miðvikudagur, apríl 25, 2007

Áfram, áfram

Oftast þegar maður les skáldsögur býr maður til mynd í huga sér af sögupersónunum. Þetta gerist oftast ósjálfrátt og stundum taka þessar persónur á sig mynd fólks sem maður þekkir. Þá hefur persónan einhverja drætti sem svipa til raunverulegrar manneskju, stundum að öllu leyti en oftast bara að hluta til, en eftir að mynd manneskjunnar er komin upp í hugann í tengslum við sögupersónuna er erfitt að losna við hana. Það getur verið erfitt því maður veit ekki hverju sögupersónan getur tekið upp á sem maður les áfram. Hún getur gert eitthvað sem manni líkar alls ekki og er í andstöðu við það sem tvífari hennar í raunveruleikanum myndi nokkurn tímann gera. En þar sem hún ber ásjónu hans og líkama getur hún haft áhrif á hvernig maður lítur á raunverulegu manneskjuna. Gjörðir uppdiktuðu persónunnar blandast þannig ímynd hinnar raunverulegu og verða hluti af henni í huga manns.
Ég lenti í þessu í gær þegar ég var að lesa Sumarljós, og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson og maður sem ég þekki birtist mér svo ljóslifandi sem ein persónan. Hann var þó ósköp viðkunnanlegur en örlítið grátbroslegur og það var kafað djúpt í persónu hans, svo nú finnst mér ég skilja raunverulega manninn mun betur og mun eflaust horfa á hann öðrum augum héðan í frá. Það var næstum óþægilegt að lesa svona mikið um einhverja manneskju í bók; eins og maður sé að hnýsast í persónuleika hennar.
Eftirminnilegasta svona atvikið var þó á fyrsta ári í MH í íslensku. Þá vorum við látin lesa smásöguna Vonir eftir Einar H. Kvaran. Fyrst fannst mér ekki mikið til sögunnar koma en svo komst ég að því að hún sat í mér og ég hef mikið hugsað um hana síðan og nú er hún ein af mínum uppáhaldssmásögum. Aðalpersónurnar í henni heita Ólafur og Helga (og nei, ég hugsaði mér ekki Óla Sól og Helgu Kaaber) og um leið og ég las lýsingarnar á fólkinu í sögunni birtist í huga mér allólíklegt par, fólk sem ég var nýbúin að kynnast í glænýja menntaskólanum. Það voru Orri Tómasson og Marta Sigríður Pétursdóttir, sem voru einmitt með mér á ári. Eitthvað í lýsingunum á sögupersónunum fyrst í bókinni kallaði þetta fólk fram í hugann og síðan hef ég alltaf séð þau í þessum hlutverkum, þótt þau hegði sér alls ekki eins og sögupersónurnar í raunveruleikanum. Þessi saga átti held ég góðan þátt í að móta myndina sem ég hef af Mörtu og Orra í dag en það þýðir ekki að ég líti á Mörtu sem hégómagjarna og tækifærissinnaða stúlkukind og Orra sem slánalegan og trúgjarnan lúser, alls ekki, heldur hef ég einhvern veginn dýpri og innilegri mynd af persónum þeirra fyrir vikið.
Þetta er kannski svolítið svipað og þegar mann dreymir einhvern sem maður þekkir gera eitthvað á hlut manns og er svo hundfúll út í hann daginn eftir, en þetta er miklu djúpstæðara og alltaf meira eftir því sem sagan er eftirminnilegri og persónusköpunin dýpri. Þannig getur skáldskapurinn haft áhrif á raunveruleikann án þess að maður taki einu sinni eftir því.

Þetta var skrifað í tilefni af því að ég hef svo mikið að gera að mér fallast hendur.
Sá sem áttar sig á fyrirsögninni fær prik.

10 ummæli:

Unknown sagði...

Ha ha fyndið að lenda í þessu!

Gangi þér vel í öllum verkefnunum.

Nafnlaus sagði...

áfram, áfram, áfram bílstjórin .... áfram, áfram, áfram bílstjórinn ... og so videre ...

Ég er reyndar óskaplega tækifærissinnuð og hégómagjörn stúlkukind (kerlingarálft reyndar). Og Ólafur er slánalegur - eða að minnsta kosti agalega grannur.
Ég deita hinsvegar ekki lúsera, bara hafa það á hreinu.
Helga.

Þura sagði...

Eiga Orri og Marta ekki einmitt afmæli 25. apríl... þegar þú bloggar um "þau" ?

Svanhvít sagði...

Vá magnað! Orri allaveganna

Nafnlaus sagði...

áfram áfram eru setningar úr sögunni Von þegar Ólafur var á leiðinni með lest til Helgu og hvatti lestina áfram í huganum til að komast sem fyrst til Helgu sinnar. Byrjaði kannski sagan svona: Áfram, áfram?

Svanhvít sagði...

jamm.. svona hefst sagan.

Ótrúlegt hvað hún situr alltaf í mér þessi saga

Svanhvít sagði...

Sigga fær prik, meira að segja tvö, annað fyrir litlu ;)

Tinnuli sagði...

Þetta var svei mér áhugavert. Verðum að fara að tala saman.

Nafnlaus sagði...

já þessi saga situr líka ótrúlega í mér! af einhverjum ástæðum. Ég las hana meira að segja aftur um daginn. Mér finnst gaman að fá prik og nú hefur litla mín fengið sitt fyrsta prik.

Eða..hún fékk reyndar prik frá mér þegar hún sparkaði í bróður sinn er hann gerðist fullharðhentur við bumbuna. Fyrsti systkinaslagurinn góðir hálsar...með mig sem millilið.

Nafnlaus sagði...

eg var ad leita ad, takk