laugardagur, maí 17, 2008

Hlustið góðir vinir, ég skal sögu ykkur segja

Hér hefur ekki verið mikið skrifað síðustu vikur, og ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki getað það – líkamlega. Ég semsagt lenti í svolitlu slysi í eyðimörkinni, en er alveg orðin góð núna. Einhverjir hafa fengið nasaþefinn af því sem gerðist en hér kemur sagan eins og hún leggur sig. Hún verður eflaust í löngu máli, aðallega til að ég eigi hana einhvers staðar hripaða niður til að geta rifjað hana upp.

Ég, Marte hin norska og Pepita hin finnska fórum í ferðalag norður í Atacama-eyðimörkina fyrir tveimur vikum, miðvikudaginn 30. apríl, í litla þorpið San Pedro de Atacama, í tveggja og hálfrar klukkustundar fjarlægð (með flugvél) frá Santiago. Planið var að skoða öll þau fjölmörgu náttúruundur sem þar er að sjá og fara svo í þriggja daga jeppaferð til Bólivíu og skoða meðal margs annars stærstu salteyðimörk í heimi. Fljúga svo heim á mánudeginum. Það var eins og að vera kominn til annars lands að lenda í borginni Calama, 100 km frá San Pedro. Ekkert nema sandur, fjöll, kaktusar og lamadýr svo langt sem augað eygði. Í San Pedro, sem er sannkölluð vin í eyðimörkinni, og þess vegna mjög vinsæll ferðamannastaður, rákumst við á þýska stelpu sem ferðaðist ein svo við buðum henni að slást í för með okkur, fundum okkur sætt hostel og fyrsta daginn röltum við um bæinn. Þar búa um tvö þúsund manns og langflestir starfa við ferðaþjónustu. Um kvöldið sá ég magnaðasta stjörnuhimin sem ég hef nokkurntímann orðið vitni að. Það er ekki að ástæðulausu sem verið er að reisa stærstu stjörnuskoðunarstöð heims þarna í eyðimörkinni.

Annan daginn ákváðum við að vera ævintýragjarnar og leigðum okkur fjallahjól og sandbretti (tilboð með Gatorade, 6 klst. á 900 kall, en engir hjálmar, því við gleymdum að biðja um þá, og þeir eru frekar sjaldséðir hér). Sandbretti eru eins og snjóbretti, nema maður rennir sér á sandi og fer miklu hraðar. Brettin voru sett á bakið á okkur og við fengum kort sem vísaði okkur á Dauðadal (Valle de la Muerte), þar sem við áttum að leika okkur á brettunum.

Það var ekkert auðvelt að hjóla í 2.500 metra hæð, verð ég að viðurkenna, og mér var hálfóglatt eftir fyrstu brekkuna; það var eins og ég gæti ekki andað öllu því súrefni sem ég þurfti. Svo þegar við fórum niður brekkuna var hraðinn allt í einu svo mikill að ég áttaði mig ekki á því, ætlaði að hægja smá á mér en bremsaði meira öðrum megin (handbremsur) svo framhjólið læstist og ég flaug beint á hausinn og lenti með andlitið á malbikinu. Það eina sem ég sá þegar ég reyndi að standa upp var blóðið sem fossaði úr enninu á mér og hárlufsa sem varð eftir á veginum. Ég sagði ekkert annað en “Það er allt í lagi með mig” en aumingja vinkonur mínar áttu bágt með að trúa því, enda var það líka kannski ekki alveg rétt, þótt ég áttaði mig ekki á því sjálf. Mér fannst bara ofboðslega leiðinlegt að stelpurnar skyldu ekki geta farið á sandbretti. Þær fengu hrikalegt sjokk, en náðu þó að stöðva fjölskyldu í bíl sem átti leið um. Svo heppilega vildi til að þessi fjölskylda var greinilega meira en vön alls kyns slysum og þegar ég settist upp í bílinn, alblóðug á höndum og andliti, og bað litlu stelpurnar í aftursætinu afsökunar og sagðist ekki vilja hræða þær, sögðust þær alveg þekkja þetta því þær væru alltaf að meiða sig í allskyns fjallaferðum.

Fjölskyldan góða ók með mig á heilsugæslustöðina í San Pedro, sem er pínulítil og fátækleg (á meðan ég var þar var okkur sagt að það ætti að taka rafmagnið af henni (eins og öllu þorpinu, sparnaðaraðgerðir vegna þurrka) í einhverjar klukkustundir). Munum að þetta var fyrsta maí, sem er frídagur þar eins og annars staðar, svo fyrst tók við nokkur bið eftir lækninum (fyrsta bið af mörgum þann daginn), sem var undurfögur kona sem sagði mér að þetta væri allt í lagi og ég gæti örugglega alveg farið til Bólivíu daginn eftir (sem var planið), en ég þyrfti fyrst að fara til Calama til að láta taka af mér röntgenmynd, og þar yrði ég saumuð almennilega saman, því ég var með ljótan skurð á enninu og annan á nefinu. Mér var því rippað saman til bráðabirgða til að það hætti að blæða svona mikið, fékk saltvatn í æð og var send í sjúkrabíl, saman með gömlum indjána í öndunarvél, og Pepitu, sem fékk að koma með mér, í eins og hálfs tíma bílferð til koparnámuborgarinnar Calama. Fyrst þurfti þó auðvitað að gera upp (sem var reyndar það fyrsta sem var gengið frá, með höndina alla tætta, blóðuga og máttlausa þurfti ég að krota nafnið mitt á kvittun fyrir læknisþjónustunni og sjúkrabílnum (samtals um 22.000 krónur) og punga þessu út í reiðufé. Þar sem ég var auðvitað í engu ástandi til þess, og þar að auki ekki með nógan pening á mér (í San Pedro er bara einn hraðbanki og hann vildi ekki kortið mitt) þurftu stelpurnar að borga reikninginn með sínum aurum. Við báðum um að ég yrði send á einkaspítala (klíníku) því við höfðum allar heyrt hryllingssögur af ríkisspítulunum í Chile, og ég var með alþjóðlega slysatryggingu, svo það átti ekki að vera vandamál.

Eftir lengsta einn og hálfa tíma í lífi mínu komum við loks til Calama, áreiðanlega einnar ljótustu og hættulegustu borgar Chile, og á klíníkuna þar sem var vel tekið á móti mér, alveg þangað til ég sagðist vera með alþjóðlega tryggingu. Þá seig brúnin á lækninum og mér var tjáð að spítalinn ynni ekkert með alþjóðlegar tryggingar, og þetta yrði mjög dýr meðferð, bara röntgenmyndin kostaði 50.000 krónur. Ég lá þarna með gat á hausnum og hugsunin því ekki nógu skýr (þessu átti ég eftir að sjá mjög eftir seinna), og þekkti heldur ekki nógu vel til hvernig danska slysatryggingin mín virkaði (og gat ekkert hringt), svo þegar ég fékk svona hörð viðbrögð varð ég frekar óörugg, og vildi ekki steypa mér í ófyrirséðar himinháar skuldir, svo ég og Pepita leyfðum þeim að senda mig í sjúkrabíl á ríkisspítalann (eftir langa bið, auðvitað) en klíníkan rukkaði okkur merkilegt nokk ekkert fyrir þetta.

Læknirinn á klíníkunni hafði séð til þess að ég þyrfti ekki að bíða á biðstofunni á bráðamóttökunni á spítalanum, sem hefði tekið nokkra klukkutíma í viðbót, og mér var ekið beint inn, og Pepita fylgdi í humátt á eftir. Þar tók við... bið auðvitað, þar til við beinlínis tosuðum eina lækninn á vakt inn á stofuna þar sem við biðum og báðum hann að segja okkur hvað myndi gerast. Hann kom eins og himnasending, horfði á mig djúpum brúnum augum, sagðist vera skurðlæknir og lofaði mér að sauma mig alla aftur saman svo að allt yrði fullkomið (ekki veit ég hvað ég heyrði oft þann daginn “ég veit nú hvað þið konurnar eruð hégómagjarnar, þið þolið ekki nein lýti á andlitinu”. Ég meina það, hver vill það?). Ég þyrfti bara að vera svolítið þolinmóð, fyrst þyrfti hann bara að sinna þremur sjúklingum, svo kæmi hann. Ég væri í forgangi hjá honum. Nú færi ég í sneiðmyndatöku því hann vildi helst hlífa mér við röntgenmyndatöku “því þú ert ung kona sem vilt kannski eignast börn og það er mjög mikil geislun í tækinu”. Við Pepita urðum aldeilis kátar og gátum alveg skilið að við þyrftum að bíða eftir svona mikilvægum manni, þetta yrði nú allt í lagi.

Svo við biðum. Á meðan við biðum fengum við tækifæri til að kynnast aðeins spítalanum. Við höfðum tekið eftir því um leið að það var mikill munur á honum og klíníkunni þar sem við fórum fyrst, mun eldra hús og verr farið, en svo fórum við að taka eftir blóðslettunum á veggjunum og loftinu, götuhundunum og útigangsmönnunum sem lágu á víð og dreif frammi á biðstofunni og öllum lögreglumönnunum með byssurnar sínar og kylfurnar inni á spítalaganginum þar sem við biðum, sem héldu fast í upphandleggi á handjárnuðum og blóðugum unglingum. Það var ekki nein sápa né klósettpappír á baðherbergjunum og eina viðleitnin við að halda þeim hreinum var handskrifað blað sem á stóð: “Haldið baðherberginu hreinu”. Illa farið og grátandi fólk og gubbandi smábörn biðu klukkustundum saman eins og við eftir að vera sinnt og hjúkrunarkonurnar (nú var komið kvöld og þær voru þrjár á vakt) höfðu auðvitað ekki við að hjálpa öllum sem þurftu aðstoð, svo við sjúklingarnir þurftum að hjálpa hver öðrum, með æðaleggi, klósettferðir og fleira. Það var erfitt að horfa á gömlu konuna í rúminu á móti sem var föst í snúru við eitthvert rafmagnstæki og gat ekki farið á klósettið, og var búin að kalla á hjúkrunarkonuna í hálftíma, en hún hafði bara rekið inn hausinn og skipað henni að fara bara sjálf. Þá þurfti gamla konan að kippa sjálfri sér úr sambandi og staulast á salernið. Ég heyrði líka hjúkrunarkonu segja í símann: “Það er ekki mér að kenna ef þú getur ekki borgað fyrir aðgerðina.”

Þegar þarna var komið sögu var saltvatnið mitt í æð (sem heitir suero á spænsku, ég lærði fullt af nýjum orðum þennan dag) sem ég hafði fengið um morguninn löngu búið og við búnar að garga margoft á hjúkrunarkonurnar, sem ekkert gerðu því þær höfðu ekki fengið neinar upplýsingar um mig. Ég fann ekki fyrir hungri en aumingja Pepita hafði heldur ekkert borðað allan daginn, og við vorum í mjög hættulegri borg þar sem engin stelpa gat farið út eins síns liðs eftir myrkur, svo að maður sem hafði beðið með okkur í einhverja klukkutíma, ávaxtasafasali og sonur gamallar veikrar konu, fylgdi henni útí sjoppu þar sem hún fann einhverjar smá kartöfluflögur, og enn áttum við Gatorade-ið frá því um morguninn, svo það var næringin sem hún fékk þann daginn. Hún þurfti að fara nokkrum sinnum út af spítalanum, aðallega til að ná í meiri pening í hraðbanka, því ekkert gerðist nema við værum búnar að borga fyrir það (og alltaf í reiðufé), og alltaf var einhver góðhjartaður sjúklingur eða aðstandandi sem fór með henni því enginn gat hugsað sér að hún færi ein út (þetta var rétt eftir kvöldmat).

Í ljósi þess hvernig dagurinn hafði verið var ég farin að hafa svolitlar áhyggjur af þessari tryggingu minni og hvernig hún virkaði, svo Pepita fór enn einu sinni út, í svona “call center” og hringdi í neyðarnúmerið hjá tryggingafélaginu í Danmörku og spurði hvernig við ættum að bera okkur að. Þar var okkur auðvitað sagt að það skipti engu máli hvaða spítala við færum á, einkarekinn eða ríkis, allt væri borgað ef ég bara sendi kvittanirnar eftir á. Sem þýddi auðvitað að ég hefði getað verið á góða spítalanum, látið stjana við mig og verið komin aftur til San Pedro um kvöldmatarleytið. Stuttu eftir þessar fréttir tókst mér að grenja út (bókstaflega) samtal við lækninn, því nú var kvöldvaktarlæknirinn tekinn við. Sú sagði mér að hún gæti ekkert verið að sauma mig aftur saman, það væri þegar búið að sauma mig. Hún þyrfti aftur á móti að sjá af mér röntgenmynd. Hennar álit var semsagt í hundrað prósenta andstöðu við álit hins læknisins (við sáum hann þegar hann var á leið út, hnipptum í hann og sögðum honum þetta, en hann yppti bara öxlum og sagðist ekkert geta gert, þetta væru bara mismunandi álit kollega). Á sama tíma og ég fékk þessar miður skemmtilegu fréttir byrjaði uppþot í vandræðaunglingunum frammi á gangi, mikil öskur og læti, bæði í þeim og lögreglumönnunum, svo ég varð skíthrædd.

Það var þá sem ég brotnaði niður og hágrét, og var alveg sama hver sæi mig eða heyrði í mér. Ég var föst í einhverjum gettóspítala í eyðimörkinni, mér var illt alls staðar, með ljótan skurð á enninu sem hafði verið rippað saman og enginn ætlaði að gera nokkurn skapaðan hlut í og ég sá fyrir mér að ég yrði afskræmd fyrir lífstíð, síðasta rútan til San Pedro var farin og ég örugglega búin að eyðileggja Bólivíuferðina fyrir Pepitu, sem átti að leggja af stað klukkan átta næsta morgun. Og það versta var að ég hefði getað komið í veg fyrir þetta rugl ef ég hefði bara kunnað aðeins betur á bölvaða trygginguna.

Ég var send í röntgen, sú bið tók auðvitað svona tvo klukkutíma, svo klukkutími þar til læknirinn leit á myndirnar og sagði mér sem betur fer að allt væri í lagi, svo leið einn klukkutími í viðbót þar sem ég beið eftir að vera þrifin í framan og fá sárabindi í andlitið (nóta bene meira en tólf tímum eftir að ég datt). Sjálf sleit ég legginn úr olnboganum á mér, enda lausnin búin fyrir mörgum klukkutímum og enginn hafði sýnt neinn áhuga á að gera nokkuð í því. Klukkan var orðin eitt um nótt þegar við gátum loksins farið, og með hjálp mjög vingjarnlegs manns, sem var búinn að hringja í alla vini sína og spyrja þá hvort þeir gætu keyrt okkur til San Pedro, fengum við leigubíl, það kostaði um 5000 kall að komast til San Pedro en okkur var svo nákvæmlega sama, bara að við kæmumst, því nokkrum klukkutímum seinna var Pepita að fara til Bólivíu.

Daginn eftir, þegar ég hafði kvatt stelpurnar, reyndi ég að skipuleggja hvað ég ætlaði að gera, og komst fljótt að því að eina vitið væri að fara aftur til Santiago, og það sem fyrst. Ég fann flug sem fór klukkan sjö um kvöldið, missti af öllum mögulegum rútum til Calama, þar sem ég þurfti að fara á spítalann til að borga síðasta reikninginn sem við höfðum náðarsamlegast fengið að skulda, því hraðbankarnir bara leyfðu okkur ekki að taka út meiri pening, og endaði á að taka aftur leigubíl. Það reyndist þó eini bjarti punkturinn í þeim degi, því bílstjórinn var svo skemmtilegur, og ég þurfti nauðsynlega að tala við einhvern, um bara eitthvað, því það var ekkert æðislega gaman að vera þarna ein í eyðimörkinni. Á leiðinni sá ég blóðpollinn sem ég hafði skilið eftir mig daginn áður.

Þegar ég loksins komst á flugvöllinn var ég orðin banhungruð, enda ekkert búin að borða í tvo daga. Ég var ekki með nægan pening til að kaupa mér mat, bara til að taka leigubíl af flugvellinum í Santiago og heim, en ég var með kort, svo ég ætlaði að fá mér eitthvað að borða, en kortavélarnar virkuðu auðvitað ekki. Ég var frekar lemstruð eftir höggið og eftir að bera allan farangurinn minn, og ætlaði að kaupa aspirín í flugvallarsjoppunni, veifaði tíuþúsund pesóaseðli framan í afgreiðslustúlkuna því ég átti ekkert minna, en hún sá aumur á mér og gaf mér fjórar aspirín. Það hefur ekki verið sjón að sjá mig, enda hræddi ég ansi mörg börn þennan dag. Í flugvélinni spurði ég flugfreyjurnar strax hvort það væri borinn fram einhver matur, þær sögðu að það væri bara kex og salthnetur seinna í fluginu, en þegar þær litu almennilega á mig voru þær fljótar að láta mig fá tvo kassa með kexi og hnetum og vatn, og svo gáfu þær mér líka heitt brauð, afgang af flugfreyjumatnum.

Það var dásamlegt að komast heim. Það var líka dásamlegt að fara strax um kvöldið með Kelly á bráðamóttökuna hjá kaþólska háskólaspítalanum mínum. Það var svo hreint og bjart og yndislegt, og litli bronskrossinn á veggnum virkaði sem besta róandi á mig. Tveir læknar og þrjár hjúkrunarkonur snerust um mig, meira en allt staffið á hinum spítalanum á heilli vakt. Þar voru ljótu saumarnir teknir og ég fékk alls kyns undarlega og alveg magnaða plástra og eftir klukkutíma var ég komin út, eins og múmía með sárabindi um höfuðið, plástra á nefinu og vörinni og hendur og olnboga innvafin. Ég hafði auðvitað fengið sýkingu í sárið á enninu eftir spítalavistina og eyðimerkurþvælinginn svo ég fékk sýklalyf og einhver dásamlega verkjalyf, plús krem.

Næstu vikuna gerði ég lítið annað en að sofa og láta snúast í kringum mig, ég fékk sjónvarp inn á herbergi, mat eldaðan, hár þvegið og mikla vorkunn. Nú tveimur vikum seinna er ég loksins laus við allar umbúðir og alla töfraplástrana sem læknuðu bágtið á nótæm og skarta þessu fína Y-laga öri á enninu (Harry Potter var með Z) sem sól má ekki skína á í tvö ár því þá verður það dökkt og ljótt. Hvernig ég á að forðast sól í tvö ár er mér ennþá ráðgáta, nema ég noti plástur á ennið. Uppástungur? Derhúfur fara mér illa. Reyndar ráðleggur önnur hver manneskja mér eitthvað nýtt til að losna við örið, emú-olíu, húðlitað límband, einhver skrítin jurt sem ég man ekki nafnið á, og svo það sem mér fannst áhugaverðast, mannafita. “Það gæti verið soldið erfitt að nálgast hana, en frændi minn vinnur á spítala...” Ég sá fyrir mér atriði úr Fight Club, og ætla að halda mig við smyrslið sem læknirinn ávísaði.

Chile er þróaðasta land í Rómönsku-Ameríku. Það er alveg satt. Þrátt fyrir það er gífurlega langt í land í menntunar- og heilbrigðismálum. Þeir sem eiga peninga fá góða þjónustu, á pari við það besta í Evrópu. Þar er nóg af vel menntuðum læknum og hjúkrunarfólki með allar nýjustu græjur sem sitja og bíða eftir að fá eitthvað að gera. Hinir sem ekki hafa efni á þessari þjónustu mega bíða á yfirfullum biðstofum og fá í heildina mun verri þjónustu. Og hvað þýðir verri heilbrigðisþjónusta? Það er ekki það sama og léleg þjónusta á veitingastað eða að þurfa að bíða lengi í röð í bankanum. Nei, það er jafnvel spurning um líf eða dauða. Auðvitað gerir starfsfólkið allt sem það mögulega getur til að sinna sjúklingunum sem best, en þegar ekki eru settir peningar í að borga fleira fólki til að vinna er takmarkað hvað nokkrar manneskjur geta gert. Þá verður að forgangsraða og bjarga þeim sem veikastir eru og láta hina bíða. (Á meðan situr starfsfólkið á einkaspítulunum auðum höndum með öll sín fínu tæki og menntun.)

Þó að við vissum að staðan væri slæm er það aldrei það sama að lesa um það og að sjá það með eigin augum, hvað þá finna það á eigin skinni. Við ofvernduðu Norðurlandabúarnir fengum þarna smá innsýn inn í hvernig meirihluti mannkyns lifir, því það er ekki stór hluti af heiminum sem hefur það jafngott og við.

Úff, ég vissi að þetta yrði langt, en að þetta yrðu fimm þéttskrifaðar Word-síður er kannski heldur langt. En inn fer þetta samt, svo les hver sem vill.

Góðar stundir.

10 ummæli:

Unknown sagði...

Úff elsku Svanhvít! Vá hvað ég hefði verið farin að gráta miklu miklu fyrr en þú. Svakalega varstu hörð af þér að þola vistina á þessum spítala! Og hugrökk að ferðast síðan ein heim eftir allt þetta. Gott að þetta endaði vel og þú ert heil heilsu, það skiptir mestu máli.

Gunni sagði...

Elskan mín, þú ert hetja!

Annars geta ör líka verið mjög töff.

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að þú ert á batavegi. Guðrún og Stella í próförkinni eru alltaf að spurja hernig þú hafir það eftir slysið svo núna ég get loksins svarað þeim almennilega :)

Tóta

Nafnlaus sagði...

Úffff... enn og aftur hriiiikalegt!
Til í að reyna eyðimörkina aftur þegar ég mæti á svæðið?

Nafnlaus sagði...

æjii sæta litla Svanhvít... finn til í hausnum þegar ég les þetta.
En þetta með örið og það megi ekki skína sól á það í 2 ár er líka gefið upp hér á landi. Þegar það var tekin fæðingablettur af kinninni minni sagði lýtalæknirinn mér að passa að það skyni engin sól á þetta í 1-2 ár til að örið yrði sem minnst. Ég fór að ráðum læknisins og örið mitt sést ekki nema með mikilli skoðun. Mitt ráð við þessu er að klippa til plástra og setja yfir. Getur sagt að þú sért aðdáandi rapparans Nelly eða reynt að koma nýju trendi af stað.
Farðu nú vel með þig.

Björk

Nafnlaus sagði...

Úf mér leið eins og ég væri komin í bíómynd að lesa þetta! Gott að þú ert á batavegi :)

Herdís Ellu systir

Svanhvít sagði...

Takk öll fyrir kveðjurnar.

Ég ætla sko að tækla eyðimörkina aftur, fyrst í vor (október) þegar hún er í blóma (já, það eru spes eyðimerkur hér sem blómstra) og ef sjálfspíningarhvötin ræður för í sumar/um jólin þegar þú kemur Eva, getum við farið þangað líka ;) San Pedro var æði og ég á ennþá eftir að sjá Mánadalinn og salteyðimörkina...

Regnhlif sagði...

Úff ég lifði mig hrikalega inn í þetta og var næstum farin að gráta af gremju! Úff maður, aldeilis lífsreynsla.

Verðurðu ekki bara að klippa á þig þykkan topp?

Nafnlaus sagði...

Plástur, toppur og sólgleraugu (bara til öryggis!!) og svo ótrúlega flottur sólhattur við. Kannski er hægt að fá plástur og sólhatt í stíl?
Fer að vinna í málinu.

En gott að þetta fór svona vel, ég vær næstum því farin að æpa til að vara þig við þarna í miðjunni og segja þér blessaðri að borga þá bara fyrir einkaþjónustuna. Við vinir og vandamenn getum alltaf efnt til söfnunnar eins og er í tísku núna á Íslandi (sbr. Hannes Hólmstein vesalinginn).

Þetta er ótrúlega vel skrifuð frásögn og eiginlega ætti hún að birtast í einhverju blaði.

Nafnlaus sagði...

Kæra frænka, þetta var mikil lesning og skemmtilega sagt frá, þó erfið reynsla þetta hafi augljóslega verið fyrir þig.
Gott að vita að þér er að batna
kv.
Hulda Pulda frænka