föstudagur, apríl 18, 2008

Skólinn


Það er kominn tími til að ég segi aðeins frá því sem er ástæðan fyrir að ég fór til Chile og það sem ég eyði mestum tímanum í, þ.e.a.s. skólanum.

Eins og ég hef sagt áður er skólinn kaþólskur mjög, gamall og heldur fast í hefðirnar, hann er einkarekinn og á nóg af peningum. Til samanburðar hef ég farið á campus í öðrum háskóla (Universidad de Santiago) sem er allt öðruvísi, ljótari hús, miklu minna við haldið og um hirt. Enda eru skólagjöld í mínum skóla himinhá miðað við launin sem fólkið í landinu fær, svo hingað koma aðallega miðstéttar- og efristéttarkrakkar.

Í háskólanum hennar Mörtu (Universidad de Chile, ríkisrekinn skóli) er risastór veggmynd af Che Guevara, hér myndi það alls ekki líðast, hér er hins vegar róðukross í hverri einustu kennslustofu (svona eins og í staðinn fyrir klukkurnar í hverri stofu í HÍ). Svo er mér sagt að það séu skyldukúrsar í hverju fagi þar sem fagið er skoðað í trúarlegu samhengi (bróðir vinar míns þurfti að taka kúrs í "trúarverkfræði").


Kennararnir eru þó auðvitað jafnmisjafnir og þeir eru margir, og passa sig bara að halda kjafti og vera ekkert að flagga skoðunum sínum ef þær eru á skjön við það sem yfirvöldum skólans finnst. Þetta staðfesti doktor Rosowski, vinur Laufeyjar, mömmu Steina, sem bauð mér í hádegismat um daginn. Hann er doktor í næringarfræði og mjög almennilegur, og þegar ég spurði hann um hvað honum fyndist um að hér ætti að banna "daginn-eftir-pilluna" sem var þó leyfð í nokkur ár, sagði hann mér að maður talaði ekki mikið um þetta innan skólans til að komast hjá vandræðum. (Ég á oft erfitt með að átta mig á því hvað er tabú hérna og hvað ekki, svo líklega er ég sífellt hneykslandi fólk með einhverjum hrikalega frjálslyndum skoðunum).


En nú að kúrsunum sem ég er í, og eru bara alveg slatta vinna:
Ég er í fjórum kúrsum, þar af einum sem er bara til að bæta spænskuna og kallast svo virðulega "Curso de perfeccionamiento" ("fullkomnunar"kúrs). Þar eru bara útlendingar og við lærum að skrifa akademískan texta á spænsku. Gagnlegt.

Hinir kúrsarnir eru allir "alvöru" masterskúrsar, sem ég var skíthrædd við í byrjun, en núna þegar aðeins er á liðið er ég orðin miklu öruggari og ekkert svo hrædd lengur.


Ég er í tveimur kúrsum í þýðingafræði hjá sama kennaranum. Hún er um sextugt og ofsalega áhugasöm um kennsluna. Hún er yfirmaður þýðingafræðiprógrammsins í skólanum sem ég fæ að taka kúrsa úr. Við erum með sér tölvustofu fyrir okkur og prentara og þess háttar lúxus (annars tekur ógnartíma að prenta, það þarf að bíða í röð, láta kall fá skírteinið sitt, setjast við sérstaka tölvu og bíða eftir að nafnið manns er lesið upp og thá má maður prenta á blödin sem maður kemur sjálfur með. Þess vegna kalla ég sérprentara lúxus. Það er mjög indælt fólk með mér í þessum kúrsum, þau eru bara 8 í þessu námi svo það skapast þaegileg bekkjarstemning.

Hinn kúrsinn sem ég er í er málstofa í bókmenntafræði, fyrir fyrsta árs mastersnema. Efnið er "Rödd gyðinga og arabískra innflytjenda til Mexíkó og Chile". Við lesum eina skáldsögu á viku eftir mismunandi höfunda og fjöllum svo um bókina í tímanum. Mjög áhugavert, og ég er búin að læra fullt sem ég hafði ekki hugmynd um, og lesa bækur sem ég hefði aldrei annars vitað að væru til, t.d. er ég nú búin að lesa 5 bækur, fjórar mjög góðar eftir konur (gyðinga og Líbana) og eina frekar slappa eftir líbanskan karl.


Þetta er ekkert æðislega auðvelt fyrir mig, mikill lestur, í síðustu viku þurfti ég að halda fyrirlestur og í næstu viku þarf ég að skila ritgerð upp á 8 síður, en það skal hafast.
Kennarinn í þessum tímum er frábær, mjög almennilegur kall sem veit margt og er gaman að hlusta á. Krakkarnir í tímanum segja að hann sé besti kennarinn á mastersstiginu. Krakkarnir eru líka mjóg fínir í þessum tíma, svo það er farið að verða bara gaman að fara í tíma, en ekki "hættulegt" eins og tilfinningin var fyrst. Tímarnir eru einu sinni í viku, frá 18-21 á fimmtudögum, og andrúmsloftið er mjóg gott, í pásunni förum við og fáum kaffi og kex og spjöllum, og venjulega er fólk svo niðursokkið í söguna sem við erum að lesa það og það skiptið að kaffitíminn fer í að ræða hana líka, og auðvitað að sýna sig aðeins fyrir kennaranum, það tíðkast í bókmenntafræðinni hér alveg eins og heima...


Nú sit ég á bókasafninu og fyrir framan mig er strákur sem minnir skuggalega mikið á Andra Ólafs (nema Andri er auðvitað miklu sætari). Rétt áðan hélt ég fyrirlestur í þýðingafræðinni og það gekk alveg ágætlega held ég, og í tímanum sem ég er að fara í núna fæ ég út úr prófinu sem ég tók í síðustu viku. Sjáum til.

Þetta var svona til að láta vita að ég er nú virkilega að læra eitthvað hérna, ekki bara leika mér. (Allt annað en þegar ég var á Spáni og skólinn var svona það sem maður gerði þegar maður nennti ekki að gera eitthvað annað.)

En með þessum fyrirvara get ég líka sagt frá því að ég er búin að kaupa mér flugmiða norður í Atacama-eyðimörkina 1. maí. Ég fer með Mörtu norsku og Pepitu finnsku og við verðum í sex daga. Ég hlakka alveg hrikalega mikið til, enda er ótrúlega margt að sjá þarna, t.d. Mánadalinn (þar sem tungllendingin var víst tekin upp), gríðarstórar salteyðimerkur, flamingóavötn og "geysers". Nú er ég farin í tíma og bið ykkur vel að lifa.

P.s. getur einhver tékkað fyrir mig í Hagkaupum eða Nóatúni hvað eitt avókadó kostar? Mig langar að hneyksla lýðinn. (Eða stígur kannski enginn fæti inn í svoleiðis okurbúllur lengur?)

6 ummæli:

Magnús sagði...

Ég er á leiðinni í Hagkaup á eftir, skal tékka á þessu.

Þura sagði...

Oh, ég elska hvað þú ert klár! :)

Gangi þér rosa vel að kramma darling. Rosa skemmtileg færsla!

stórt knús, Þura

p.s. á ekki leið í Hagkaup á næstunni

Nafnlaus sagði...

Vá hljómar fáránlega spennandi!

Mig langar í skóla! Hmmm eða já þúst.

Tölvan komin í lag? Splæstiru kannski í nýja á verði eins avókadó á Íslandi?

Regnhlif sagði...

Mig minnir að ein kennslubókin sem ég hef haft í spænsku hafi einmitt heitið "curso de perfeccionamiento" (hún virkaði ekki sem skyldi... ég er mjög ófullkomin í spænsku ennþá).

Orri sagði...

avókadó kostar ca 300-400 kr/kg.

Svanhvít sagði...

Takk f. upplysingarnar Orri.

Eg er algjorlega komin upp a lagid med ad nota avókadó í allt mogulegt. Thad er magnad graenmeti.

Tolvan sko ekki komin i lag, nota norska tolvu i millitidinni.