þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Heiðingi!! Heiðingi!!


Helst í fréttum af mér er að í gær skráði ég mig úr þjóðkirkjunni, og gæti ekki verið sáttari manneskja! Það er svo mikið frelsi að vera ekki háður neinu trúfélagi, og mér finnst ég geta nálgast þetta bákn alltsaman aðeins utanfrá, og líður eiginlega miklu betur að skipuleggja þessa passíusálmatónleika núna, þó einhverjum finnist það kannski hræsni.

Ég hef verið mjög tengd kirkjunni, og þá aðallega Skálholtskirkju, í gegnum tónlistina, og ég er langt í frá hætt að syngja sálma í kirkjum þó ég sé ekki lengur í þjóðkirkjunni. Það er gríðarlega sterk hefð á Íslandi fyrir trúarlegri tónlist, og það er að sjálfsögðu að miklu leyti kirkjunni að þakka að hljóðfæri voru fyrst flutt inn til landsins á 17. öld, og það er mikið til af dásamlegri trúarlegri tónlist, íslenskri og erlendri, sem unun er að hlusta á og flytja. Þessa tónlist hef ég alltaf getað flutt án þess að þurfa að lifa mig inn í textana og TRÚA því sem þar stendur, því hvar væri maður staddur ef maður ætti að trúa hverjum einasta texta sem maður syngur. Nú finnst mér ég geta sungið þessa texta án tvískinnungsins að EIGA að skilja þá og skynja sem eitthvað sérstakt sem snertir mig persónulega, en gera það ekki. Nú get ég sungið og lesið Passíusálma Hallgríms Péturssonar með arfleifð Íslendinga í huga, einlægar og fallegar lýsingar hans á trú sinni, frumlegt og snjallt myndmál og góð ráð til fólks á öllum tímum, sem ekki einskorðast við kristin gildi.

Ég hafði oft hugsað um að skrá mig úr þjóðkirkjunni, og vera utan trúfélaga, en í síðustu viku sauð uppúr og ég ákvað að láta verða af því. Og viti menn, þegar ég svo á mánudagsmorguninn kom út úr setningafræðitíma og labbaði mér niður á kaffistofu mættu mér, innan um öll kosningaáróðursborðin, tveir menn með plakat sem á stóð: Skráðu þig úr þjóðkirkjunni hér og nú! Ég gat að sjálfsögðu ekki tekið þessu öðruvísi en sem tákni, ekki aðeins vísbendingu, heldur skipun um að láta slag standa. Svo ég krotaði nafnið mitt á blað og afhenti mönnunum, og er nú utan trúfélaga, og sóknargjöldin mín fara í Háskólann, þar sem þeim verður vonandi vel varið.

Engin ummæli: