miðvikudagur, október 01, 2008


Já, ég stend mig vel í landkynningunni, milli þess sem ég kvarta yfir veðurfari og verðlagi á landinu bláa sýni ég andfætlingunum youtube-myndbönd af "indversku prinsessunni frá Íslandi". Vinur minn var þó fljótur að svara með "austurlensku tígressunni frá Perú" sem hér má sjá skaka sig. Nú er bara að plana dúett.

---

Í dag gerði ég svolítið sem ég hef alltaf ætlað að gera, þessa sjö mánuði sem ég er búin að dvelja á suðurhveli jarðar. Það má jafnvel segja að það sé hluti ástæðunnar fyrir því að ég kom hingað. Ég hef minnt mig á það af og til en alltaf gleymt því, svo það var ekki fyrr en þegar ég var að vaska upp eftir kvöldmatinn að því laust niður í höfuðið á mér. Bölvað vatnið í klósettinu, ég átti alltaf eftir að fylgjast með því snúast rangsælis. Og viti menn, það gerir það! Mér líður eins og ef það væri til tékklisti yfir líf mitt gæti ég núna sett þar einn flennistóran kross.

---

Það er á við góða sálfræðimeðferð að garga níundu sinfóníuna tvisvar í viku. Tónleikarnir eru 10. desember og ókeypis inn fyrir þá sem vilja koma. Ég skal bjóða í pisco sour á eftir.

---

Leigan mín fyrir október mun kosta mig 27 þúsund íslenskar krónur. Hún var 22 þúsund krónur fyrir september. (Já nema hún hækki ennþá meira í fyrramálið áður en ég kemst í hraðbanka).

---

Þessu tengt: ég er alltaf til í prófarkalestur ef einhverjum vantar (ha ha ha).
Nei, en grínlaust, þá má alltaf senda mér póst á [sli hjá hi.is] skyldi einhvern vanta yfirlestur. Já, eða þýðingu úr ensku eða spænsku.

---

Íbúðin er orðin full af karlmönnum og mikið male-bonding í gangi, sem er tilbreyting frá stelpu (og homma-) flissi daginn út og inn. Hér er ásamt R. og hans ástmanni einn Kani, einn Þjóðverji og einn frá Ekvador. Svo ég og Kelly, föstu stærðirnar hér í húsinu. Ég hef alls ekki haft fyrir því að telja upp alla sem hafa búið hérna enda er varla að ég muni eftir þeim öllum, en þetta eru allt misáhugaverðir Þjóðverjar og Kanar. Ég hef komist að því að ég er með undarlega Þjóðverjafordóma, sem ég kann ekki að útskýra. Held að ég sjái í mörgum þeirra eitthvað sem ég vil ekki sjá í mér en veit að er til staðar.

---

Ég er búin að vera í umsóknarferli um að fá að vinna sjálfboðastarf með börnum. Það er meira mál en ég hélt að fá að vinna ókeypis, ég er búin að standa í viðtölum og sálfræðimati þar sem ég var látin rýna í blekklessur upp á gamla mátann. Ég sá leðurblöku, ætli það þýði að ég sé vond manneskja? Ég sá reyndar líka allt dýraríkið í þessum klessum, allskonar fiska og eðlur og sæhesta og fugla, og svo sitthvað fleira sem ég var ekkert endilega að segja frá, enda ekki vænlegt til að fá sálfræðingana til að hleypa mér nálægt börnum.

---

Ég hafði ekki gert ráð fyrir því fyrirfram að tónlistin myndi skipa svona stóran sess í þessari dvöl minni hérna en það er nú samt svo að langmestur tími minn fer í hana. Ég syng í tveimur kórum og spila á flautu í barokkhóp, er að æfa mig á gítar og fer í fyrsta söngtímann á föstudaginn, sem ég er mjög spennt fyrir. Skólinn er fyrir löngu kominn í annað sætið, enda er það allt í lagi, ég bara í tveimur kúrsum og fæ bara annan þeirra metinn til eininga í HÍ. RICO PAPI!

---

Það verður hrikalegt að fara til Spánar eftir að hafa verið hér, því að spænskan mín er orðin hrikalega chileísk, sem þykir ekki fínt og vart einu sinni skiljanlegt annars staðar.
Í Chile-spænsku sleppir maður 's' aftan af og innan úr flestum orðum, maður skynjar bara essið í ofurlitlu 'h'-hljóði. Baklæg 'd' og 'r' veiklast líka, svo fyrst þegar ég heyrði í Chile-búa tala (á Spáni) skildi ég ekki orð. Svo er sér sagnbeyging í 2. p. et. og brjálæðislega mikið af sér-chileískum orðum, orðasamböndum og slangri, sem ég er komin hættulega vel inn í. Ég er farin að segja "po" og "cachai" á eftir hverri setningu. Ég verð líklega að fara í málhreinsun í Kastilíu eftir þetta, vöggu spænskunnar. Aðallega þá til að fólk skilji mig...
Æ, eða ekki snobba fyrir neinu og tala bara eins og 'flaite' frá Chile. Flaites eru ákveðinn samfélagshópur, nokkurs konar fátækir hnakkar eða trailer trash, hafa eigin orðaforða, stela og slást og allir hata.
Annar hópur sem enginn þolir er 'cuicos', sem eru þeir sem eiga pening, t.d. þeir sem fara í háskólann minn.
Svo eru það pókemonarnir, sem eru strákar og stelpur á aldrinum ca. 14-17 ára, sem dressa sig upp eins og japanskar skólastúlkur eða manga-teiknimynd (þaðan kemur Pokemon-nafnið), stunda meintar orgíur og eru öllum eldri kynslóðum til mikils ama. Þetta eru þeir hópar sem enginn viðurkennir að tilheyra og allir mega tala illa um.

Eitthvað teygðist nú úr þessari færslu um tígrynjuna, svo nú er kominn háttatími, meira að segja hér hjá mér. Góðar stundir.

6 ummæli:

Bastarður Víkinga sagði...

Eitthvað hefur feilað í koppúpeistinu í þessari færslu.

Og það er allt í lagi að hafa þjóðverjafordóma. Það er mjög auðvelt. Meiraðsegja þjóðverjar eru flestir með þjóðverjafordóma (a.m.k. þeir sem yfirgefa þýskaland).

gulli sagði...

ja hérna. hleypur bara frá hálfkláruðu uppvaski til að góna ofan í klósettið og sturta niður!

Svanhvít sagði...

Já, og eyða þar með dýrmætu vatni, drap örugglega eina mörgæs með þessari forvitni minni.

Ég prófaði líka í vaskinum sko. Svo kláraði ég uppvaskið. Þjóðverjinn sem hjá stóð vissi ekkert hvað ég var að gera og fannst ég stórfurðuleg, en honum fannst það nú fyrir.

Koppípeistið á að vera lagað núna.

Tinnuli sagði...

ELskan mín.. þetta þarf allt að koma út á bók, blogg er alltof lágmenningarlegt fyrir svona mikinn gæðapenna eins og þig.. sakna þín alveg hrikalega mikið, þín POTOGORDO (sércílenskt uppnefni sem ég var nefnd þegar ég vann með Chilebúum á elliheimili á Hellu)og börnin þrjú.

Svanhvít sagði...

þakka hrósið elskan mín. En ég ætti nú ekki annað eftir en að gefa út bloggbók.. það er nú alveg það síðasta... ;)

En varstu í alvöru kölluð potogordo? En sætt... og þú ert ekki einu sinni með feitan rass ;)
Jajajajaja (hlátur á spænsku)

Tinnuli sagði...

Jú ég er með feitan rass og sérstaklega þá!