Ég ætla að stelast til að skrifa smá á meðan ég er að láta renna í bað.
Það er að koma að því. Eftir nokkra daga (laugardar) fer ég í sólina í Szeged, sem einnig hefur verið nefnd "The sunny city" af því þar eru uþb. 2100 sólskinsstundir á ári. Til gamans má nefna að í Reykjavík eru þær oft um hundrað. Reyndar finnst sumum að ég hafi fengið nóg af sól í bili, a.m.k. kemur fólk að mér og segir ýmist: "mikið rosalega ertu sólbrennd" eða "mikið rosalega ertu orðin brún". Mér líkar nú betur að heyra það síðarnefnda, því ég er brúnni í sumar en ég hef nokkru sinni verið, þó brúnkan sú einskorðist við andlit handleggi, axlir og háls. Úr þessu verður ráðið í Ungverjalandi, þar sem ég verð líklega að ganga nakin nema í síðerma magabol og blæju til að jafna út litinn.
En ég hvet alla þá sem vilja að ég kaupi eitthvað fyrir sig í Ungverjalandi, (t.d. papriku eða salami,) eða þá sem vita um eitthvað í Ungverjalandi sem er alveg ómissandi að sjá, tja, líka þá sem gætu átt í fórum sínum ungverskar forintur sem safna ryki, eða bara þá sem vilja kveðja mig áður en ég fer burt í heilan mánuð (löng setning) til að hringja í mig eða skilja eftir skilaboð hér fyrir neðan.
Adios... baðið bíður.
þriðjudagur, júlí 27, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli