sunnudagur, apríl 05, 2009

Þá er það búið og gert. Ég er búin að kaupa flugmiða heim til Íslands. Ég legg í hann árla morguns 4. maí frá Santiago og verð komin til Kólumbíu fimm tímum seinna. Þar sem ég ætla að skreppa niðrí miðbæ Bogotá og láta ræna mér og gera skipti á innyflunum í mér og stórum poka fullum af eiturlyfjum, sem ég fer svo með innvortis til New York. Ég hlýt að ná því á tíu tímum, er það ekki mamma? Í New York verð ég frá því snemma um morgun og fram á kvöld og mun gera mitt besta til að eyða engu og komast klakklaust með sjálfa mig og þyngd mína í farangri í næstu Flugleiðavél sem fer með mig í Leifsstöð þar sem ég lendi svipað árla morguns og ég lagði af stað tveimur sólarhringum fyrr.
Þetta verður stuð, sérstaklega þar sem ég verð örugglega grátandi langleiðina yfir hnöttinn. Ég má varla sjá vini mína núna án þess að fá kökk í hálsinn, því að ég veit að eftir mánuð verð ég að kveðja þá um mjög svo óákveðinn tíma.
Ég er dottin svo inn í þetta líf hérna að K. bandaríska vinkona mín sem fór heim í desember og var að koma aftur í vikunni, hlær að mér þegar ég geri alveg hugsunarlaust hluti sem ég hefði ekki gert fyrir ári síðan, t.d. þegar ég nota fanny pack (hvað heitir það nú eiginlega á íslensku? svona magataska) alveg án þess að finnast nokkuð athugavert við það, þegar ég fussa og sveia og býð fram hlýjar peysur þegar einhver sem hefur verið lasinn situr við opinn glugga (í 20 stiga hita), þegar mér finnst voðalega snobbað að fara á Starbucks eða þegar ég FLYSJA TÓMATANA (já, ég er farin að gera það) eða set ostinn UNDIR áleggið þegar ég baka pizzu.
Ég get ekki lýst því hvernig mér líður þegar ég hugsa til þess að þetta líf haldi ekki áfram heldur verði eftir fjórar vikur skyndilega orðið að fortíð; "þegar ég var í Chile". Einmitt núna er það svo raunverulegt og eitthvað svo "rétt". Þetta er eins og að kippa af plástri, það er ekki hægt að gera þetta smátt og smátt heldur verður maður að fara allur í einu og getur víst ekki verið á tveimur stöðum í einu. Ég veit að vinir mínir hér munu aldrei geta heimsótt mig, til þess eiga þeir engan pening, og hver veit hvað gerist með mitt líf, hvar ég verð í haust, í hvaða landi og í hvaða pælingum. Ja hérna, bara við að skrifa þetta fæ ég kökk í hálsinn.
Ég er líka leið af því að vinur minn sem bjó hérna í íbúðinni í þrjá mánuði (frá Chile) þurfti að fara í dag af því að hann fékk ekkert útborgað í þrjá mánuði, því að fyrirtækið er í vandræðum og hann fær engin svör frá forstjóranum. Hann hafði því ekki efni á að leigja lengur og þurfti að fara heim til mömmu aftur. Mér finnst þetta svo hrikalega ósanngjarnt að ég fer næstum því bara að grenja yfir því líka (ég er orðin rosaleg sko).

Trúiði því að þessi færsla er ritskoðuð því að væmnin var svo yfirþyrmandi að það hefði misboðið íslenskum lesendum? Og er þó nógu mikið eftir af henni. Það truflar mig þó að geta ekki bara verið væmin á íslensku án þess að skammast mín, heldur þarf ég alltaf að setja einhverja svona afsökun, réttlætingu eða fyrirvara. Hér er ég bara væmin, punktur. Og allt í lagi með það. Og ég felli tár, alveg eins og vinir mínir, og það er allt í lagi með það líka. Enginn kippir sér upp við það, ekki frekar en ég kippi mér lengur upp við það. Ég er orðin leið á að fela það hvernig mér líður og ætla að hætta að gera það. Ég veit að það verður erfitt á Íslandi en ég ætla að reyna.

En nú er ég farin að fá mér bjór.
Það er nú einu sinni laugardagskvöld.

144 ummæli: