Don Lilia
Ég er núna formlega komin með vegabréfsáritun, eftir einungis þrjá mánuði í landinu! Upphaflega átti ég ekki að fá vísa fyrr en í júlí, en eitthvað gekk það "hraðar" en við var búist, svo eftir að hafa beðið í biðsalnum hjá útlendingaeftirlitinu í einn og hálfan tíma í dag fékk ég þennan fína límmiða í vegabréfið mitt þar sem stendur skýrum stöfum:
Don Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir
Eins og margir vita líklega þýðir "don" reyndar "herra", en ef upp koma efasemdir um kyn mitt ætti að vera tiltölulega auðvelt að greiða úr því. Mér var þess vegna alveg nákvæmlega sama, þessi límmiði gerði mig óendanlega glaða og bætti alveg upp fyrir alla biðina, sem og prófið sem ég hafði tekið um morguninn og skort á nætursvefni. Nú er ég hins vegar við það að lognast út af, þótt klukkan sé rétt tíu um kvöld. Það er líka svo dimmt hérna á kvöldin, klukkan sex er strax orðið mjög rökkvað.
Ég held að ég sé búin að lesa hverja einustu skjálftafrétt sem birst hefur í íslenskum vefmiðlum og séð hvert einasta myndband. Vinur minn spurði mig af hverju ég væri eiginlega að pína mig - en þetta er engin píning, bara eitthvað sem maður verður að gera.
En á meðan ég var í öngum mínum yfir sveitungum mínum í landnámi Ingólfs voru Chile-búar harmi slegnir vegna annarrar fréttar, sem ekki rataði í íslenskar fréttir svo vítt ég veit. Á fimmtudaginn hrapaði nefnilega þyrla í Panama svo að ellefu farþegar vélarinnar fórust (og nokkrir vegfarendur á jörðu niðri), þar á meðal José Alejandro Bernales, ríkislögreglustjóri Chile og kona hans, og fimm aðrir mikilvægir chileskir lögreglustjórar og eiginkonur. Þau voru á leið á ráðstefnu í Panamaborg og ferðuðust í eldgamalli og hálfónýtri panamskri þyrlu.
Bernales var öllum mikill harmdauði því að hann hafði síðan hann tók við starfinu sem yfirmaður lögreglunnar í Chile komið miklu í verk. Lögreglan í Chile er líklega sú allra minnst spillta í Suður-Ameríku (þó að rannsóknarlögreglan sé spillt, en það er annar handleggur) og Bernales vann að því að færa hana nær fólkinu, svo hlutverk hennar er ekki bara löggæsla heldur einnig samfélagshjálp að miklu leyti. Lögreglan er mjög sýnileg og vinaleg, stoppar úti á götu og talar við fólkið, og það er enginn hræddur við að spyrja hana til vegar eða fá hana til að hjálpa sér með hvað sem er. Það er líka talsvert af konum í flotanum (og eins og vinkona mín sagði eru þær allar stórglæsilegar). Fólk metur lögreglustarfið líka mikils og flestir bera virðingu fyrir lögregluþjónunum.
Bernales var líka maður fólksins. Hann var ekki momio (einn af íhaldssömu ríku hægrimönnunum sem taka venjulega hver við af öðrum og koma flestir úr háskólanum mínum) heldur úr lægri stétt, og vann sig sjálfur upp á toppinn, sem fólk kann að meta.
Forsetinn, Michelle Bachelet, ávarpaði þjóðina stuttu eftir slysið, með tárin í augunum, og lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg. Auðvitað er alltaf talað um að "mikill maður hafi fallið frá" þegar háttsettur foringi deyr, en í þetta skipti finnur maður að svo var í alvöru. Meira að segja í partíinu sem ég fór í á föstudaginn (nei, við virtum reyndar ekki þjóðarsorgina), var skálað fyrir Bernales í viskíi og hans minnst.
Hjá mér nálgast nú tími ritgerðaskrifa og lokaprófa á haustönn, og í júlí ætla ég svo að skella mér yfir til Argentínu, til Buenos Aires, í nokkra daga. Þangað fer ég með þremur vitleysingum, vinum mínum frá Viña. Þeir hafa aldrei farið út úr landinu og einn þeirra aldrei í flugvél og hann heldur varla vatni yfir spenningi. Þetta verður án efa stórmerkileg ferð, sama hvernig fer. Vonandi þó ekki jafndramatísk og sú síðasta.
Nú lofa ég að í næstu færslu skuli ég ekki nefna neinar hörmungar, þetta fer að hætta að vera fyndið.
Don Lilia
þriðjudagur, júní 03, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli