laugardagur, janúar 01, 2005

væmna bloggið

Er það ekki furðulegt hversu mikið getur breyst á einu ári? Í byrjun ársins hefði mér ALDREI dottið í hug að ég myndi vera að gera það sem ég er að gera núna. Fyrir ári síðan bjó ég á Ásvallagötu hjá Steina og vissi lítið um hvernig framtíðin myndi verða. Ég bjóst samt ekkert við neinum gríðarlegum breytingum. En síðan hefur ýmislegt gerst, ég hef farið þrisvar sinnum til útlanda á árinu, til fimm landa, búið á þremur stöðum og á engan kærasta lengur. Ég bý nú á Reynimel með Pólverja, Dana og fötluðum strák sem ég vinn við að aðstoða. Ég er búin að missa samband við góðan vin sem ég vona að ég hafi einhvern tímann manndóm og kjark í mér til að reyna að endurheimta en ég kynntist mörgum öðrum í staðinn, aðallega fólki sem ég þekkti svolítið fyrir og kynntist mun betur á árinu, eins og Láru, Sigurrósu, Tótu, Siggu og Björk, og ég er mjög ánægð með það.
Allar þessar breytingar hafa tekið á, og ég er ennþá að vinna í mínum málum. En svona er þetta líf nú bara, og ég sé ekki eftir neinu sem ég gerði á árinu og lít ekki bitur til baka. Í staðinn ætla ég að láta næsta ár verða viðburðaríkt, og efast ekki um að það verði, því núna í febrúar er ég á leiðinni til Spánar þar sem ég verð allavegana fram í júní, það verður ævintýri sem ég hlakka til að lenda í. Þegar ég kem heim aftur veit ég ekkert hvað bíður mín, ég veit ekki einu sinni hvar ég á að búa... En svona er lífið bara hjá mér þessa dagana, og það er bara allt í lagi.

Vonandi verður árið hjá ykkur öllum gott, og betra en síðasta ár.

Alltof væmin kveðja,
Svanhvít

Engin ummæli: