miðvikudagur, október 26, 2005

Sniðugt í útlöndum III

týpísk samtöl í Alcalá feb-júl 2005:
ú=útlendingur
s=svanhvít

ú: ...Og svona segir maður 'mierda' á finnsku. Hvernig segir maður það á íslensku?
s: Skítur..
ú: Hahaha, ski-tour, svona eins og skíðaferð á ensku? Haha
s: ja, já eitthvað svoleiðis..

ú: Hvaðan ertu?
s: frá Íslandi
ú *blank*
s:..í norðri..
ú: já, á Norður-Spáni? (þetta var Spánverji)

ú: Hvernig virkar þetta með sólarhringinn hjá ykkur, ef það er ekki sól, hvernig getur þá verið dagur?
s: það er bara þannig, við förum eftir klukkunni, ekki ljósinu.
ú: Haha, þá getið þið ekki talað um að vinna myrkranna á milli, hahaha
annar ú: haha, djöfull væri það langur dagur á sumrin, haha.
s: já... ha... ha...

ps. á finnsku þýðir frasinn 'katso merda' 'horfðu á hafið'. Í ítölsku þýðir sami frasi eitthvað eins og typpakúkur.. (mjög vúlgar, eitthvað sem maður segir ef maður gerir eitthvað mjög slæmt óvart, eins og að klessa á bíl eða brjóta eitthvað.)

miðvikudagur, október 19, 2005

Miðannargyðjan

Verkefnavika, rannsóknarvika, kennsluhlé, æfingavika, "álagsvikan mikla", frí, það er sama hvað hún er kölluð, hún er kærkomin gyðja á miðri önn, og glæðir von í hjörtum íslenskunema og annarra sem eru svo heppnir að njóta hennar við.

Ég krýp á kné og drýp höfði í lotningu, heill þér, himneska gyðja.

þriðjudagur, október 18, 2005

Kúla á hausinn

Í dag fékk ég kúlu á hausinn. Ég var að smíða plasthús (já, hressilegt að hrista af sér skólaslenið með því að byggja eitt plasthús eða svo) og gekk svo snilldarlega á járnbita sem var einmitt þar sem hann átti ekki að vera, í hæð þar sem maður sér hann ekki. Ég var lengi á eftir svona eins og Tommi í Tomma og Jenna, þegar hann er laminn með svona risasleggju og sér gula fugla fljúga kringum hausinn á sér.

Þegar ég var búin að jafna mig var mér sagt að allir sem voru að vinna við þetta hús höfðu rekið sig þarna í, og hver og einn oftar en einu sinni. Þá var líka bundinn strigi í bitann svo það gerist örugglega ekki aftur.

En það var fínt að spjalla við gamla kallinn sem ég var að smíða með, hann notaði svona verkamannaorðatiltæki eins og "...nei þetta er ekkert mál, bara eins og að drekka hland með nefinu", og þegar hann lamdi með sleggju beint á þumalputtann kvartaði hann sko ekki heldur hélt áfram að vinna, á meðan blóðið flæddi um allt.
Ég gæti ekki verið smiður.

sunnudagur, október 16, 2005


Í gærmorgun vaknaði ég við það að köttur réðst á mig. Ég var svona milli svefns og vöku, og það var það sem varð mér til lífs, því ég náði að bera fyrir mig hendinni og kasta honum niður á gólf. En svipurinn á kvikindinu er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma, þegar ég í svefnrofunum sá hann stökkva á mig með hárbeittar klærnar út í loftið, eins og han hafi verið að bíða eftir að bráðin gæfi á sér færi. Nú er ég öskureið út í köttinn, og sýni héðan í frá enga vægð við að henda honum út úr íbúðinni þegar hann læðist inn.

ps. tók út af síðunni þetta blóm sem skaut víst upp kollinum í sumum tölvum, því var ofaukið.

þriðjudagur, október 11, 2005

Til að leiðrétta algengan misskilning síðustu daga þá er ég ekki dökkhærð. Það var lygi. Ég er hins vegar 197 sentimetrar á hæð og hefur tekist að fela það með eindæmum vel.

sunnudagur, október 09, 2005

Rok

FaxaSKJÓL er rangnefni

mánudagur, október 03, 2005

Sá sem skildi eftir kristal plús flösku í ísskápnum heima eftir innflutningspartíið 24. á skilinn hægan og kvalafullan dauðdaga, eða svo ég vitni í bloggið hennar Uglu laugardaginn 16. júlí (þar sem hún talar um hljómsveitina Hjaltalín):

"X má éta skít, hoppa ofan í drullupoll, gubba upp í munn félaga sinna með sama lundarfar, falla á mætingu, falla í lífsleikni, vera nafngreindur í útvarpi fyrir eigin skít og svínarí og að lokum verða útskúfaður úr samfélagi hinnar heilögu köngulóar."


Sú flaska innihélt nefnilega ekki vatn, heldur vodka eins og ég komst að þegar ég tók gúlsopa úr henni um daginn.


Takk fyrir.