miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Svolítið þýðinga-rant

Nú er ég voða mikið að þýða samtöl hjá fólki í mínum blessuðu þáttum og þar sem ýmislegt gerist þar mjög dramatískt lendi ég oft í að einhver segi öðrum frá því sem gerst hefur. Í dag hef ég til dæmis þurft að þýða oftar en einu sinni eitthvað eins og "Það kom svolítið hræðilegt fyrir [X]" (vil ekki skemma fyrir þeim sem fylgjast með, ehemm). Mér finnst eitthvað svo kjánalegt af þessu tungumáli okkar að orðið "svolítið" þurfi að nota í setningum þar sem verið er að segja frá hræðilegum dauðdaga. Mér bara dettur ekkert í hug sem mér finnst betra. "Nokkuð hræðilegt hefur hent [X]" finnst mér tilgerðarlegt. Það er ekki hægt að segja "eitthvað" hræðilegt, eins og er hægt í flestum málum í kringum okkur ("something", "noget", "algo"...), þar sem "eitthvað" eitt og sér getur ekki merkt "eitthvað sem hefur gerst", þar sem það er í eðli sínu óákveðið, heldur verður að nota orð eins og "svolítið", "dálítið", eða "nokkuð", sem mér finnst öll draga talsvert úr þunga setninga eins og þeirrar hér á undan. (Líklega er það þess vegna sem fólk talar venjulega ekki svona á íslensku)

Önnur setning sem ég lendi óhemju oft í að þýða, í næstum hverjum þætti og stundum oft í hverjum, er setningin "¿Cómo me pudiste hacer eso?" sem þýðir að sjálfsögðu "Hvernig gastu gert mér þetta?" Fólk gerir mikið á annars hlut í þáttunum góðu og upp komast svik um síðir þar sem annars staðar og þá er þetta það fyrsta sem hrekkur upp úr fólki. Man einhver eftir að hafa sagt þessa setningu sjálfur? Eins og Twinna mín benti á er þetta orðalag ekki beinlínis Íslendingum tamt, eflaust vegna þess hversu tilfinningaþrungin setningin verður þegar orðið "mér" er haft með og við erum kannski ekki nógu dramatísk til þess að tala svona.

8 ummæli:

Orri sagði...

Hvaða þættir eru þetta?

Mér finnst allt í lagi að þýða það sem fólk segir þótt að það stangist á við íslenska málnotkun enda er viðkomandi ekki að tala íslensku. Mér finnst þessvegna að það eigi t.d. að þýða þéringar sem þéringar þótt að það tíðkist ekki að þéra á íslensku...

"Hvað hefði viðkomandi sagt, og hvernig hefði hann sagt það ef hann væri að tala íslensku" þýðingar finnst mér ekki vera málið... ...kannski stundum samt.

Orri sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Orri sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Svanhvít sagði...

Á vængjum ástarinnar (Por todo lo alto, Wings of love) sem eru sýndir á stöð 2 á morgnana. Þeir eru frá Venesúela svo þeir eru á spænsku.

Það sem mér finnst sjálfsagðast að gera í svona sjónvarpsþýðingum er að þýða allt sem hægt er yfir á sem eðlilegasta íslensku en þar sem íslenskan þyrfti að fjarlægjast mjög frumtextann til að hljóma eðlilega læt ég textann þá frekar hljóma framandlega.

En ég læt fólkið alls ekki þérast, það væri alveg hræðilega hallærislegt að sjá það í þessum þáttum.

Þetta er spurning um hvað er eðlilegt mál. Þarna er eðlilegt að þéra og þéra út í hið óendanlega en það er hins vegar varla íslenska lengurog þess vegna myndi það draga alla athyglina að sér og frá því sem væri raunverulega að gerast.

Það væri líka svo undarlegt, t.d. var ég að enda við að þýða atriði þar sem geðveikt massaður gaur bjargar aðalpersónunni upp úr á. Hann gefur henni munn við munn og hún rankar við sér og spyr
"Hver eruð þér?"
(ef hún myndi þéra)

Orri sagði...

Þéra ekki allir massaða gaura eða?

Það er líklegast rétt að það myndi bara draga athyglina frá í svona sjónvarpstexta þýðingu.

Mér finnst það samt oft skapa svo skemmtilega stemningu í bókum þegar þéringar eru þýddar.

Unknown sagði...

Hæ sæta mín :)

Gaman að sjá að vel gengur í vinnunni :) Ég væri ekkert smá til í að sjá þátt, með þinni þýðingu auðvitað! Vona að þeir verði enn sýndir þegar ég kem á klakann aftur ;) Kannski að þú gætir bara haldið movienight með eins og einum þætti :)

Anyways skemmtu þér ógó vel í Bandaríkjunum, öfunda þig ekkert smá af að vera að fara í heimsókn til Guðbjartar og Árna. Og skemmtu þér enn betur í skiptináminu!

Luv,
Helga Björk Litla

Nafnlaus sagði...

Sammála Orra með stíl í þýðingum, en ég er líka bara voðalega veikur fyrir öllum stíl í skrifum — þéringum og óvenjulegri orðnotkun.

En ég ímynda mér að það gildi önnur lögmál í imbaþýðingum, sem er kannski meira úrdráttur en bein þýðing.

Nafnlaus sagði...

Held það sé alveg rétt að við séum bara ekki nógu dramatísk. Suma hluti er einfaldlega bara erfitt að segja á íslensku af því þeir verða svo dramatískir. "Ég samhryggist þér" er eitt þeirra. Mér finnst það hljóma e-ð svo formlegt og styrt.

Tóta