sunnudagur, janúar 21, 2007

Andlaus

Afskaplega er erfitt að blogga þegar maður hefur ekki bloggað lengi. Svona eins og það er erfitt að koma sér í gírinn að fara í ræktina reglulega. Þegar maður hefur ekki gert það lengi finnst manni að það breyti nú litlu þó maður sleppi einum degi í viðbót og svo er allt í einu liðinn heillangur tími og þá er ennþá erfiðara að byrja. Nú finnst mér ég þurfa að koma með eitthvað tímamótablogg en því er nú ekki að heilsa, ég eyði tímanum í að lesa en ekki skrifa þessa dagana. Enda fæ ég borgað fyrir að lesa... ekki skrifa.

En voða eru þeir vængbrotnir, sportararnir (les íþróttafréttamennirnir) núna, sportdeildin er við hliðina á próförkinni og ég stakk hausnum í hornið til þeirra rétt áðan til að spyrja: "Töpuðum við?" Og fékk til baka óskaplega dapurlegt og samtaka jánk frá þeim. Engin orð, bara sorg. Ég er þó laus undan þessari pínu, að þurfa að taka inn á mig rassskellingar einhverra Íslendinga úti í heimi. Enda finnst mér nóg um þegar heil þjóð veltir fyrir sér í marga daga ástandi axlar á einum ljóshærðum gutta.

Ný önn er hafin, ég er í 13,5 einingum en líður eins og þær séu svona 30. Verð víst að viðurkenna að það er kannski smámunur á BA- og meistaranámi. En rosalega verð ég orðin gáfuð í maí!

Yfir og út, lofa bættri bloggtíð.

Engin ummæli: