miðvikudagur, apríl 02, 2008

Síld í tunnu

Ég ferðast með metró á hverjum degi, til að fara í skólann og víðar. Oft er þröng á þingi, svo maður kemst ekki inn í lestina og þarf að bíða eftir næstu, eða fær olnboga í eyrað eða sveittan handarkrika í andlitið, en í dag versnaði það upp úr öllu valdi, eins og lesa má um hér (á spænsku), því út af umferðinni og menguninni í borginni, sem er alltaf mun verri á veturna, verða bílar sem menga mikið að dúsa heima virka daga frá 7-21 í allan vetur, og fólkið því að nota almenningssamgöngur (eða fá sér nýrri bíl). Á leið á kóræfingu áðan tókst mér að snerta að ég held mest tíu manneskjur í einu, svo mikil voru þrengslin. Þvalar hendur að fálma eftir handfangi, bakpokar sem þarf að toga á milli rassa til að komast framhjá, sveittir karlar sem horfa niður um hálsmálið hjá konunum, hitasvækja sem fylgir 30 stiga hita utandyra og hundrað manns í einum lestarvagni, þetta vinnur ekki með Transantiago-kerfinu, sem Santiagobúar kalla sín á milli Transantiasco (Transantiógeð).

Yfirvöld opnuðu fyrir kerfið í fyrra, eftir algjöra kaos í almenningssamgöngu"kerfi" þar á undan, þar sem strætóarnir voru ekki reknir af ríki eða borg, heldur átti hver sinn strætó og keyrði sína leið, og keppti við hina strætóana um að ná til sín farþegum. Þetta hafa verið kallaðar gagngerustu breytingar sem gerðar hafa verið á almenningssamgöngum nokkurs staðar í þróuðu ríki. Yfirvöld töluðu um umbætur, sérstaklega þar sem allir þessir mismunandi strætóar menguðu alveg óheyrilega mikið, eftir þeim gekk svartur reykurinn um alla borg, en strax á fyrsta degi kom í ljós að kerfið var stórgallað, annaði alls ekki eftirspurn og mikið var um bilanir. Kaosinu er meira að segja kennt um nokkur dauðsföll farþega, hjartaáföll og heilablóðföll.
Hver benti á annan eins og vera ber og margir sögðu af sér, og forsetinn Michelle Bachelet þurfti að biðja borgarbúa formlega afsökunar á kerfinu, og viðurkenna að það hafi verið gallað. Vinsældir hennar minnkuðu um 40% í kjölfarið.

Síðan hefur kerfið batnað til muna, enda er peningum dælt í það, eftir að það fór eiginlega á hausinn eftir fyrstu mánuðina. Málið virðist vera að of margir nota metró miðað við strætó, því strætóarnir virka ekki nógu vel, sem verður til þess að um 2,5 milljónir manns nota metró á hverjum degi, og í morgun milli 6 og 9 ferðaðist meira en hálf milljón manns með metró í Santiago. Það er slatti af fólki á þremur tímum. Ég ætti eiginlega að fá mér hjól og hjóla í skólann, en ég er hrædd við að hjóla í Reykjavík, hvað þá í Santiago, þar sem umferðin er eins og hún er. Sjáum hvernig staðan verður á morgnana á leiðinni í skólann næstu daga, svo er kannski einhver strætó sem gengur sömu leið. Ég reyni að kafna ekki úr hita og kremju á meðan.









Neðanjarðarlestarstöðin Baquedano þar sem ég skipti um lest á leið niðrí bæ. Þar er alltaf troðfullt af fólki. Þó vantar menn með hvíta hanska sem troða fólki inn í vagnana eins og mér er sagt að sé í Japan.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Úff og ég sem á erfitt með mig oft í metró í París, maður þarf eitthvað of mikið að snerta fólk. Haha og það sofnaði líka róni á öxlinni á mér um daginn.

Sjitt hvað er samt fyndið að hver hafi bara átt sinn strætó. Það ætti kannski að prófa það á Íslandi.

Svanhvít sagði...

Úff, sofandi franskur róni á öxlinni... Um daginn þurfti ég að deila hálfum fermetra með róna með ælu yfir allan jakkann sinn. Einhvernveginn tókst mér að loka fyrir nefið.

Svanhvít sagði...

Æ þakka þér fyrir Adam minn. Ég var næstum búin að gleyma að þú ætlaðir að hjálpa mér að græða milljónir. Já já. Góða ferð heim til vottevör.