sunnudagur, desember 09, 2007

Fegurstu og ljótustu orð íslenskrar tungu

Um daginn var einhvers staðar verið að ræða um fegurstu orð íslenskrar tungu. Minnir að orðin "kærleikur" og "ljósmóðir" hafi skorað hátt. Það er vel skiljanlegt, enda fallega samansett og hljómþýð orð (orðið "hljómþýður" er reyndar líka mjög fallegt).

Það eru haldnar keppnir um fegurstu orð tungumála úti um allt, t.d. í Skandinavíu og í Þýskalandi og meira að segja hefur verið valið fallegasta orð í heimi (tyrkneska orðið "Yakamoz").

En það er erfitt að velja falleg orð án þess að velja þau út frá merkingu þeirra. Það hefur enginn horn í síðu ljósmæðra og kærleikur, ja, það segir sig sjálft að hann er af hinu góða. Það sést til dæmis á listum eins og þessum yfir fallegustu orð í ensku (valinn af enskunemum og kennurum) að merkingin er svo nátengd orðinu að þau eru öll alveg hrikalega jákvæð og frekar listi yfir fallegustu hugtökin en fallegustu orðin (táknmiðið tekur yfir táknmyndina fyrir þá sem tala barthesísku (nei, ég geri það ekki)):
  1. Mother
  2. Passion
  3. Smile
  4. Love
  5. Eternity
  6. Fantastic
  7. Destiny
  8. Freedom
  9. Liberty
  10. Tranquillity
(*æl* væmið)

En hvert er ljótasta orð í íslenskri tungu? Það væri of auðvelt að segja eitthvað eins og "graftarkýli" eða "drulluhali" því þau eru svo löðrandi í neikvæðu merkingunni að það sést ekki lengur í orðið sjálft. Það er miklu skemmtilegra að finna orð sem eru hlutlaus eða jákvæð í eðli sínu. Tökum orðið "ávöxtur" sem dæmi. Það væri alveg eins hægt að skipta út "ávexti" fyrir "graftarkýli" ef við ímynduðum okkur að við hefðum aldrei séð orðið "ávöxtur" áður, enda hljómar það frekar sem kýli á líkama en safaríkt sætt aldin. Ég er hrædd um að við myndum aldrei samþykkja það sem nýyrði yfir "aldin" nú á dögum.

Komið nú með hugmyndir að ljótustu orðunum í íslensku. Þau mega vera hvort sem er ljót í hljómi (næststærstur), útliti (hjáásssvið) eða merkingu (rukkari) eða allt saman (horrengla) en ég er persónulega hrifnust af orðum sem eru samin með það í huga að hylma yfir viðbjóðinn sem leynist á bakvið. Mínar tillögur eru "fórnarkostnaður" og "uppgreiðslugjald". Ég fæ klígju í hvert sinn sem ég heyri þau notuð.

P.s. (Mitt innlegg í krúttaðasta orð í íslensku er hins vegar "hakkabuff". Alltaf þótt það sætt.)
P.p.s. Gott að það sést ekki hvenær á sólarhringnum þetta er skrifað.

20 ummæli:

Gunni sagði...

Hrææta.

Hljómar illa. Ljótt í útliti (kommon tvö æ samhliða!). Hrikalega ljót merking.

Regnhlif sagði...

Já einmitt! hehe. Mamma sagði einu sinni að henni fyndist "píka" bara svo ljótt orð... orðið sjálft. Þá spurði ég hvort henni fyndist "líka" líka ljótt...

Hef enga viðbót í ljótuorðakeppnina. Man ekki neitt.

Svanhvít sagði...

Oj

ógeðslega ljótt orð. Hlýtur að skora hátt.

Tinnuli sagði...

yfirdráttarheimild. Vextir. Þrílifra (?). Slátur. Útborgun.

Tinnuli sagði...

Já og typpi!

Nafnlaus sagði...

Mér dettur ekkert í hug. Búin að hugsa í marga daga og ætla að halda áfram...
Aftur á móti ætla ég að herma pínu eftir þér og fara að safna saman undarlegum orðum sem ég nota sjálf. Komin með "urmull" og "ólíkindatól". Mjög gaman.

Tóta sagði...

Sammála Tinnu með slátrið. Mér finnst slátur ákaflegas óhljómfagurt orð. Reyndar finnast mér mörg orð með órödduðu l-i ljót enda sannfærð um að það sé ljótasta hljóðið í íslensku.

Tóta sagði...

Já og djöfull fæ ég mikinn hroll við að lesa yfir þennan lista með "fallegustu" orðunum í ensku. Þvílíkur væmniviðbjóður. Mér finnst orðið Shit mun fallegra en öll þessi til samans.

Svanhvít sagði...

Já, slátur er ógeðslega ljótt orð. Og verður enn viðbjóðslegra þegar það er notað um kynfæri karla. Oj.

Svanhvít sagði...

Í ensku eru mjög mörg af orðunum sem hafa verið valin 'hljómfegurst' reyndar með L, en þá auðvitað þessu enska raddaða elli, sem er alls ekki ljótt.

Það er ótrúlega gaman að láta útlendinga segja 'stelpa'. Já eða bara 'Hlíf' - eins og hún hefur sjálf komist að... Cliff

Nafnlaus sagði...

My favorite icelandic words are : kæfa, pylsa and ulpa :))))) I like ''Jæja'' cause in my language sounds almost like ''eggs'

Regnhlif sagði...

Ég vil koma því á framfæri að óraddað l er mjög fagur hljóð!! :)
Og bara gaman að það sé bara til í mjög fáum tungumálum.

Regnhlif sagði...

Það er ekki einu sinni óraddað l í slátur:)
Nú lít ég út fyrir að vera geðveik. Hvíslandi "slátur" í sífellu í tölvustofunni

Ég held þú hafir verið að meina að það er ljótt þegar sníkjuhljóðið [t]skýst inn á milli [s] og [l]. Það er ljótt.

Nafnlaus sagði...

mér finnast þetta bara mjög falleg orð þarna í enskunni og ekkert að því að hafa þetta pínu væmið.

Tóta sagði...

Já ég sé það núna Hlíf að ég hljóp á mig í hljóðfræðinni. Þetta er auðvitað rétt hjá þér. Þá er það líklega þetta l með sníkju t-i sem fer svona í taugarnar á mér. Óraddaða l-ið í Hlíf er auðvitað ekkert ljótt :) Hins vegar er hljóðið sem myndast í orðum eins og slátur, slabb, slef og slumma frekar ljótt en á hins vegar einhvernveginn ótrúlega vel við merkingu þessara orða.

Svanhvít sagði...

Já, ætli maður verði ekki svona meyr af því að verða mamma, Sigga mín ;) nei djók

Slím, slor, slydda, slúður, þetta eru allt frekar neikvæð orð. Eru engin virkilega jákvæð og falleg sl- orð? Erum við hérna búin að finna merkingarleg/hljóðfræðileg tengsl?

Kíkti í ritmálsskrána og þar eru þetta allt orð eins og slapinbrjósta, slappholda, slefukjaftur, slepjuslápur og slímhrygla.

Þetta finnst mér bara eiginlega stórmerkilegt.

Slaufa, slakki (sól) og slæða eru eiginlega einu orðin sem ég man eftir sem vekja upp jákvæð tilfinningaleg hughrif.

Nafnlaus sagði...

Hæ!
Það er svo mikið af ljótum og illa þýddum orðum í faginu mínu (sálfræði) að ég gæti skrifað heila ritgerð hér. Sem dæmi má nefna orð yfir ýmsar raskanir (mér finnst röskun mjög ljótt orð) eins og mótþróaþrjóskuröskun og áfallastreituröskun. Fyrir utan hvað orðin hljóma illa þá er gegnsæja merkingin eiginlega röng, mótþróaþrjóskuröskun hljómar eins og hún eigi við um röskun á mótþróaþrjósku (sem ætti að vera hið gagnstæða við mótþróaþrjósku) og það sama á við um áfallastreituröskun... Svo eru alls konar önnur orð, til dæmis "ýgi" (sem er þýðing á orðinu agression). Orðið "nálgun" (sem er þýðing á enska orðinu approach) finnst mér ferlega ljótt og ofnotað. Svona gæti ég haldið áfram en hætti samt í bili. Get eiginlega ekki valið hvað mér finnst ljótast. Kannski ýgi? Eða kannski sögnin "að smætta" og nafnorðið "smættun"...??

Bestu kveðjur, Vala.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst lirfa eitt það ljótasta. Galdrakarl líka. Ég á líka rosalega erfitt með að segja þessi orð, en kannski er ég bara eitthvað málhölt :). Svo eru þessi s-l orð frekar leiðinleg.

Ofurrauðkan sagði...

Fyrir einhverju síðan veltum ég og fleira fólk fyrir okkur fallegum orðum. Einhverra vegna festumst við í melankolíu, angurværð, sorg og þvi um líku. Og reyndar líka brjóstsykur, en það er önnur saga.

Dettur engin ljót orð í hug

Ragnheiður Sturludóttir sagði...

Í nótt lá ég og hugsaði um mörg ljót orð og var komin með mjög langan lista. En núna man ég ekkert nema rugl (sem mér finnst óþjált). Verð s.s. að venja mig á að hafa penna og blað við rúmstokkinn.