þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Ég er að pakka. Allir sem hafa pakkað (undir þetta mengi falla líklegast allir) þekkja að þegar kemur að litlu hlutunum í skúffunum og hirslunum hægist verulega á yfirferðinni og dagur sem verja átti í kassaburð og skipulagningu er án þess að maður taki eftir því orðinn að rómantískri stund endurhvarfs til liðinna gleðistunda, bara af því maður fann bréf sem gamall vinur skrifaði manni fyrir fjórum árum eða myndaalbúm frá því maður var á sumarnámskeiði fyrir sex árum.

Þessir smáhlutir, sem a.m.k. í mínu tilfelli eru langflestir frá útlöndum, eru eitthvað sem maður vildi einhverra hluta vegna ekki henda á sínum tíma þótt þeir séu algjörlega verðlausir, gagnist manni aldrei framar og séu sjaldnast nokkuð fyrir augað (lestarmiði úr interreilinu, snjáð götukort af Barcelona, aðgöngumiði að bar sem maður á góðar minningar frá, flyerinn sem nöttarinn á horninu rétti manni, nafnspjald frá ráðstefnunni eða námskeiðinu sem maður fór á o.s.frv.). Síðan daga þeir uppi í skúffum og hólfum og kössum og verða hluti af lífi manns án þess að maður hugsi um þá. Það er svo ekki fyrr en maður þarf að taka til, aðallega við flutninga, sem maður þarf að fara almennilega í gegnum þá og sortera og grisja, sem er einmitt þegar maður hefur alls ekki tímann til þess að strolla niður minningastíg. Samt er svo gaman að finna þessa hluti og gleyma sér í smástund, ganga svo frá þessu dóti ofan í kassa og líta ekki á það fyrr en í næstu flutningum eða stórhreingerningum, þegar enn meira hefur bæst við. Ég held að maður geymi þessa hluti einmitt til að geta rifjað þá upp í mesta stressinu, sem einmitt fylgir oftast flutningum, og þannig haldið geðheilsunni. Þannig getur gamall bæklingur úr vínsmökkun eða mynd af stráknum sem maður var skotinn í í áttunda bekk hjálpað manni í gegnum erfiða tíma og er þess vegna alls ekki jafngagnslaust og mætti halda.

Nú er ég búin að pakka niður bókunum mínum í tíu kassa (and counting) og á morgun held ég upp í Geymslur til að byrja að fylla litlu kompuna mína. Það er ekki seinna vænna því á mánudaginn yfirgef ég skerið. Annars líða dagarnir hjá í matarboðum, kaffiboðum, heimboðum og rafmagnslausum boðum og eru bara ansi ljúfir nú eftir að ég hætti að vinna. Ég er líka orðin ansi meyr og fæ kökk í hálsinn við minnsta tilefni. Það er vel hægt að sakna einhvers sem maður hefur ennþá hjá sér, einhvers konar fyrirfram nostalgía, og ég hef verið í því síðustu mánuði að sakna íslenska djammsins, heita vatnsins, sængurinnar minnar og pabba, mömmu og systkina minna, vinanna og fíflaskaparins í þeim, og hvað þá barnaskarans þeirra sem eru komnir það langt. Ég er mikið til laus og til í tuskið ef einhvern vantar lönsdeit eða langar að kippa í nokkra kassa eða bara kyssa mig á kinnina, svo hafið bara samband.

2 ummæli:

Þura sagði...

ERTU AÐ FARA Á MÁNUDAGINN !!!

Ég var engan vegin búin að átta mig á hversu nálægt þetta væri (ekki að ég verði miklu mun fjær þér (gegnum internetið) heldur en núna, en samt)

knús!

Nafnlaus sagði...

Úfff hvað ég kannast við þetta með flutningana, ótrúlegt drasl (en þó ekki drasl) sem maður hefur safnað að sér og hendir engu.

Þá er að koma að þessu hjá þér... njóttu síðustu daganna heima í botn og góða ferð og allt þetta. Hlakka svo að fylgjast með blogginu frá Samríkunni.