sunnudagur, desember 25, 2005

Hvað gerir konu yndislega í augum karlmanna?
Brot úr Leiðarvísi í ástarmálum II - fyrir ungar konur (Leturbreytingar mínar)
REYKJAVÍK
BÓKAFÉLAGIÐ NÝJA
1922

*Það sem gerir konuna yndislegasta í augum karlmanna er blíða hennar og yndisþokki, háttprýði hennar í allri framkomu, bros hennar, augnatillit og málrómur, fótatak og allar hreyfingar, ást hennar og næmur skilningur á öllu því göfgasta í tilverunni, fórnfýsi hennar og sjálfsafneitun, sem glöggast kemur fram hjá mæðrum við börn þeirra. Alt þetta myndar einskonar geislabaug, er sumar konur bera svo sýnilega með sér og hefir göfgandi en um leið töfra-mikil áhrif á karlmennina, vermir hjörtu þeirra og opnar þeim nýja heima og nýtt útsýni yfir lönd ástarinnar.


*Þú ættir altaf að nota ofurlítið af góðu ilmvatni í föt þín--minsta kosti sparifötin--en gæta þess, að gera það í hófi. „Hóf er best í hverjum hlut.“ Einnig er gott að bera góð ilmefni (hárvötn) í hárið við og við og núa því inn í hársvörðinn.

Hvorttveggja þetta hefir sín áhrif á karlmennina, því að þeim fellur það illa, að finna eldhúslykt eða fúkkalykt úr fötum þeirrar konu, sem þeir eru með á opinberum stað, t. d. í leikhúsi eða veitingahúsi.

*Til þess að geta orðið yndisleg í augum karlmanna, verður þú að vanda klæðnað þinn og þrifnað, þvi að óþrifin kona er andstygð siðaðra manna.

Þú mátt aldrei vera í óhreinum fötum, þegar þú ert eigi við óhreinlega vinnu.--Óhreinir morgunkjólar og svuntur eru hvimleiðir og það er óþrifnaður að snúa óhreinni svuntu við, og nota hana úthverfa.

*Næsta krafa, sem karlmenn gera til fata þinna er sú, að þau fari vel; sé eigi of lítil né of stór, og pilsin eigi óþarflega stutt.

*Sú kona, sem hirðir illa hendur sínar og andlit, gengur í óhreinum fötum, með flókið og strýslegt hár, óhreinar og stórar neglur, kartneglur, vörtur, fílapensa og bólur--verður aldrei yndisleg í neins manns augum.

*Þú mátt aldrei biðja karlmann að gefa þér sælgæti.

Þú ættir aldrei að fara á lakari danssamkomur, að minsta kosti eigi nema í fylgd með kunnugum karlmanni. Og á öllum danssamkomum skaltu gæta hæversku í hverju einu og eigi hlaupa eftir hverju ástleitnu auga né orði, sem að þér kann að beinast.

Það er afarljótt, þegar konur reykja og neyta áfengis í samkvæmum eða á veitingahúsum og það ættir þú aldrei að gera.

Það er eigi viðeigandi að kona fari ein síns liðs á skemtun, veitingahús eða kvikmyndahús, og það gera engar siðprúðar konur.

Gift kona ætti aldrei að fara í veitingahús eða skemtisamkomu að kvöldi dags með öðrum en eiginmanni sínum, skyldmenni eða venslamanni. Það er einnig óviðeigandi að gift kona sé á rápi á kvöldin um göturnar með hinum og þessum stelpum.

Það sæmir eigi konum að kaupa tóbak í búðum og áfengi getur engin kona verið þekt fyrir að kaupa.


Rödd þín og orðaval á mikinn þátt í því, hvort þú ert yndisleg í augum karlmanna eða ekki. Þess vegna er þér áríðandi að temja vel rödd þína og vanda vel orðbragð þitt. Mild og hljómfögur rödd, samfara ástríkum og fallegum orðum, bræðir klaka hinnar köldustu sálar. Temdu þér mildan og blíðan málróm, en því fegurri sem málrómurinn er, því vandaðra verður orðbragð þitt að vera. Falleg rödd og ljót orð eiga ekki saman.

Mér finst ástæða til að vara þig sérstaklega við orðskrípum eins og þessum: hvað hann sé „sætur“, „pen“, „lekker“; þetta eða hitt sé „vemmilegt“, „kedelegt“, „svart“, „brogað“; hvað „fríseringin sé óklæðileg“; hvað þessi kjóll sé „himneskur“ og að hrópa „almáttugur“ í annari hverri setningu.

Hvernig á að velja sér mann:

*Veldu þér eigin mann úr þínum flokki, reglusaman mann, sem hefir vit og vilja á að bjarga sér; ábyggilegan og geðprúðan mann, sem eigi er eitt í dag og annað á morgun, eða þýtur upp á nef sér út af smáatriðum daglega lífsins.--Láttu fríðleikann liggja milli hluta, en mannkosti mannsins og sameiginlega ást ykkar beggja um það, hvern þú velur þér fyrir eiginmann.



Þetta er dæmi um hvernig kona á að vera, og ætla ég að temja mér þessa siðu á næsta ári.

Gleðileg jól.

Engin ummæli: