www.noob.us/entertainment/imogen-heap-amazing-vocal-solo/

mánudagur, maí 07, 2007

Kannast hlustendur við ...

Það má ekki líða of langt á milli tungumálanördapistla. Um daginn nefndi ég oxymoron, þ.e. refhvörf, og nú er komið að andstæðunni, nefnilega pleonasm. Það er einmitt þegar orð eða orðhlutar sem standa saman gætu alveg komist af hvort án annars, þar sem þau þýða það sama (tátólógía). Í ensku eru mörg dæmi um þetta:

sink down, join together, free gift. Mörg fleiri hér.

Þetta er líka mjög algengt í tökuorðum og orðum sem eru að hluta skammstafanir:

trílógía í þremur hlutum
pizza pie

salsasósa
PIN-númer
ATM-machine

... og eitt hallærislegasta dæmið:

Nýja fréttastöðin NFS


Hér eru fleiri dæmi:

sokkaleisti

ofnotuð klisja
ógiftur piparsveinn
slæmur ósiður
detta niður
hoppa upp

stór risi

þetta eru líka oft alls kyns orðapör, meðal annars vinsæl í riddarasögunum gömlu:

kyrrð og ró
glaumur og gleði
fjöll og firnindi
margt og mikið

Svo geta þetta verið lengri frasar:

Hún var dóttir föður síns og móður sinnar
Ég sá þetta með mínum eigin augum


(Það má kannski segja að þessi tendens að skeyta eignarfornafni aftan við alla mögulega líkamshluta (lungað mitt, höndin mín, hjartað mitt) sé skylt þessu.)

Þó að þetta sé oftast lýti er líka hægt að nota þetta skemmtilega og listrænt eins og í þessari spænsku vísu:

Allí arriba en aquel cerro
hay un lindo naranjel
que lo cría un pobre ciego,
pobre ciego que no ve.

(Lausleg þýðing: Þarna uppi á þessum hóli/ er fallegt appelsínutré /sem var ræktað af blindum manni / blindum manni sem ekkert sér.)

Fleiri?

miðvikudagur, maí 02, 2007

Stömbl dagsins

Held að Stumble upon sé eitt það besta sem hafi komið fyrir mig í ár, svona grínlaust.

Þessi mynd á skilið að vera bloggað
, þótt ekki sé nema fyrir það að vera ógeðslega löng.

Friður,
Þýðandinn