Sumarást
Nú er sumar og ég hef ekki farið í tölvuna í viku, svo ekki búast við miklu bloggi frá mér. Aftur á móti býð ég alla velkomna að heilsa upp á mig í vinnuna, gróðrarstöðina Storð, Dalvegi 30. Þar er ég alla daga í júní (þar til ég fer út) nema á föstudaginn og 17. júní. Á föstudaginn ætla ég að vera túristi í Reykjavík, labba um bæinn, ég hef heyrt að þar verði allt fullt af vitleysingum að spila á hljóðfæri og fremja gjörninga, en svo vill til að ég þekki einn af þessum vitleysingum frekar náið, og ætla að fara að sjá hvort hann sé ekki að vinna fyrir peningunum sínum (Reykjavíkurborgar) með nægum fíflalátum. Svo ef einhver vill hitta mig niðri í bæ á föstudaginn er það velkomið, og eins gott að grípa tækifærið, því það verða ekki margir svona dagar hjá mér.
Sumarbrennslan er byrjuð á fullu hjá mér. Ekki að ég sé að brenna fitu, ónei að það væri svo gott. Nei, það er blessuð sólin sem elskar allt sem er byrjuð árlega brúnkumeðferð á mér. Hún virkar svoleiðis að fyrst brenn ég, venjulega á höndum, öxlum og í andliti, svo ég lít alltaf út fyrir að vera nýkomin úr maraþonhlaupi, ég er svo rauð í framan, og því fylgir auðvitað alls kyns sólarolíu og aftersun klístur. Hárið fer líka að lýsast. Þegar ég er búin að vera eldrauð verð ég bara svona skemmtilega bleik, en fæ þó alltaf fleiri og fleiri freknur,(sem ég get alveg lifað við í dag, en man þegar ég reyndi einu sinni að skrapa þær af með sandpappír, það var búið að segja mér að það myndi ekki virka, en ég hélt það sakaði ekki að prófa. Það sakaði.) Í lok sumars er ég orðin það sem fólk kallar "útitekin", þ.e. bleik í framan með fullt af freknum og skjannahvítt hár með stuttermabolafar og ágætis framhandleggsvöðva eftir bakka- og pottaflutninga. Ég verð eiginlega á litinn eins og svona skólajógúrt með jarðarberjum og súkkulaði, ef það hjálpar einhverjum..
Jæja, meira aftersun.
Svanrauð
miðvikudagur, júní 09, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli