Jújú, lífið heldur áfram í Chile eins og annars staðar. Ekki misskilja póstinn hér fyrir neðan. Ég hef ekkert á móti grátandi karlmönnum. Þ.e.a.s. svo lengi sem það er í hófi, og það sama á auðvitað við um konur. Og enginn þessara karlmanna hefur grátið yfir mér (að mér vitandi). Þetta eru bara ósköp venjulegir og góðir strákar í ástarsorg. Norska vinkona mín héðan úr íbúðinni fór heim til Norge á mánudaginn og Nico vinur okkar frá Valparaíso, sem varð yfir sig ástfanginn af henni (og skyldi engan undra, hún er gullfalleg og yndisleg) var svo miður sín að eftir að við höfðum kvatt hana á flugvellinum sá ég að ég gæti ekki annað en farið með honum aftur til Valpó til að halda í höndina á honum og hughreysta hann. Ég þurfti líka ekki að fara í neinn tíma svo þetta var alveg tilvalið.
Það var frábært að komast út úr menguninni í Santiagó í sólarhring og gott að vita að ég á alltaf heimboð þangað þegar ég vil, borgin er við sjóinn og bara í klukkustundarfjarlægð frá Santiago. En þetta var tilfinningaþrungin ferð, þar sem þeir hittust vinirnir þrír sem eiga heima þarna og lýstu kærustuvandræðum sínum (allt “gringas”, þ.e. evrópskar/bandarískar stelpur) og ég fékk í fyrsta skipti að heyra alvöru samræður stráka um stelpuvandamál. Það var vægast sagt áhugavert.
Mamma Nicos var voðalega góð við mig, eldaði fisk handa mér og sagði mér undan og ofan af ævi sinni með leikrænum tilburðum og nokkrum tárum, í tveggja klukkustunda einræðu. Mikið drama þar. Daginn eftir skrópaði Nico í vinnunni (það er ekkert svo mikið mál hérna og talsvert stundað) og við fórum í langan göngutúr um höfnina og ég fékk að vita margt sem ég vissi og vissi ekki um Chile og allt sem fjölskyldan hans og þessi þjóð hefur þurft að ganga í gegnum. Það var þá sem ég táraðist eða kannski var það bara hafgolan í augunum. Það var að minnsta kosti erfitt að hlusta á allar hörmungarnar í landinu og vita hvað maður hefur það óendanlega gott á Íslandi. Það að ég skuli geta ferðast og stundað nám í hvaða landi sem er eru svo ótrúleg lífsgæði að ég fer hjá mér. Ég er í langsnobbaðasta háskólanum í landinu og bý í metrópólítanhverfinu þar sem flestir hafa það gott, get leyft mér sirkabát hvað sem ég vil, á meðan vinur minn hefur ekki efni á að klára háskólagráðuna sína því hann vill frekar að systir sín fari í háskólanám, svo hann er í námuvinnu til að geta borgað námið hennar.
Þrátt fyrir dramatíkina var þetta mjög notaleg ferð og ótrúlega gott að hlaða batteríin við sjóinn. Enda er loftmengunin hér í borginni alltaf meiri og meiri og maður tekur helst eftir því þegar maður fer að hósta og súrnar um augu. Já, og svo gleymir maður grínlaust að Andes-fjöllin eru hér allt í kring, því þau sjást hreinlega ekki baun í öllum þreyknum (þreykur=smog).
Ein af þeim síðum sem ég skoða hvað mest er þessi hér, þar sem sjá má loftmengunina á hverjum degi og athuga hvort það sé öruggt að fara út að hlaupa eða hvort maður geti búist við að svíða í augun allan daginn. Það sem er áhugavert er þó að það “smog level” sem er flokkað sem mikil mengun í Evrópu er u.þ.b. 50, en það er ekki fyrr en það er komið fyrir ofan 200 sem það er fyrst talið sem slæmt af yfirvöldum hér. Þá mega börn ekki fara í leikfimi og gamalt fólk á að halda sig innan dyra.
Aumingja Rodrígó sem ég leigi hjá hefur ekki átt sjö dagana sæla. Hann sér um aðra íbúð hér í miðbænum með vinkonu sinni og um daginn þegar vantaði leigjanda benti hann á strák sem vantaði stað til að búa á því hann var að hætta með kærustunni, og R. þekkir kærustuna. Strákurinn var á götunni og bar sig aumlega, og R. treysti honum, svo hann flutti þarna inn. Einn daginn nokkrum vikum seinna hverfur bæði hann og fartölva hollenskrar stelpu sem býr þarna. Svo nú er vinkona R. sem á íbúðina brjáluð út í R. fyrir að hafa sent þennan gaur inn á heimilið, og heimtar að hann láti þá hollensku fá fartölvuna sína. R er ekki alveg beint sáttur við það og nú eru þau í lögguleik að leita að gaurnum útum allan bæ, þræða alla staði þar sem hann getur verið og staðan núna er held ég þannig að þau eru komin með símanúmer og ætla að reyna að finna heimilisfang foreldra hans út frá því. Það er talsvert af innbrotum hérna og við læsum alltaf dyrunum hér með tveimur lásum, bæði þegar við förum inn og út, og höfum alltaf á hreinu hverjum við hleypum inn í húsið með dyrasímanum. Enda gerðist það í hinni íbúðinni að stelpa opnaði fyrir einhverjum sem hrinti henni til hliðar og ruddist inn og stal fullt af peningum úr íbúðinni. Svo að við pössum okkur.
Góðar fréttir af fjölskyldunni okkar hérna í íbúðinni eru að pabbi Rodrígós, sá sem var með krabbamein, fór í aðgerð sem heppnaðist og nú er hann kominn heim til sín. Það voru vægast sagt gleðifréttir.
Ég var að koma úr tíma í bókmenntakúrsinum mínum. Það er alltaf mjög gaman og ég er búin að lesa slatta af bókum. Fyrir tímann í dag lásum við bók sem heitir “Í gegnum skráargatið” og er merkilegt nokk eftir einn nemandann í bekknum. Hann er stórskemmtilegur fýr. Hann er 55 ára gyðingur, heitir Jorge (sama nafn og Georg) með mikið skegg, góðlegustu augu sem ég hef séð og sexarma stjörnu um hálsinn. Hann skrifaði þessa bók um þrjár kynslóðir kvenna, gyðinga sem flytja frá Rússlandi til Argentínu og svo Chile, og tekst bara ótrúlega vel upp með að skrifa um konur. Það var ekki fyrr en ég opnaði bókina í fyrradag til að byrja á henni og sá myndina af höfundinum sem ég áttaði mig á að þetta væri hann, og það var mjög gaman að hlusta á hann tala um bókina sína, eitthvað sem íslenskir rithöfundar eiga til að forðast.
Æ, mig langar að skrifa meira en það verður allt eitthvað svo niðurdrepandi þegar ég fer að hugsa um það, t.d. það að hér eru nær allir háskólar í verkfalli (nema auðvitað uppaskólinn minn) og margir grunnskólar (þ.e. nemendurnir), mikil læti, grjótkast, táragas og brynvarðir bílar sem sprauta vatni, meira að segja hérna beint fyrir utan gluggann hjá mér í dag. Ég varð pínu skelkuð, en örugg uppi á fjórðu hæð. Nemendurnir eru að krefjast betri menntunar, fleiri styrkja og lægri skólagjalda, því staðan í skólamálum í Chile er vægast sagt slæm, á pari við heilbrigðismálin. Þetta gera þeir á hverju einasta ári, þ.e. fara í verkfall og hertaka skólabyggingarnar með því að hlaða upp borðum og stólum (hljómar saklausara en það lítur út, ímyndið ykkur alla stóla í heilum háskóla hlaðið upp með fæturna út meðfram öllu grindverkinu og hliðum inn á háskólasvæðið. Það er ekkert lítið ógnandi.) Þessi verkföll geta staðið frá einum mánuði og jafnvel upp í þrjá mánuði á hverju ári. En jæja, þetta var einmitt það sem ég ætlaði ekki að skrifa um núna, enda hægt að skrifa margt og mikið um þessi mál.
Ástarkveðjur, og munið hvað við höfum það gott að vera frá Íslandi, þótt við þurfum að skafa á veturna.
9 ummæli:
En krúttilegur vinur þinn! Alltaf svo gaman að fá að tala við fólk og kynnast fólki sem býr í landinu, þetta er ótrúlega góð reynsla. Alltaf gaman að lesa bloggin þín!
Ég er líka gefinn fyrir drama (en er þó engin dama).
Ef þú saknar alvöru drama þegar þú kemur aftur til Íslands, þá get ég alveg grenjað smá fyrir þig þegar við förum á trúnó.
Annars er alltaf yndislegt að lesa bloggið þitt!
Tek undir með fyrri ræðumanni að þetta er blogg eins og það gerist best.
Takk öll dúllur.. gott að vita að fleiri geti haft gaman af þessu öllu saman, að minnsta kosti geri ég það. Það er samt svo margt sem ég sleppi, ef ég ætti að skrifa um allt sem gerist hérna og allt sem ég er að hugsa gerði ég líklega lítið annað en það.
Gunni: ég skal endilega taka smá grátöxl á sex-um-morgun-trúnói þegar ég kem heim, ég er orðin vön hlutverkinu.
Já þetta er mjög áhugavert hjá þér og skemmtilega sagt frá.
En ég skal taka að mér að vera grátöxl þín þegar þú kemur heim, ef þú þarft.
Þetta er mótsögn hjá þér dúllan mín. Ef þú myndir ekki gera neitt annað en að skrifa um hvað gerist þarna, myndi það leiða til þess að þú myndir hætta að upplifa eitthvað til að skrifa um.
Satt Orri minn, gott að þú ert alltaf til staðar til að hjálpa mér að sjá villur míns vegar. Ég held samt að ég gæti skrifað ansi lengi án þess að verða uppiskroppa með efni, og jafnvel hér inni í herbergi fæ ég stöðug uppdeit af krassandi ástarlífi annarra og meira að segja grjótkast og táragas eins og um daginn.
Sko, ég þarf ekki að fara út úr herberginu fyrir efnivið... nú rétt í þessu komu hommarnir tveir inn til mín með tvo stóra poka mjög skömmustulegir á svip og báðu mig um að gera sér greiða. Ég er semsagt að geyma dótið hans Cesars því mamma Rodrigos kemur hingað á morgun og má ekki sjá hvað Cesar er mikið hérna. Það skal tekið fram að R. er 35 ára...
Og takk Sigga, það er gott að vita... enda vissi ég það nú líka fyrir...
Gleðilegan sautjánda júní. Ég reyni kannski að baka pönnukökur og hlusta á Pálma Gunnars eða eitthvað.
Já það er gjörsamlega vandræðalegt hvað velmegunin er mikil á Íslandi, hugsa sér að nú er að deyja út hér á landi kannski síðasta kynslóðin sem upplifði virkilega fátækt! Síðan hafa kynslóðirnar alist upp við rafmagn, hita og Marshallaðstoð, yfirdrætti og algleymi. Svo kemur kreppa og fólk er svo innilega ekki að kveikja á neinu! "Það er kreppa!" "-Hvað sagðirðu, steppa?"
Skrifa ummæli