laugardagur, júlí 30, 2005

Hvar er Harry Potter?

Ég hef aldrei verið mikill verslunarmannahelgaraðdáandi. Venjulega hef ég reynt að vera í útlöndum (og tekist vel) þessa helgi til að þurfa ekki að ljóstra því upp að ég nenni bara ekki að standa í því að fara til Eyja, Akureyrar, á Eldborg, Kántríhátíð eða hvað þetta hefur heitið í gegnum árin. Ég hef aldrei farið á útihátíð, og hef ekki mikinn áhuga á því, þó ég búist við því að einhvern tímann verði ég nú að prófa það.

Í ár er ég ekki í útlöndum, og hafði hugsað mér að gera eitthvað með vinunum, en svo komst ég að því að vinir mínir eru annaðhvort að vinna, meira og minna uppteknir við annað, eða fyrir norðan taka í sundur bílvél... Svo ég ákvað að leita í annan vin, sem hefur aldrei brugðist, ég ákvað að kaupa mér nýju Harry Potter bókina og þá skipti ekki máli hvar ég væri, ef ég hefði bara Harry, Hermione, Ron, Snape, Voldemort og þá félaga... svo ég fór á Selfoss í gær í þeim eina tilgangi að kaupa bókina. Fór í Nóatún, þar sem er pínulítið Eymundsson horn, en ekki var bókin þar!Ég fór að spyrjast um, og komst að því að það er bara ekki hægt að kaupa Harry Potter á Selfossi!

Ég gafst ekki upp, og fór í Hveragerði, en ekki var það hægt þar heldur. Þá rann það upp fyrir mér að hvorki í Hveragerði né á Selfossi er ein einasta bókabúð! Er það ekki alveg óforskammað! Ég hef nú mikið verið á Selfossi í gegnum árin, og alltaf fundist eitthvað vanta, fyrst hélt ég að það væri kaffihús sem vantaði, en þegar það kom (Kaffi Krús) þá vantaði ennþá eitthvað, og nú veit ég hvað það er. Í bæ þar sem meira að segja er bíó, og örugglega hátt í tíu föndurbúðir, er engin bókabúð!

Kominn tími á harðort bréf, það er að segja ef ég vissi á hvernæ ég ætti að stíla það.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Í gær var ég að horfa á þriðja hluta Hringadróttinssögu með foreldrum mínum, og við komumst að því að dulinn boðskapur myndarinnar, ef ekki skáldverksins líka, er að það séu garðyrkjumennirnir sem standa uppi þegar allir aðrir gefast upp, það var Sámur sem þurfti að bera Fróða greyið til ad drösla honum upp fjallið svo hann gæti hent hringnum oní. Og það er einmitt þess vegna sem Fróði tók garðyrkjumanninn sinn í þessa hættulegustu ferð lífs síns. Það er Sám að þakka að Fróði nær að bjarga heiminum, en hann fær ekki heiðurinn af því.

mánudagur, júlí 25, 2005

Systirin komin frá Japan. Öll fjölskyldan er montin upp fyrir haus og niður fyrir tær að þrettán ára stelpan söng einsöng á opnunardegi Íslandsvikunnar á EXPO í borginni Chiryu, með ekki ómerkara fólki en Ragnhildi Gísladóttur og Stomu Yamash'ta en hann hefur einmitt unnið með ekki ómerkara fólki en Rolling Stones og David Bowie, (samdi tónlistina fyrir the man who fell to earth), en þessir menn þekkja ekki ómerkari menn en Bítlana. Og það er merkilegt!

mánudagur, júlí 18, 2005

Ég er svo stoltur/ að opinn er minn skoltur

Það væri örugglega hægt að setja saman magnaða galdravísu úr lélegu rími í dægurlögum, hún myndi hafa drápskraft!

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Ekki eru allar Svanhvítirnar eins

Það er alltaf gaman að gúggla nafnið sitt, og maður kemst fljótt að því að þessi spjöld sem maður getur keypt með nafninu sínu þar sem er sagt t.d. "Anna er tryggur vinur en á það til að vera skapstór ef eitthvað er gert á hennar hlut. Hún er falleg og heilsuhraust" eru bara rugl. Amk vil ég ekki líkjast í neinu manneskjunni sem skrifaði þetta og ber sama nafn og ég. (og ef hún gúgglar sitt nafn og finnur þetta má hún alveg vita það). Mér þykir vænt um nafnið mitt, af því það eru ekki svo margar sem heita það, og vil ekki saurga svanhvítarstofninn með svona eintaki:

"Á laugardaginn var reunion og var það mjög gaman. Ég var orðin dálítið full þegar ég kom niður í bæ og fór á Hressó og varð alveg æf og dansaði smávegis. Svo var einhver hóra sem rakst í mig meðan ég var að dansa og ég gaf henni olnbogaskot og hún reif þá í hárið á mér og þá snéri ég upp á vinstri geirvörtuna á henni og kýldi hana í fésið með hinni hendinni. Þoli ekki svona dópista- stelpur. Vona að hún hafi verið tekin ósmurð í rassgatið seinna um kvöldið- hún hefði svo átt það skilið. Eða þá að það hafi verið keyrt yfir hana- annað hvort.
Annars þá á Ísak Freyr barnaafmæli í dag. Hann er eins árs í dag litla dúllan. Til hamingju með daginn litli Ísak!"


smekklegt! :)

föstudagur, júlí 08, 2005


Loksins komin með mold undir neglurnar.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Komin heim....


...í grillaða bleikju
...í Baugsmálið
...í vinnuna
...í frestun þungs nafnliðar
...í rigningu á ská - og á hlið og upp..
...í útilegupælingar
...í kókómjólk!
...í íslensk lög í útvarpinu
...í bæinn um helgina(!), hringið í mig 8682140 ef þið viljið hafa samband!!

Glæpaklanið amma, Svanhvít og Reynir var tekið í tollinum með hálft kíló af danskri spøgepølse, og Svanhvít (a.k.a. "Spøgelset") lenti í skýrslutöku hjá tollstjóra og bíður nú eftir símtali frá sýslumanni sem mun refsa henni með sekt sem hljóðar upp á 500 krónur íslenskar. Svanhvít bar illa söguna af vistinni á skrifstofu tollsins, þar var annað glæpakvendi í haldi (greinilega öllu reyndari í bransanum) sem sagði farir sínar ekki sléttar og neitaði að láta sitt spægipylsukíló af hendi nema sjá tollstjóra brenna það sjálfan, og fullvissaði aðra glæpamenn viðstadda að víst væri að starfsmenn tollsins skiptu spægipylsunni á milli sín og ætu hana. Hinir reyndu nú að malda í móinn, fannst bara frekar hart að sjá af spægipylsunni, og furðuðu sig á íslensku lögunum, eða eins og höfuðpaur glæpaklansins ógurlega "Amman" fullyrti: "Ég hef nú ekki komið til landsins ÁN spægipylsu í hálfa öld!" Þess má geta að Amman er dönsk.

mánudagur, júlí 04, 2005

Túristar í Köben

Við erum búin að krúsa Kaupmannahöfn síðustu daga, í dag aðallega umkringd af skítugum Íslendingum með armbönd. Í gær á Bakken (mitt fyrsta skipti, ótrúlegt nokk), hestaferð að skoða dádýr í skóginum, svo nautasteik á Jensens böfhus, í dag vandbussen (sigling í höfninni og inn í borgina í þröngum síkjum) og túristarútuferð. Hún var frekar fyndin, eða það er að segja sataníski rútubílstjórinn sem keyrði okkur. Hann var greinilega svolítið pirraður og þegar við vorum komin á Langelinie og rútan fyrir framan hann stoppaði lengur en honum líkaði hvæsti hann djöfullegri röddu "FOR SATAN!" "JESUS CRIST" og "FOR HELVEDE", og ég lýg því ekki að röddin var eins og hún kæmi úr iðrum jarðar, maður bjóst við að heyra næst eitthvað eins og "I AM THE LORD OF HELL FIRE" - en þegar rútan fyrir framan fór ekkert af stað öskraði hann í kallkerfið: FIVE MINUTES TO SEE THE LITTLE MERMAID!" og ég horfði á viðbrögðin hjá fólkinu í rútunni, það kipptust allir til, og hrökkluðust út, þorðu ekki annað en fara að sjá hafmeyjugreyið. Hann öskraði svo á eftir okkur "DO NOT FEED THE MERMAID". Svo hvæsti hann, "OG EF ÞIÐ ERUÐ EKKI KOMIN EFTIR FIMM MÍNÚTUR ÞÁ FER ÉG SAMT". Það sem eftir var af ferðinni öskraði hann af og til eitthvað eins og "GO OUT HERE TO SEE THE CHANGE OF THE QUEEN´S GUARDS" "ANYBODY WANTS TO TAKE A COFFEE WITH THE QUEEN?", og alltaf hrökk mannskapurinn í rútunni jafnmikið við. Svo heyrði ég hann tala "eðlilega" á eftir, þ.e. í samræðutón, en alltaf með sömu rödd, greinilegt að félaginn hefur drukkið of mikið öl og reykt for mange smøger i sit liv.

Bátsferðin var góð, svo ég segi ekki frá henni.

Í kvöld fórum við svo í Tívolí eins og tilheyrir Kaupmannahafnartúr. Þar vann Reynir bangsa sem hann gaf mér eftir að sýna glæsilega takta í körfuboltakasti, þetta var annar bangsinn sem hann vann á tveimur dögum, hinn í gær á Bakken í golfleik.

Amma var löngu búin að ákveða að bjóða okkur barnabörnunum fínt út að borða á Færgekroen (Ferjukrána)í Tívolí, en þar hefur hún farið reglulega örugglega a.m.k. síðustu hálfa öld og fengið sinn síldarplatta eða Mørbrad gryde, Pariserbøf og rødbeder og annan ekta danskan mat, og ætlaði aldeilis að sýna okkur hvað þetta væri nú gott. Svo ég hringdi til að panta borð, þeir sögðu mér að mæta bara, þeir væru með borð. Svo þegar við komum þurftum við nú samt að bíða í korter, og að okkur fór að læðast illur grunur, því nú var komin bruggverksmiðja þar sem áður voru borð fyrir gesti, og nú stóð á öllum skiltum "Færgekroens bryghus", og matseðillinn var eitt blað með 2 aðalréttum. Við hugsuðum að þegar okkur væri vísað til borðs þá fengjum við nú annan matseðil og allt yrði eðlilegt, en nei, það kom sami snepillinn, og þá varð amma gamla ekki kát. Það var búið að skipta út reykta álnum fyrir Osso buco og ekkert rauðkál að fá heldur rucola... Við fórum útt fussandi og sveiandi og lofuðum að koma aldrei aftur. Allt .arf nú að breytast, og við hlógum af því að við vorum nýbúnar að horfa á tvo síðustu þættina af Matador þar sem allar breytingar eru einmitt svo illa séðar, en óhjákvæmilegar, og einmitt frá þeim tíma þegar amma var ung. svo við enduðum á næsta stað, ekki mjög dönskum, reyndar austurrískum, hét Edelweiss og serveraði þessa fínu gryde með kalvekød og bratkartoffler, og við amma fengum okkur rauðvínsglas, sem gravøl fyrir Færgekroen.

laugardagur, júlí 02, 2005

"Estimada alumna: se me olvidaba decirte que te subo la nota hasta el 10, como a
algunos de tus compañeros, pues os lo merecéis. Salud, Emilio Sola."


Og hvað þýðir þetta? Jú, kennarinn minn var svo ánægður með greinina um Tyrkja-Guddu að hann ákvað að hækka einkunnina mína í Cervantes kúrsinum úr 8,5 í 10!

Annars er það að frétta af mér að ég er í Kaupmannahöfn núna, ein á voða fínu hóteli við hliðina á lestarstöðinni, Ég svaf á öðru hóteli í nótt, rétt hjá flugvellinum. Vélin lenti ekki fyrr en klukkan eitt í gærnótt, svo ég var orðin nokkuð þreytt og rugluð, svo rugluð að ég talaði einhverja furðulega blöndu af spænsku og dönsku við leigubílstjórann og mundi svo ekki hvernig ég átti að segja ´taska´ á dönsku! Strákurinn í hótelmóttökunni var voða góður, ég sagðist verða meget taknemlig ef ég fengi herbergi á þessari hæð, og hann horfði á allar fjórar töskurnar mínar, og gaf mér et dobbeltværelse... ég spurði hvenær ég þyrfti að vera farin út af herberginu, hann sagði klukkan 11. Ég reyndi að fela örvæntingarsvipinn en hann hlýtur að hafa séð hann því hann spurði hvort ég vildi frekar fara út klukkan tólf. Ég vildi það. Nú er ég búin að dröslast með allt mitt hafurtask á þetta líka fína hótel, þar sem ég steinsofnaði þegar ég var loksins komin. Ég ákvað að ég gæti alveg tekið lest með allt dótið mitt milli hótela, og fólk var mjög almennilegt og hjálpaði mér að bera 32 kílóa töskuna upp þrepin inn í lestina - en lestarvörðurinn sagði mér, og ég horfði á hann eitruði augnaráði: "Man skal ikke have mere med en man selv kan slæve". Ég hafði auðvitað þurft að borga yfirvigt á flugvellinum í Madrid, 6200 krónur takk. Seinna segi ég frá leigubílstjóranum sem keyrði mig á flugvöllinn í Madrid, sú ferð er efni í heila smásögu.

Nú er samt aðaláhyggjuefni mitt að ég á ingen penge. Ég þarf að fara út á flugvöll og ná í ömmu og Reyni núna á eftir, kannski þarf ég bara að labba út á Kastrup! Ég er samt svo heppin að það er ókeypis nettenging á hótelinu, svo ég get allavegana hangið á netinu! Hej hej!