föstudagur, september 05, 2008

Lilja er lasin. Ég er búin að vera veik núna í fjóra daga og farið að leiðast þófið. Það er tíu stiga hiti úti og litlu heitara inni og ég get helst bara hangið undir sæng (þ.e. trilljón teppum, hér eru auðvitað engar sængur) með öll íslensku ullarfötin mín vafin utanum mig. Þetta er vorflensan sem allir fá, það er mikið um frjókorn, loftmengun og kulda í Santiagoborg á þessum tíma árs og þessi blanda sendir fólk í rúmið í hrönnum. Það er þó auðvitað hugsað mjög vel um mig (vinir mínir frá Chile, þ.e.a.s. Kanarnir kvarta bara og segja "eins gott fyrir þig að þú smitir mig ekki"). Ég fæ pillur og trefla og te og súpur og teppi og faðmlög.

Ég var að lesa nokkur blogg bandarískra stelpna í Chile og vona innilega að mitt hljómi ekki eins og hjá mörgum þeirra. Auðvitað getur verið fyndið í hófi að kvarta og kveina yfir því hvað allt er öðruvísi, en blogg þar sem rövl er uppistaðan, sama hvort það er um fréttir á mbl.is eða líf í framandi landi, er ekki nema takmarkað spennandi til lengdar, nema það sé þá þeim mun betur sett fram.

Hér er þó færsla hjá Söru, stelpu sem ég þekki, enskukennara frá USA í Santiago, sem ég hef lengi ætlað að skrifa sjálf, um hvernig maður verslar í Chile. Sá prósess inniheldur hlaup á milli búðarstarfsmanna með ótal litla miða, jafnvel þótt maður sé ekki að kaupa annað en eina ostsneið.

Engin ummæli: