Jæja, maður verður víst að standa við stóru orðin... og skrifa eitthvað.
Gallinn við að búa við Ægissíðuna er allt hlaupa- og hjólapakkið blasir við í næstum hvert skipti sem maður lítur út um stofugluggann. Það bregst ekki að þegar ég sit í mestu makindum fyrir framan sjónvarpið, kannski með bjór eða skál með ís við hönd, að um það bil tíu skokkarar og fimm hjólreiðamenn þeytast hjá, og óhjákvæmilega kippist ég við og lít upp, það eru einhver ósjálfráð viðbrögð. Þetta hefur pirrað mig óstjórnlega í vetur, svo upp á síðkastið (og þetta er sögulegt) er ég farin að læðast út á Ægissíðuna í gömlum joggingbuxum og snjáðum strigaskóm og reyna að sanna fyrir mér að ég geti þetta líka, og einhverjir aðrir sitji í sínum kjallaraíbúðum með sína nammiskál og horfi á mig þeysa framhjá, sem Adonis; hreystin uppmáluð. Eða kannski ekki þeysa, meira svona hlunkast framhjá, úffandi og púffandi. Og upp á síðkastið hefur þeim bara farið fjölgandi, skokkurunum, út af þessu blessaða maraþoni sem er að gera allt vitlaust út af milljóna-auglýsingaherferð Glitnis. Svo þegar ég fór út að “hlaupa” í morgun var margoft tekið framúr mér af fólki sem virkilega KANN að hlaupa, og er í hlaupabuxum og með derhúfu og iPod og magabelti og kílómetramæli og hjartsláttarmæli og allt sem maður þarf til að vera hlaupari. Það fólk ætlar líka að hlaupa maraþon. Ég held ég myndi ráða við krakkamaraþonið, sem er 1,5 km, en varla mikið meira... nema með góðum labbköflum inn á milli...
Ég er sama og ekkert búin að skrifa í allt sumar, ég er venjulega komin með ógeð á textum hvers kyns þegar ég er búin að lesa fréttagreinar í 7 klukkutíma, svo ég hef ekki haft mikla lyst á að skrifa neitt sjálf. En nú verður vonandi gerð bragarbót á. Reyndar ekki næstu vikuna, því þá verð ég með familíunni í Barselónu, borg Gaudís. Það verður ekki leiðinlegt, ónei. Ble ble...
föstudagur, ágúst 18, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli