mánudagur, október 29, 2007

Minni

Í fornöld voru til menn sem kunnu öll lög í landinu. Þetta stendur til dæmis í Grágás um lögsögumenn:

„Það er og að lögsögumaður skal svo gerla þáttu alla upp segja að engi viti einna miklu gjörr.“

Þeir voru það sem nú væri líklega kallað dýrmætur mannauður.

Allt frá þessum tíma og fram á síðustu öld gat fólk líka þulið upp heilu rímnaflokkana, sögur, þulur og söguljóð að því er virðist áreynslulaust. Þessum gáfum hefur hrakað svo ört hjá þjóðinni að grunnskólabörn og foreldrar þeirra bölva því að börnin þurfi að læra „Ein er upp til fjalla“ utan að yfir helgi.

Með farsímum með símanúmeraminni og internetið alltaf við höndina er algjör óþarfi að muna nokkurn skapaðan hlut nema þá slatta af lykilorðum og leyninúmerum til að komast inn á þetta allt saman. Það eru til dæmis nokkur ár síðan ég lagði síðast símanúmer á minnið, og það er svo auðvelt að ná í allan fróðleik að það er hreinasta sóun á geymsluminni að reyna að muna hvað eru margir metrar í einu feti eða hvaða ár Gamli sáttmáli var gerður.

Nú er svo komið að sumir segjast ekki geta hlustað án þess að punkta niður hjá sér hvað sagt er og ég hef tekið eftir leiðinda ávana – eða beinlínis nauðsyn – hjá þónokkrum (kennurum, yfirmönnum...) að láta mann senda sér hvert örsamtal, þar sem lágmarksupplýsingar koma fram, í tölvupósti. Þetta er dæmigert samtal:

Svanhvít (eftir að hafa borið upp erindið): Er þetta þá ekki alveg á hreinu?

Erind-rekinn: Jú, sendu mér bara línu um þetta.

S.: Línu? Um hvað?

E.: Já, bara sendu mér smá tölvupóst um þetta sem þú varst að segja.

S.: Um það sem við vorum að tala um?

E.: Já, svo ég hafi það hjá mér. Sendu mér það bara.

S.: Uhh, ókei.

Ég er nokkuð viss um að við næðum að virkja heilann miklu betur ef við létum hann aðeins púla, til dæmis með því að læra ljóð utanað. Maður þarf ekki að vera í fjórða bekk til þess. Ég held að ég ætli að byrja á því að læra símanúmerið hjá systur minni.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Veistu, ég er alveg sammála. Núorðið man maður ekki nokkurn skapaðan hlut - ég þarf meira að segja að hafa fyrir því að muna öll lykilorðin! Tilkoma gsm-símanna hefur mikið um þetta að segja held ég, t.d. man ég ennþá öll númer hjá vinum og vandamönnum sem ég þurfti að nota, áður en ég fékk gemsa. Eftir það, hviss-bamm-búmm: get ekki munað númer!

Bastarður Víkinga sagði...

Dittó.

Ég man símanúmerin hjá ömmum mínum og í vinnunni hennar mömmu og heimanúmerin hjá æskuvinum mínum sem ég er hættur að umgangast.

En ég þarf að pondera í nokkrar sekúndur eftir eigin símanúmeri, eða númerinu í vinnunni.

(En mér finnst núverandi fyrirkomulag ágætt. Aldrei gat ég lært ljóð. Ég einu sinni eigin ljóð.)

Unknown sagði...

Ég held að þetta hafi verið mjög ósanngjarnt í gamla daga. Fólk er nefnilega með mismunandi minni, heyrnarminni og sjónminni. Sumir eru svo óheppnir að vera bara með sjónminni (eða minna af hinu allavega....). Það er nú samt satt að öllu má ofgera sbr. þinn kæra yfirmann augljóslega;)

Svanhvít sagði...

Yfirmaður vor
þú sem lest bloggið mitt
helgist þitt nafn
og svo framvegis...

Þura sagði...

Þarf maður núna líka að læra ljóð til að virkja heilann, er ekki nóg að gera sudoku !

Svanhvít þetta er ekki sanngjarnt, fólk lærði rímurnar í gamla daga með endurtekningu, hlusta á þær aftur og aftur.

Ég kann t.d. bara 'This is a central line train to Ealing Broadway' og 'please mind the gap between the train and the platform' en ekki að ég eigi að velja fjóra af tíu valkostum fyrir klukkan 6 á föstudaginn, án þess að skrifa niður !

Þú ert svo erfið !!! (með fyrirvara að ég sé búin að óverdósa á sykri í kvöld)

Orri sagði...

Það eru svona 1-2 mánuðir síðan ég lærði símanúmer Unnurstunar minnar (ég get samt bara munað það ef ég er með talnatakkaborð fyrir framan mig (ég get samt alveg notað ímyndað talnatakkaborð)).

Krakkar í dag muna samt alveg fullt annað, innihaldsríka dægurlagatexta og orðrétt samtöl úr kvikmyndum.
Félagi minn kann stóran hluta úr flestum simpsonþáttum orðrétt.

Kannski í framtíðinni munum við vera með ígrætt tölvuminni í heilanum eins og robocop og borgarnir (í star trek). Þannig að því þurfum ekki að hafa fyrir því að leggja hluti á minnið.