miðvikudagur, júlí 11, 2007

Trarillandræ, hann Bjössi í Bæ

Í tilefni þess að á laugardaginn fer ég á ættarmót Bæjarættarinnar er hér kvæði eftir hann Björn Guðmundsson frá Bæ, langafa minn. Þetta kvæði er mikið sungið í minni ætt, en ég veit ekki hvað lagið við það heitir, en ég get raulað það fyrir þann sem innir mig eftir því.

Fyrsti dansinn

Er fór ég út á dansgólfið í fyrsta sinn,
af feikna hræðslu titraði allur líkaminn,
því það er ekki öllum fært að eiga að stíga dans
og á sig gera sveiflur eftir takti spilarans.
Fæturnir þeir fóru skakkt,
frökenin komst ekki í takt,
ofan á tærnar ólmur sté,
og í hana setti bæði hné,
af liðugheitum lítið hafði að láta í té.

Ég heyrði mér til skelfingar hún hljóðaði,
í hársræturnar alveg stúlkan roðnaði.
Skyldi ég hafa limlest allan lægri part af mey,
til læknis er þó hægt að ná ef kjarkinn bilar ei.
Efri kroppnum illa leið,
undan mínu taki sveið.
Ég hafði klipið handfylli,
í herðablað á stúlkunni,
og kreisti svo í beinum handar brakaði.

Svona hélt ég áfram þó mig svimaði,
og sinnti ekki neinu öðru en stúlkunni.
Ég hafði sterkan huga á að læra þessa list,
svo lipur herra gæti orðið, best sem allra fyrst.
Loksins þó ég linaðist,
litla daman sagði byrst;
heyrirðu ekki hérinn þinn,
það hló að okkur spilarinn.
Við vorum tvö að dinglast innan um
danssalinn.

Eftir þetta ég æfði mig í einrúmi,
og er nú orðinn sæmilegur dansari.
dömunni ég þrýsti að mér létt með lófunum
og laumast til að strjúka um bakið,
svona í hornunum...
­Þetta unun þykir mér,
þjóðarskemmtun dansinn er.
Fæturnir þeir fljúga í takt,
og fara ekki vitund skakkt,
í einu stökki hef ég salinn undir lagt.

Ég bágt á með að lýsa þeirri lífsins þrá,
sem læðist gegnum heitan kroppinn til og frá.
Því það er eins og segulmáttur sveigi höfuðið,
það sígur ofur gætilega út á hægri hlið.
Ef að daman ekki er lág,
alveg mætast vangar þá,
í algleymisins unaði,
og yfirspenntri lífsgleði.
Já hvað er sælla en svona fagurt samræmi.

Engin ummæli: