miðvikudagur, október 06, 2004

"...What a healthy day"

Geta dagar verið heilsusamlegir? Ef svo er var dagurinn í dag fullkomið dæmi bæði fyrir líkama og sál. Ég byrjaði á því að útbúa mér skyr-og ávaxta smoothies (er ekki til eitthvað íslenskt og gott nafn fyrir þennan sniðuga drykk? Komið nú nýyrðasmiðir!), og fór svo í ræktina, þar sem ég hljóp og hjólaði og lyfti eins og en galning, síðan í Árnagarð þar sem ég fór í færeyskutíma og bókmenntafræðitíma og prjónaði næstum heilan vettling á meðan. Færeyskutíminn fór eins og venjulega í brandara Höskuldar um íslenskt og færeyskt mál, og bókmenntafræðin í að hlusta á kenningar löngu dauðra kalla sem ákveða hverjir eru hæfir til að lesa bækur og hverjir ekki*. Eftir skólann labbaði ég mér heim og át restina af fiskibollunum sem ég eldaði í gærkvöldi, og rölti niður í Óperu, þar sem Fjóla og Davíð elskurnar buðu mér á generalprufu á Sweeny Todd, splatteróperu. Þaðan var ég að koma núna, og næ mér ekki niður úr skýjunum, það var svo gaman! Ímyndaðu þér rakara sem drepur fólk í rakarastólnum og lætur líkin síga niður op, þar sem konan á neðri hæðinni bútar þau í sundur og eldar bökur úr þeim... ekki erfitt í mynd eftir t.d. Jean-Pierre Jeunet (Delicatessen) en aðeins furðulegra í óperu.... blóð, sprengingar, morð...og sungið um það alltsaman!

Já,

(róaðu þig niður Svanhvít)

En semsagt, dagurinn var nærandi bæði fyrir líkama og sál, og ég vona að ég nái fleiri svona dögum í mánuðinum sem er bara rétt að byrja.

(*Nördainnskot: ég vissi ekki að það væru til svona margar tegundir af lesendum, en það er eins og allir sem búa sér til bókmenntateoríu verði að búa sér til lesanda. Þannig hef ég lært um innbyggða lesandann (það eru reyndar til tveir), víðsýna lesandann (sem er ofboðslega menntaður í bókmenntafræðiteoríum), ofurlesandann (hann skilur öll tákn og myndir í textanum sem hann les, fullkomni lesandinn (vinur ofurlesandans) og svo er það lesandinn af holdi og blóði, s.s. ég, en jafnvel hann klofnar í fleiri en einn lesanda, (þetta skildi ég ekki alveg) lesandinn sem les er ekki sá sami og sá sem leggur frá sér bókina og stendur upp. Vill einhver gáfumaðurinn skýra þetta fyrir mér?(sem minnir mig á það, við ljóskurnar, Sigga, Sigurrós og ég erum víst ekki vel liðnar af bókmenntafræðinemunum sem sitja kúrsinn, því okkur varð það á að spyrja um það sem við skildum ekki, og það hneykslaði víst einhverja.... mér þætti gaman að sjá þá í hljóðkefisfræðitíma))

Engin ummæli: