Hætturnar í hornunum
Ég vona að síðasta færsla hafi ekki verið of grafísk og reynt of mikið á taugar lesenda, það var nú alls ekki ætlunin. Það er líklega best að endurtaka að ég er orðin alveg hress og hefur sjaldan liðið betur, svo það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af mér.
Nema kannski að straumurinn beri mig í burtu - það rigndi svo mikið í nótt að flestir skólar voru lokaðir í dag vegna flóða. Hinir skólarnir virðast flestir vera í verkfalli, þ.e. stærstu háskólarnir (nema minn). Þetta er víst árlegur viðburður, að stúdentar taki sig saman og fari í a.m.k. mánaðarverkfall í kringum maí, stundum lengur, alveg upp í heila önn, til að krefjast betri kjara.
Svo er það auðvitað eldgosið í Chaitén, en það er langt í burtu, í suðurhlutanum. Þetta er gríðarmikið öskugos sem hófst um mánaðamótin síðustu þegar eldfjallið Chaitén, sem áður var einfaldlega hin meinasaklausa Chaitén-hæð, tók upp á því að gjósa. Mörg þúsund manns þurftu að flýja heimili sín, þar á meðal hver einasti íbúi bæjarins Chaitén, því allt er á kafi í ösku. Það gekk vel að flytja allt fólkið í burtu, en eftir urðu um 20.000 dýr af öllum tegundum, sem finna ekkert ætilegt í eitraðri öskunni. Þessi dýr eru búin að vera í fréttunum síðan og sjálfboðaliðar eru að vinna í því að bjarga þeim dýrum sem hægt er, aðallega hundum, og gefa þeim sem eftir eru æti. Fólk finnur mjög til með þessum dýrum, sem og fólkinu sem þarf að búa í hálfgerðum flóttamannabúðum, með í mesta lagi eina ferðatösku af eigum sínum, á meðan heimili þeirra grafast í ösku. Talað er um að það þurfi að byggja bæinn frá grunni, svo miklar eru skemmdirnar.
Það eru um 2000 eldfjöll í Chile, misvirk, svo að líkurnar á því að lenda í gosi eru bara ekkert svo slæmar. Chaitén-"hæð" er svipuð og Cristobal-hæð hérna í miðbænum, sem gæti allt eins tekið upp á því að fara að pústa. En þetta er svosem ekki stórt áhyggjuefni hjá Íslendingnum. Það eru frekar kóngulærnar sem hrella mig. Í fyrsta sinn kemur kóngulóafóbía mín að góðum notum. Hér eru nefnilega tvær tegundir af kóngulóm sem finnast í húsum, önnur er góð og hin er baneitruð. Þessi góða er með langar lappir og röndótt, og heitir tígriskónguló. Ef maður finnur hana í herberginu sínu á maður að láta hana vera, því hún er meinasaklaus, en étur vondu kóngulóna. Vonda kóngulóin heitir hornkónguló. Hún er lítil og hleypur hratt og ef hún bítur mann er það bara beina leið upp á spítala að fá sprautu. Ef hún bítur mann í hálsinn eða andlitið er það meira mál. Ég vil eiginlega ekkert hugsa um hvað gerist þá. Sérstaklega ef hún skríður upp í rúm til manns um miðja nótt og og og og...
Hér er hægt að sjá myndir af kvikindunum og lesa um þau.
Þetta er víst nóg um hætturnar í landinu langa og mjóa. (Ekki veit ég af hverju ég skrifa alltaf þennan hrylling hér á síðuna, þegar allt er bara í himnalagi.)
laugardagur, maí 24, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Eitraðar köngulær, vá en tryllt...!
hérna, síðasta færsla var í lagi en þessi var of grafísk fyrir minn smekk.
uuu ekki sofna, svona in case.
Minntist ég á að við erum búin að finna þrjár svona í húsinu eftir að ég flutti inn?
Ein var inni í hatti sem hékk uppi á vegg og vinur minn var alveg að fara að setja á sig. Sem betur fer sá hann hana áður og drap hana.
Norska og þýska stelpan fundu líka eina um daginn. Þýska stelpan hafði ekki heyrt um þetta og hló bara að Mörtu, sem er með hrikalega fóbíu, og ætlaði að fara að klappa kóngulónni, en Marta náði að stoppa hana.
En það er (mjög góður) spítali bókstaflega í þarnæsta húsi, svo þetta er allt í lagi. Maður kemst víst ekki hjá því að taka eftir þegar maður er bitinn. Það er vont.
Oj ef thad er eitthvad sem hindrar mig í ad fara a heimsenda og aftur til baka thá eru thad poddur... mér finnst alveg nog af skordýrum i danmorku, og eiginlega alveg nog a islandi :) thú ert engin smá hetja :)
Þetta eru kjöraðstæður: Nógu viðráðanlegt til að fíla sig í ævintýri í framandi landi, en nógu ógeðslegt til að gleðjast þegar þú verður komin aftur í pödduleysið á Íslandi.
Skrifa ummæli