fimmtudagur, mars 18, 2004

"Es war ein wunderlicher Krieg"

Ég bjóst ekki við miklu af þessum degi. Ég vissi að í dag yrði ég tveimur jöxlum og tíuþúsund krónum fátækari. Og vissulega er það satt, og ég er að æfa mig í að mynda hljóð með þessu nýja plássi í munnholinu.. (hliðarhljóðin virðast vera erfiðust). En þegar ég tók að horfa á Gettu betur léttist lundin og mér tókst alveg að gleyma blóðinu sem flæddi úr opnum sárunum í munni mér og ég steig sigurdans þegar MR náði EKKI að svara síðustu spurningunni... litlu frænkur mínar tvær sem ég er að passa héldu að ég væri gengin af göflunum þegar ég hljóp þvoglumælt um fyrir framan sjónvarpið og fagnaði með Borghyltingum! Svo það rættist nú aldeilis úr deginum, og þó ég spýti ennþá blóði er það ekkert miðað við gleðina sem fylgir því að sjá MR detta út úr keppni. Þetta er gleðiblóð.

Litla frænka mín er fyndin. Hún hélt fyrir mig fyrirlestur um hreinleika búddismans. Hún er fimm ára og lærði þetta á leikskólanum. Ekki fékk ég að læra um hreinleika búddismans í leikskóla. Ekki einu sinni í grunnskóla eða menntaskóla og líklega ekki í háskóla heldur. Þetta er einmitt það sem mér finnst að krakkar eigi að læra, um önnur trúarbrögð og aðrar siðmenningar, til að auka umburðarlyndið í heiminum. Gæti komið í staðinn fyrir bölvaða kristinfræðina.

Engin ummæli: