miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Þetta brot úr viðtali eftir Þórarin Eldjárn er búið að hanga uppi á ísskáp hjá mér frá því í sumar því ég ætlaði alltaf að setja þetta inn, mér fannst þetta svo vel sagt og lýsa vel mínum skoðunum.Þetta var í Blaðinu í sumar en kjáninn ég punktaði ekki niður dagsetninguna.

Trúirðu á Guð?
Ég er trúheftur svo ég noti gott orð sem einn frændi minn bjó til. Ég skil ekki trúarbrögð og tel að aldrei hafi örlað á neinni trúarlegri tilfinningu hjá mér þó ég fyllist auðveldlega lotningu gagnvart sköpunarverkinu, hver svo sem skóp það, ef það var þá nokkur: náttúrunni, tónlist, bókmenntum, fögru mannlífi. Ég hallast samt að því að það sé rétt að líta ekki svo á að maðurinn sé herra tilverunnar. Ég er sem sagt ekki skynsemistrúarmaður sem tel mig geta svarað öllum spurningum af kaldri rökhyggju. Ég er ekki skilningssjúkur. Ég get alveg ímyndað mér afl sem er manninum æðra, afl sem við skiljum ekki, en hugsum til og sækjum styrk til. En ég tengi þá afstöðu á engan hátt við guðstrú eða trúarbrögð.
Ég amast ekki við því að fólk ástundi trúarbrögð en þykir smekklegra að það haldi þeirri iðju fyrir sjálft sig. Ég er á þeirri skoðun að trúarbrögð og opinber iðkun þeirra sé oft og einatt mikið böl í heimi hér. Og því miður vaxandi nú um stundir. Helst myndi ég vilja að víðtækt samkomulag yrði gert um að öll trúarbrögð séu einkamál. Og síst af öllu tengd stjórnmálum. Mér blöskrar þetta fólk um allan heim, af ýmsum trúarbrögðum, sem hefur Guð með sér í óhæfuverkum og notar trúarbrögð til að réttlæta hvaða hrylling sem er fyrir sjálfu sér og öðrum. Þetta á ríkan þátt í því að ég segi hiklaust: Ég er trúlaus maður.


Margir trúaðir segja að þeir sem eru trúlausir séu vanþakklátir og þegar þeir lenda svo í erfiðleikum á lífsleiðinni (á dánarbeðinu, ef ekki fyrr, því fáir geta afsannað það) sjái þeir að sér, falli þeir á kné og grátbiðji Guð um að fyrirgefa sér. Flestir vita að Þórarinn hefur þurft að takast á við mikla sorg í lífinu og mér finnst hann gott dæmi um heilsteyptan mann sem þessi rök eiga alls ekki við um. Það er vanvirðing við fólk að segja að það sé sneyddara raunverulegum tilfinningum eða hafi ekki þurft að takast á við nokkurn hlut í lífinu ef það segist trúlaust. Að mínu mati er eðlilegast að byrja á núlli, tabula rasa, án allra trúarbragða, og svo finnur fólk sinn guð vilji það það. Valið á þeim guði stjórnast að sjálfsögðu að mestu leyti af menningu hvers staðar og mér blöskrar alltaf hvað fólk virðist ekki átta sig á því heldur þykir sinn fugl svo fagur að það sér ekki aðra nema sem vargfugla sem ógna þess eigin fugli. Þetta er enginn nýr sannleikur en samt get ég furðað mig á þessu aftur og aftur.
Æ, góða nótt, þetta var pirrandi dagur.

3 ummæli:

gulli sagði...

ég er sammála Þórarni og sammála þér. hinsvegar get ég ekki verið sammála fanatíkerunum á vantru.is. þeir mættu nú alveg slaka aðeins á. fá sér jónu eða fara í jóga eða eitthvað.

Svanhvít sagði...

Vantrúar- og trúarnöttarar alike mættu alveg taka tsjillpillu áðí.

Nafnlaus sagði...

Amen!