Hér er smásaga eftir argentínskan rithöfund sem heitir Fernando Sorrentino. Hann birtir verk sín alltaf á netinu og hér er hægt að lesa þau á spænsku og lesa um kallinn. Ég þýddi söguna í kúrsi á síðustu önn og kannski hefur einhver gaman af því að hvíla sig á próflestri og lesa um hann Lúkas.
Fernando Sorrentino
Lucas vinur minn
Ég á mér vin, með eindæmum ljúfan og óframfærinn. Nafn hans er varkárlega veikburða og gamaldags - Lucas - og hann er á hlutlausum, óræðum aldri - fjörutíu ára. Hann er fremur lágvaxinn og mjósleginn og hefur þunnt yfirvaraskegg og skallablett. Þar sem hann hefur slæma sjón gengur hann með gleraugu sem eru lítt áberandi og án þykkrar umgjarðar.
Til að verða ekki í vegi fyrir neinum gengur hann ávallt á hlið og í stað þess að biðja fólk um að hleypa sér hjá reynir hann að smeygja sér fram hjá því. Ef glufan er það þröng að hann kemst ómögulega leiðar sinnar bíður hann heldur þolinmóður eftir því að hindrunin - hvort sem hún er lifandi eða dauður hlutur, viti borinn eða skyni skroppinn - færi sig af sjálfsdáðum. Hann hræðist hunda og ketti sem hann mætir á götunum og færir sig gangstétta á milli til að forðast þá.
Hann talar veikum, gagnsæjum rómi, svo vart er hægt að heyra hvað hann segir. Hann grípur aldrei fram í fyrir neinum, en tekst sjálfum ekki að mæla meira en tvö orð án þess að tekið sé fram í fyrir honum. Þetta virðist þó ekki angra hann, þvert á móti finnur hann til sín að hafa getað mælt þessi tvö orð.
Í tvö ár hefur Lucas vinur minn verið giftur, grannri, reiðigjarnri, taugaveiklaðri konu, sem hefur rödd sem sker í gegnum merg og bein, sterk lungu, oddhvasst nef og tungu eins og naðra. Auk þess er hún óhemjandi í skapi og stjórnsöm að eðlisfari. Lucas - mig fýsir að vita hvernig - hefur tekist að eignast erfingja. Móðirin lét skíra hann Juan Manuel og hann er hávaxinn, ljóshærður og með lokk fram á ennið, vel gefinn, tortrygginn, kaldhæðinn og þróttmikill. Það er ekki beinlínis svo að hann hlýði móður sinni í blindni, þau virðast frekar hafa með sér samkomulag um að kúga Lucas og láta hann finna til vanmáttar síns á allan hátt, og að virða orð hans að vettugi þá sjaldan honum tekst að láta óskýrar skoðanir sínar í ljós.
Lucas er elsti og veigaminnsti starfsmaðurinn hjá fyrirtækinu þar sem hann vinnur; vesælli heildsölu með vefnaðarvöru. Hún er í dimmu húsi með svörtum viðargólfum sem stendur við Alsina-götu. Eigandinn (ég þekki hann) heitir don Aqueróntido - það er stolið úr mér hvort það er fornafn eða eftirnafn - og hefur ógurlegt yfirvaraskegg og skalla, þrumandi rödd og er ofbeldisfullur og andstyggilegur. Lucas vinur minn mætir svartklæddur í vinnuna í mjög gömlum jakkafötum sem eru orðin snjáð af mikilli notkun, Hann á aðeins eina skyrtu, með gamaldags plastkraga - þá sem hann flíkaði á brúðkaupsdaginn. Eitt bindi á hann; svo trosnað og fitugt að það líkist helst skóreim. Lucas er ætíð á varðbergi gagnvart augnaráði don Aqueróntido og þorir því ekki að fara úr jakkanum meðan hann vinnur - jafnvel þótt samstarfsfólk hans geri það - og notar gráar ermahlífar til ad verja hann. Laun hans eru óréttlætanlega lág, en þó situr hann við aukalega þrjá, fjóra klukkutíma á degi hverjum þar sem verkefnin sem don Aqueróntido felur honum eru það umfangsmikil að ómögulegt er að ljúka þeim á eðlilegum vinnutíma.
Einmitt núna, þegar don Aqueróntido var enn einu sinni að lækka laun Lucasar, ákvað konan að Juan Manuel skyldi ekki halda áfram námi í skóla á vegum ríkisins. Hún valdi frekar að innrita hann í mjög dýran einkaskóla í Belgrano-hverfi. Þá stóð Lucas frammi fyrir ýktum niðurskurði og varð að hætta að kaupa dagblaðið, og það sem honum þótti enn verra, Valdar greinar úr Úrvali, sem voru hans uppáhaldslesefni. Síðasta greinin sem hann náði að lesa í Úrvalinu fjallaði um hvernig eiginmaðurinn eigi að halda eigin óskum í lágmarki til að gera öðrum fjölskyldumeðlimum kleift að uppfylla sínar.
...
Það er þó eitt sem sker sig úr; atburðarásin sem fer í gang þá sjaldan Lucas tekur strætisvagn. Hún er í meginatriðum svona:
Hann biður um miða og fer að leita að peningum og bandar hendinni að strætisvagnsbílstjóranum til að halda honum í óvissu. Ég myndi jafnvel segja að óþolinmæði bílstjórans veitti honum ákveðna ánægju. Því næst borgar hann með eins smárri mynt og hann finnur og réttir hana fram í misstórum skömmtum og með óreglulegum hléum. Brátt fer þetta að trufla bílstjórann sem auk þess að fylgjast með umferðinni, götuljósunum, farþegunum sem koma og fara og akstri vagnsins, þarf að reikna viðstöðulaust í huganum flókið reikningsdæmi. Ekki nóg með það; til að flækja málið enn frekar lætur Lucas fljóta með eina gamla paragvæska mynt sem hann varðveitir fyrir þessi tilefni, þar sem henni er undantekningalaust skilað aftur til hans. Þannig verða margar villur í útreikningunum og þá, þegar samræður eru hafnar, heldur Lucas fram rétti sínum yfirvegaður en ákveðinn, með mótsagnakenndum rökum, svo ómögulegt verður að átta sig á hvað það er sem hann heldur fram í raun og veru. Bílstjórinn, nú á barmi taugaáfalls, gefst þegjandi upp og kastar peningunum út á götu, ef til vill til að svala löngun sinni til að kasta þeim í Lucas, eða jafnvel að kasta sjálfur upp.
Á veturna ferðast Lucas með gluggann opinn upp á gátt. Helsti þolandinn er hann sjálfur, hann hefur komið sér upp krónískum hósta sem heldur honum vakandi um nætur. Á sumrin lokar hann glugganum rammlega og samþykkir ekki að draga niður tjaldið sem ver gegn sólinni. Sem afleiðing af þessu hefur hann oftar en einu sinni hlotið fyrsta stigs sólbruna.
Þar sem Lucas er með svo viðkvæm lungu eru sígarettur á bannlista hjá honum, og í raun þolir hann ekki reykingar. Þrátt fyrir þetta getur hann ekki staðist freistinguna þegar hann fer í strætó að kveikja í feitum, ódýrum vindlum, vindlum sem framkalla hósta og gera mönnum erfitt um andardrátt. Þegar hann fer út úr vagninum drepur hann í vindlinum, setur hann í vasann og geymir hann fram að næstu ferð. Lucas er maður visinn og hreyfir sig lítið, og er ekkert um íþróttir gefið. En á laugardagskvöldum stillir hann ferðaútvarpið sitt á hæsta styrk og hlustar á box í strætisvagninum. Sunnudaga tileinkar hann hins vegar fótboltanum, og kvelur farþegana með ærandi útsendingum.
Öftustu sætin eru fyrir fimm manns, en Lucas, þrátt fyrir smæð sína, sest þannig í sætin að það er einungis pláss fyrir fjóra, jafnvel aðeins þrjá. Ef það eru aftur á móti fjórir sestir og Lucas stendur lætur hann í ljós með yfirlætislegum tóni og látbragði að hann vilji setjast og treður sér til að fylla upp í allt pláss sem hann á rétt á. Til að takast þetta stingur hann höndunum í vasana svo olnbogar hans gangi sem lengst inn í rifbein sessunauta hans.
Margar eru þær og mismunandi, leiðir Lucasar.
Þegar hann stendur í vagninum hefur hann jakkann alltaf fráhnepptan til að faldurinn rekist alltaf í andlit eða augu þess sem situr.
Ef einhver situr og les er hann auðvelt skotmark fyrir Lucas. Hann fylgist gaumgæfilega með lesandanum og færir sig svo hann skyggi á lesljósið. Við og við færir hann svo höfuðið frá í smástund, eins og óvart, svo lesandinn gleypir í hasti í sig eitt eða tvö orð, og svona heldur hann óþreytandi áfram.
Lucas vinur minn veit hvenær álagstímarnir eru í strætisvögnunum. Þá er hann vanur að borða samloku með salamí og drekka rauðvín með, og í kjölfarið treður hann sér milli farþega, með hálftuggið brauð og kjöttægjur enn á milli tannanna og heldur munninum að nálægum nösum, og biður fólk um að hleypa sér framhjá af ákafa.
Ef hann situr fremst í vagninum gefur hann sæti sitt ekki upp fyrir neinum. En þegar hann situr aftast og kona með barn í fanginu stígur inn, eða veikburða gamalmenni, sprettur hann úr sæti sínu og kallar hátt yfir vagninn að þau geti fengið sæti hans. Þegar hann er staðinn úr sæti sínu ámælir hann svo farþegana sem ekki stóðu upp. Þessi tækni er áhrifamikil; ætíð hrökklast einhver yfir sig skömmustulegur farþeginn út úr vagninum, og í sömu andrá tekur Lucas sæti hans.
...
Lucas vinur minn stígur út úr vagninum í mjög góðu skapi en gengur svo uppburðarlaus heim til sín og víkur fyrir öllum sem á vegi hans verða. Þar sem hann er lyklalaus verður hann að hringja dyrabjöllunni. Ef einhver er heima neita þau honum sjaldnast um inngöngu, en ef konan hans, sonur eða don Aqueróntido finnast ekki, sest Lucas á þröskuldinn og bíður eftir því að þau komi heim.
1 ummæli:
god byrjun
Skrifa ummæli