fimmtudagur, janúar 27, 2005

Ein úr Tungunum

Í gær þrammaði ég niður í bæ og þræddi hannyrðaverslanir miðbæjarins. Ég keypti mér stóran troðfullan poka af ull (til að þæfa úr) á Skólavörðustígnum og dýrindis garn í sjal í Storkinum. Svo labbaði ég mér niður á Ingólfstorg með poka í jólasveinastærð á bakinu og sem ég stóð og var að ákveða mig inn í hvaða "icelandic wool" "tax free" búð ég ætlaði inn í næst, kom að mér ágætis róni sem spurði mig hvort ég væri villt. Ég sagði það nú ekki vera, en hann trúði því ekki alveg og spurði svo: Ertu kannski ekki Reykvíkingur.?" Ég svaraði staðföst að það væri ég nú víst, ég væri bara að ákveða mig í hvaða búð ég ætti að fara næst.
Þá tók hann í handlegginn á mér og sagði (óþægilega beint ofan í andlitið á mér): "Ó afsakaðu, og gangi þér vel. Þú ert fín" Svo hélt hann sína leið.

Þennan mann hefur greinilega langað til að hjálpa saklausri sveitastelpu að rata í stórborginni Reykjavík þar sem hann er sjálfur öllum hnútum kunnugur. Ég ákvað strax að segja honum ekkert frá því að ég væri nú með lögheimili úti á landi og hefði bara búið í Reykjavík í tæp 6 ár. En ég lái honum ekki að hafa haldið að ég hafi verið sveitalubbi þar sem ég stóð með fullan poka af óþæfrði ull lítandi í kringum mig á Ingólfstorgi. Hann hefur kannski fundið sauðalyktina sem lagði af ullinni. Það er samt svolítið óhugnanlegt að enn sé litið á mig sem sveitastelpu, en kannski geri ég líka óvart eitthvað í því að viðhalda ímyndinni. Það eru nefnilega margir sem halda að það séu bara stelpur utan af landi sem prjóna og sauma sér sjálfar föt. Það er mesta rugl eins og dæmin sanna.

PARTÝ

Föstudaginn 28. jan ætla ég að halda kveðjuhóf þar sem ég er nú að fara að yfirgefa þetta land (vonandi ekki fyrir fullt og allt þó heldur bara fram í júní)

Hófið verður haldið á Gauki á Stöng, efri hæð, þar verður smá bjór í boði en svo er bjór á einungis 350 kr á barnum eftir það. Gamanið hefst klukkan 20 og ég vonast til að sjá sem flesta. Og þó ég hafi ekki hringt í alla þýðir það ekki að þeir séu ekki boðnir, þetta er formlegt boðskort og menn mega alveg tjá sig um það hér fyrir neðan. Æskilegt er þó að ég þekki viðkomandi.

Verið velkomin, Svanhvít sveitalubbi.
En hér er tilkynning fyrir þá sem

Engin ummæli: