föstudagur, mars 05, 2004

Fór á bókamarkaðinn í Perlunni og lenti í barnabókunum, þar fann ég gullmola eins og Skilaboðaskjóðuna og Láka litla, sem ég keypti, en sá líka fullt af bókum sem ég lét lesa fyrir mig ca tíu sinnum á kvöldi þegar ég var lítil, pabba, mömmu, afa og ömmu til ómældrar ánægju, Tótu tætubusku, Tralla, Stubb, Bláu könnuna, Græna hattinn, "En hvað það var skrýtið" og fleiri góðar. En ekki fann ég Elíasarbækurnar eftir Auði Haralds. Auglýsi eftir þeim, vildi gjarnan kaupa þær, þar sem þær eru einn af hornsteinum barnabókmennta að mínu mati.

En alltaf finnst mér jafn skrýtið að fyrstu hæðina í Perlunni sé ekki hægt að nota undir annað en einhverja markaði, það var nú bragarbót þegar sett var safn í einn tankinn, en það hlýtur eitthvað að vera hægt að gera við þessa aumingjans fyrstu hæð, svona markaðir væru venjulega í einhverri vöruskemmu en ekki í risastóru róterandi glerhúsi með goshver innanhúss sem byggt var fyrir almannafé til að ónefndur maður gæti montað sig við erlenda þjóðhöfðingja.

En ísinn er góður þarna. En dýr.

Fróðleiksmoli dagsins; Af hægðum og viðrekstri
Líkaminn getur ekki melt og tekið upp sumar tegundir kolvetna í smáþörmum vegna skorts á réttum meltingarensímum. Þessi ómelta fæða berst frá smáþörmum í ristilinn. Þar eru náttúrulegar og skaðlausar bakteríur sem sundra fæðunni og mynda um leið lofttegundirnar vetni og koltvíoxíð. Í um þriðjungi manna myndast einnig metan. Þessar lofttegundir berast að lokum út um endaþarmsopið.

Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á hvers vegna sumir mynda metan en aðrir ekki, en þeir sem mynda metan losa ekki endilega meiri vind en aðrir eða hafa önnur einkenni. Hægðir þeirra sem mynda metan fljóta í vatni. (Vísindavefurinn, leturbreyting mín, SLI)

Nú ætla ég að vera með smá könnun, eins og er svo vinsælt, í dag, hverjir mynda metan og hverjir ekki af lesendum? Ég býst nú kannski ekki við súperþátttöku, kannski kærir fólk sig ekkert um að uppfræða heiminn um eðlisfræði hægða sinna, en það má nú reyna..

Engin ummæli: