miðvikudagur, maí 28, 2008

Meira úr sömu átt

Enn berast eldfjallafréttir. Fyrst var fólkið flutt í burtu frá eldfjallasvæðinu, svo dýrin, nú er það fiskurinn. Í gær voru 600.000 laxar fluttir burt með bátum og í allt hafa verið flutt sex þúsund tonn af laxi. Það er slatti af laxi. Framleiðsla á laxi (já, ég segi framleiðsla) er einn helsti atvinnuvegurinn í Chile en laxaiðnaðurinn hefur mjög verið gagnrýndur fyrir að spilla öðru lífríki í vötnum og ám í Chile og meðal annars sprauta sýklalyfjum og litarefnum í laxinn. Ég hef prófað þennan lax og get ekki sagt að hann hafi verið sá besti sem ég hef smakkað. En maður lætur sig hafa það, einhvern fisk verður maður að fá og annar fiskur hérna er einhvernveginn þannig að ég kann ekkert að verka hann.

Það er búið að vera frekar kalt í höfuðborginni síðustu daga og mikil rigning. Eitthvað var verið að spá snjókomu í dag en það virðist ekki ætla að ganga eftir. Það snjóaði í Santiago í fyrravetur, í fyrsta sinn í fjölda ára, og fólk vissi ekki hvert það ætlaði. Hér þolir fólk kulda alveg einstaklega illa og kveinkar sér ef hitinn fer niður fyrir 15 gráður. Í kuldanum snýst því allt um að finna besta staðinn til að hlýja sér, þar sem húsin eru sjaldnast upphituð. Íbúðin okkar er ekki jafnköld og margra annarra, og fólki finnst ægilega gott að koma hingað til að hlýja sér. Síðustu daga hefur þó verið soldið kalt á kvöldin svo í gær keyptum við kút í gasofninn sem við söfnumst svo í kringum á kvöldin til að ylja okkur.

Rafmagnið er búið að flökta talsvert í rigningunum og ef það snjóar er víst næstum bókað að það fer. Við þurfum að spara bæði vatn og rafmagn því það hefur verið svo mikill vatnsskortur (það er ýmist of eða van) og alls staðar er verið að spara. Í stórmarkaðnum um daginn tók ég eftir að það var óvenju dimmt, og slökkt á kælunum, en sá svo tilkynningu frá búðinni um að hún væri að spara rafmagn, eins og flestar aðrar stórar búðir gera, í samráði við stjórnvöld. Maður lætur sig nú alveg hafa það að kaupa volgan bjór í hálfrökkri ef það hjálpar. Forsetahöllin, la Moneda, var flóðlýst dag og nótt þegar ég kom í sumar en nú er slökkt á öllum ljósunum. Í háskólanum mínum er líka auglýst eftir nýjum leiðum til að spara rafmagn á kampus og fólki er almennt mjög umhugað um þetta. Enda hitta auglýsingaherferðirnar í sjónvarpinu beint í mark: Myndskeið af manni sem rakar sig og lætur vatnið renna á meðan, svo myndskeið af mörgæs að drepast sem afleiðing af vatnssóuninni. Ef það er mjög mikill skortur verður tekið upp á því að taka rafmagnið af í nokkra klukkutíma á dag, og enginn vill þurfa að vera án rafmagns. Þess vegna fæ ég samviskubit í hvert sinn sem ég kveiki ljós, og hugsa um fátæka fólkið og mörgæsirnar og lamadýrin sem ég er að kvelja.

Hér í húsinu ríkir ekki mikil gleði þessa daga, því miður. Í fyrsta lagi þarf Marta hin norska að fara aftur til Noregs, mánuði fyrr en áætlað var, því að amma hennar er dauðvona. Hin amma hennar dó úr krabbameini fyrir tveimur mánuðum og skiljanlega vill hún ekki þurfa að ganga í gegnum þá sorg aftur ein í öðru landi. Kara, litla stelpan frá Bandaríkjunum (sem ég hef held ég aldrei sagt frá á þessum síðum), missti afa sinn í gær úr krabbameini í lifrinni. Það var greint fyrir rúmri viku og í gær gaf lifrin sig. Hann var bara 68 ára.
Svo fengu Rodrigo og systir hans þær hræðilegu fréttir í gær að pabbi þeirra væri með krabbamein í hálsi. Þau höfðu haft áhyggjur af þessu í nokkrar vikur en í gær var það greint og einmitt núna er hann í aðgerð. Ég vona svo innilega að það fari vel, þetta er bara einum of mikið af krabbameini. Einn besti vinur okkar Mörtu missti líka pabba sinn fyrir nokkrum mánuðum úr krabbamein.
Aumingja Kara er mjög sorgmædd, hún er svo lítil og ein að ég finn ofsalega mikið til með henni. Hún lítur líka eitthvað svo mikið upp til mín og vill helst vera í kringum mig sem mest, litla greyið.
Hér hefur semsagt mikið verið grátið á axlir síðustu daga, en vonandi verður það ekki meira en þegar er orðið.

Það er þó auðvitað ekki ætlunin að þetta blogg sé einungis fyrir hörmungar. Af mér er það helst að frétta að ég labbaði mér í fyrradag út í hljóðfærabúð (eða það er að segja búðaklasann þar sem eru líklega um það bil 30 hljóðfærabúðir, ég þekki nokkra sem myndu geta eytt deginum þar) og keypti mér flautu, altflautu úr plasti, sem er bara alveg ágæt. Ég vissi það svosem að mamma hefur alltaf rétt fyrir sér, (eins og með því að senda mig út með græðandi krem sem var eins og skapað til að bera á sárin á höndunum á mér) því hún sagði mér að taka með mér flautu, en ég hlustaði auðvitað ekkert á það, hélt að ég þyrfti ekkert á því að halda. Þegar ég heyrði svo fyrsta tóninn þegar ég prófaði flautuna í búðinni áttaði ég mig á því hvað ég saknaði þess að spila. Svo nú er ég búin að finna slatta af gömlu góðu flautusónötunum mínum á netinu og hef verið að spila þær beint af tölvuskjánum.

Hérna í lokin eru svo tvö vídjó af mér og öðrum kórnum mínum, þeim sem kenndur er við Mozart, að syngja á tónleikum í einu furðulegasta húsi sem ég hef komið í, eldgömlu frímúrarahúsi í miðborginni, þar sem við sungum á einhverri frímúrarahátíð. Ég er semsagt þessi ljóshærða:

Panis angelicus

Ave verum corpus

3 ummæli:

Sigurrós sagði...

Þú ert eins og lítill engill að syngja mín kæra!
Þín er sárt saknað hér upp á fróni.
kv. Sigurrós og fjölskylda :)

Þura sagði...

Já 15° er kalt... innandyra!

Missjú :)

Svanhvít sagði...

Ekkert vera að taka mark á honum Benna hér fyrir ofan, ég held að hann sé eitthvað að reyna að plata okkur.