þriðjudagur, mars 13, 2007

Sól

Eitt af námskeiðunum mínum þetta misseri er rannsóknarverkefni þar sem ég skrifa ritgerð sem ég fæ metna til eininga. Þessi ritgerð er um sól og mána og hvernig þau eru kyngerð, annars vegar hér á norðurslóðum og hins vegar þar sem heitara er, á Spáni og Rómönsku Ameríku. Hér er sólin kvenkyns og ljúf og góð en í spænsku er hún karlkyns og stingur og brennur. Fyrir okkur er máninn karlkyns og við tölum um karlinn í tunglinu en í spænsku er hann kvenkyns og minnir á tíðahring kvenna og tunglgyðjur. Þetta er allt mjög spennandi og skemmtilegt en verður til þess að ég ræð varla við mig lengur í sólarleysinu og inniverunni hérna á Íslandi. Ef sólin er lífgjafi, erum við þá ekki minna lifandi hér en þeir sem sunnar búa? Að minnsta kosti er ég að fölna upp og orðin kríthvít í framan. Meira að segja fílabeinslitaða meikið mitt gerir mig appelsínugula í framan eins og ég hafi stungið andlitinu oní rófustöppu.

Ég þarf sól til að hafa þetta af fram að vori!

7 ummæli:

Magnús sagði...

Þú færð lit af brennivíni.

Þura sagði...

Veistu hvað væri tryllt!

Ef þú mundir sannreyna þessa fullyrðingu þína um hvernig meikið gerir þig. Þ.e. stinga andlitinu í rófustöppu og athuga hversu margir sjá mun.

Svanhvít sagði...

Koddu með rófustöppuna og við gerum tilraun!

Nafnlaus sagði...

Við vorum með uppáhaldið þitt, slátur í matinn. Kem með afganginn af rófustöppunni á morgun.

Ég býst síðan við því að ég fái þorsk.

Orri sagði...

Í kína og japan sér fólk ekki andlit út úr mynstri tunglsins heldur kanínu. Japanir vilja meira að segja meina að kanínan sé að búa til hrísgrjónakökur (mochi).

http://en.wikipedia.org/wiki/Man_in_the_Moon#Pareidolia.2C_and_other_things_on_the_moon

Svanhvít sagði...

Líka í Rómönsku Ameríku, það eru svo margar sögur um hvernig kanínan komst upp í tunglið...

Atli Viðar sagði...

Helgarferð til San Salvador?