laugardagur, september 01, 2007

Í Bandaríkjunum er víst lenska að í hverjum háskóla sé minnst ein akapellagrúppa, oftast skipuð strákum. Þessar grúppur taka bæði hefðbundin barbershop-lög og svo ólíklegustu vinsæl lög og útsetja fyrir raddir eingöngu.

Ég er ofsalega svag fyrir svoleiðis tónlist, og finnst svona sönglúðar sexí.

Hérna er síða eins svona bandsins, Carleton Singing Knights.

Þessir piltar taka lög alls kyns listamanna og "gera að sínum", t.d. lög eftir Sufijan Stevens, Cure, Flaming Lips, Pink Floyd, Zero 7 og Daft Punk. Hlustið á Harder, Better, Faster, Stronger á mæspeisinu. Það er magnað.
-----
Ég er annars að syngja í ansi skemmtilegum kór sem heitir Hvönn, eða Angelica á útlensku, og hann er með tónleika á morgun (þá fyrstu og einu), á UNM (Ung Nordisk Musik)( í Neskirkju kl. 20).

Þar erum við að syngja verk eftir skandinavísk tónskáld (sem verða því miður öll á tónleikunum) og fáum svolítið að experímenta með hljóðin sem mannsröddin getur gefið frá sér. Í einu verkinu syngjum við á bullmáli og byrjum á að anda inn og út í átta röddum eftir ákveðnu taktmynstri og segjum svo sssssssss í ca hálfa mínútu. Svo tökum við til við að tala á innsoginu, gera urg eins og maður býr til í hálsinum og skrítin höggraddbandalokhljóð (ehh... eða eitthvað). Undir þessu öllu stynur fólk á snældu, og við bætast fugla- og geimhljóð. Þar á eftir kemur kafli þar sem maður ranghvolfir augunum við að telja út hvenær maður á að koma inn með næsta tón. Smart. Óþarft er að taka fram að þetta er frumflutningur, og tónskáldið viðurkenndi að hafa aldrei samið svona verk áður. Stundum held ég að þessi tónskáld séu bara að hafa mann að fífli, til að reyna að komast að því hvað þau komast langt í ósvífninni. Kannski er þetta bara eitt djók. Heilum kór eru gefnar voða fínar nótur með alls kyns búkhljóðum sem hann stendur sveittur við að æfa, og svo situr tónskáldið heima hjá sér og hlær. Svo dásamar fullur salur af tónleikagestum hversu frumlegt og flott þetta hafi verið.

Æ, þetta er samt alveg gaman...

Koma ekki allir á tónleika á morgun?

1 ummæli:

Magnús sagði...

Hefurðu nokkuð spáð í að leggja markaðsfræði fyrir þig? Þetta er skuggalegur hæfileiki.