föstudagur, ágúst 15, 2008

Þá er það ferðasagan: Norður-Chile, Bólivía og Perú

Ég lagði af stað eldsnemma 15. júlí í 24 klukkustunda rútuferð, sem þýddi að ég var komin til Iquique eldsnemma 16. júlí, illa lyktandi og með auman rass. Það var fyrsta rútuferð af mörgum í þessu ferðalagi. Flugferðin þessa sömu leið tekur um tvo tíma en það er svo dýrt að fljúga hér að maður leyfir sér það ekki. Þegar ég var komin til Iquique hitti ég stelpu sem hafði verið í rútunni og ég kannaðist við úr háskólanum. Hún heitir Tiffany, frá Englandi, og er einmitt skiptinemi eins og ég, og þar sem við höfðum sirkabát sömu plön ákváðum við að finna saman hostel. Til Iquique fórum við því að þar rétt hjá er þorpið La Tirana þar sem er haldin karnavalísk trúarhátíð um miðjan júlí á hverju ári, og aðaldagurinn var einmitt 16. Við fórum þangað með Claudio, vini vinar míns, sem á heima í Iquique og ég hafði aldrei hitt áður, en hann lóðsaði okkur um, þrátt fyrir gríðarlega þynnku, sem ekki batnaði þegar við komum á hátíðina sem einmitt einkennist af bumbuslætti og flautublæstri. Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu á La Tirana. Þetta er lítið þorp í eyðimörkinni þar sem búa nokkur gamalmenni, en einu sinni á ári koma þangað um tvö hundruð þúsund pílagrímar og ferðamenn, ferðamennirnir með myndavélar og pílagrímarnir sumir hverjir á brókinni einni skríðandi um göturnar í 30 stiga eyðimerkurhita.
Það er mikið dansað og spilað, ungir sem gamlir hafa greinilega æft sig lengi, mikil læti, sölubásar sem selja allt frá maríustyttum og talnaböndum upp í skólatöskur og strigaskó og matsölustaðir þar sem eru grillaðir kjúklingar, nautakjöt og lamadýrakjöt, sem er einmitt það sem við fengum okkur í hádegismat. Það var alveg óhugnanlega ljúffengt. Dansarnir og búningarnir minntu á karnival eins og maður myndi sjá í Brasilíu, en allt heldur siðsamara, enda allt Maríu mey til lofs og dýrðar.














Eftir La Tirana og Iquique fikruðum við Tiffany okkur upp til Arica, sem er nyrsta borg í Chile, og bara svona hálftíma frá landamærunum við Perú. Þar skoðuðum við okkur um, og sáum til dæmis furðulega kirkju hannaða af herra Eiffel (já sem gerði turninn). Hún var öll úr járni, til að standast jarðskjálfta, sem eru tíðir í Chile enda landið allt á flekamótum. Í Arica gistum við tvær nætur á gistiheimili don Luis, og don Luis tók fagnandi á móti okkur eins og gamall vinur, rottulegur en mjög vingjarnlegur maður með örmjótt yfirvaraskegg. Litlu hundarnir hans þrír hlupu um á þakinu og geltu. Ég þurfti að komast í internet og fékk að nota tölvuna á "skrifstofunni" hans, sem var meira lítil kompa með tölvu og rúmi og fullt af drasli. Á meðan ég skoðaði póstinn minn heyrði ég einhvern tala í síma mjög skrítinni rödd, svona undarlega skrækri kvenmannsrödd, þótt ég heyrði ekki orðaskil. Þegar ég kom fram sá ég að það var don Luis sjálfur sem var í símanum og hafði verið lengi. Hann þagnaði skyndilega þegar ég kom og tók fyrir tólið og talaði venjulega við mig, en þegar ég flýtti mér inn í herbergi hélt hann áfram að tala eins og kona. Þess ber að geta að klukkan var svona eitt um nótt. Ég er ekkert endilega viss um að ég vilji vita um hvað þetta símtal snerist þótt mig gruni ýmislegt, því næsta kvöld fengum við að horfa á dvd inni í herbergi hjá okkur, hann lánaði okkur spilarann sinn og sagði að hann ætti alveg heilan helling af bíómyndum sem við gætum horft á. Tiffany fór með honum til að velja mynd, og vissulega átti hann margar bíómyndir, það var engin lygi, en við vorum ekki beint í fílingnum að horfa á brjóst og rassa, ef þið skiljið. Einhverjar myndir voru þó inn á milli sem ekki voru bannaðar innan 18, þótt þær væru allar af götunni og þess vegna í misjöfnum gæðum (sem þýðir oftast að diskarnir virka ekki neitt). Til að gera stutta sögu styttri enduðum við á því að horfa á American Pie IV döbbaða á spænsku með frönskum texta. Morguninn eftir þurftum við að taka rútu eldsnemma svo klukkan sex tókum við leigubíl sem don Luis hafði pantað fyrir okkur, og svo stóð hann úti á götu og veifaði okkur bless þar til við vorum komnar úr sjónmáli.

Við vorum á leið til Putre, sem er agnarlítið frumbyggjaþorp nokkra klukkutíma frá Arica, á leið til Bólivíu. Þar er talsvert af gistiheimilum fyrir ferðamennina sem koma til að sjá allar náttúruperlurnar í þjóðgarðinum sem er þarna í kring, og þar héldum við líka til. Frá Putre fórum við í dagsferðir þar sem við sáum eldfjöll, stöðuvötn og hella, og skemmtileg dýr eins og vizcacha-kanínu með hala og allskyns lamadýrategundir, skoðuðum eldgamlar kirkjur og böðuðum okkur í heitum hver með rauðum leir.

Þar sem við vorum þarna í um 3700-4300 metra hæð var loftið heldur þunnt og ég átti frekar erfitt með andardrátt. Það hjálpaði við háfjallaveikinni að drekka kókalaufste um morguninn en ég get eiginlega fullyrt að í heila viku hafi ég ekki dregið almennilega andann nokkru sinni, varð þreytt af því einu að klæða mig í og dauðuppgefin af því að ganga upp tröppur, lystarlaus og andvaka og óglatt. Einkennin voru þó öll væg og ég kastaði til dæmis ekki upp eins og margir sem fara í þessa hæð. En allar hreyfingar þurftu að vera á hraða snigilsins til að mig færi ekki að svima og yrði óglatt, og ég var farin að þrá aðeins meira súrefni í andrúmsloftið mitt eftir þessa viku.

Frá Putre fórum við Tiffany nefnilega til La Paz í Bólivíu, sem er bara 5 klst frá Putre (á meðan höfuðborg Chile er í svona 33 klst fjarlægð). Þegar þangað var komið skildu leiðir því að ég hélt til Oruro að hitta SOS-barnið mitt og hún ætlaði að spóka sig í La Paz. Það var nú svo ótrúlegt að þennan hálftíma sem ég var á rútustöðinni í La Paz hitti ég vinkonu mína frá Mexíkó, hana Trilce, sem var einmitt að ferðast þarna um líka með vinkonum sínum. Það var eiginlega fáránleg tilviljun því þær voru líka þarna bara í nokkra klukkutíma. Rútuferðin til Oruro var ekki sú besta sem ég hef upplifað. Ennþá í hátt í 4000 metra hæð, dauðþreytt eftir að hafa þurft að standa í hinni rútunni, með grátandi smábörn allt í kring og pirrað fólk að öskra á foreldrana að þagga niður í börnunum, kolniðamyrkur en bílstjórinn alltaf að taka fram úr, oft mjög tæpt að mér fannst, mér hálfóglatt og fólk að borða kjúkling og sjúga majónes úr bréfinu, og svo blessaðir rútusölumennirnir sem eru enn fleiri í Bólivíu en í Chile. Þeir koma inn, biðjast innilega afsökunar á því að vera að tala þetta í rútunni en blaðra svo næsta hálftímann um hvað það er sem þeir eru að selja. Síðan kaupa kannski einn eða tveir það sem þeir voru að selja og þeir fara út úr rútunni. Svo einmitt þegar ég var farin að verða frekar hrædd við hvernig bílstjórinn ók sá ég rútu á hlið úti í kanti sem hafði lent í árekstri og stóran hóp fólks fyrir utan. Það var ekki til að bæta geðið. Það var frábært að komast til Oruro og bóka sig inn á næsta hótel sem ég sá (350 ikr nóttin).

Næsta morgun hringdi ég í barnaþorpið í Oruro og var sagt að ég mætti koma til þeirra klukkan tíu. Þangað fór ég með leigubíl (30 ikr) og don Alberto, sá sem sér um heimsóknirnar, tók vel á móti mér og gekk með mér að húsinu hans Felix míns. Felix er tíu ára strákur sem er búinn að búa í barnaþorpinu alveg frá því hann var eins árs, sem er óvenjulangt því að venjulega koma börnin seinna inn. Börnin búa 6-10 saman í húsi með einni móður, sem er ekki kynmóðir þeirra, en sem hefur valið sér að starfa sem SOS-móðir, sem þýðir að hún tekur að sér börnin sem hennar eigin.

Ég get svo svarið að það var eins og í slow motion í væminni bíómynd að hitta Felix. Ég sá hann koma á móti mér, svo byrjaði hann að hlaupa, og beint í fangið á mér, hann sagði "madrina!" (guðmóðir) og við féllumst í faðma. Hann var nýklipptur og vatnsgreiddur og ofsalega sætur og hafði fengið frí í skólanum þann daginn til að hitta mig. Hann leiddi mig heim til sín þar sem mamma hans og nokkur systkini, en þau eru tíu í allt, sem þýðir að það er aldrei lognmolla. Við lékum okkur smá með gjafirnar sem ég kom með og hann sagði mér frá því hvernig foreldrar hans gáfu honum ekki að borða og börðu hann og amma hans þurfti að fara með hann á spítala þar sem SOS-fólkið fann hann. Síðan komu öll hin börnin heim úr skólanum og við borðuðum hádegismat með allri fjölskyldunni, þríréttað í tilefni dagsins, og börnin fylgdust grannt með hverri einustu hreyfingu minni, hvort ég kláraði allt af disknum, hvort ég fengi mér þessa sósu eða hina, í hvaða röð ég borðaði matinn, og fannst ég alveg stórfurðuleg. Felix var hinsvegar ekkert feiminn. Eftir matinn gátum við spjallað aðeins meira og þá var feimnin fljót að hverfa hjá hinum og þau yngstu voru komin í fangið á mér og að leika sér með myndavélina mína, sem var alveg gríðarlega spennandi. Svo fór ég með Felix niður í bæ, eða réttara sagt fór hann með mig niður í bæ og sýndi mér um. Hann er ofsalega skýr strákur og sjálfstæður, kunni á alla strætóa og rataði út um allt. Við gáfum dúfunum á aðaltorginu, renndum okkur í rennibraut og blésum sápukúlur, spjölluðum heilmikið og skemmtum okkur mjög vel. Svo fórum við aftur heim þar sem börnin sátu og voru að læra heima með aðstoð kennara sem kemur af og til. Enda er ekkert grín að vera með tíu börn á grunnskólaaldri sem öll þurfa að læra heima. Kennarinn sagði mér að Felix væri mjög gáfaður strákur (þetta sagði allt fullorðna fólkið um hann) en stundum pínulítið latur. Ég held það sé bara af því hann veit hvað skiptir máli og finnst ekki mikið koma til þess að lita myndir, vill frekar reikna.
Yngsta systirin, hún Sara, sex ára, hafði fyrst verið pínu skelkuð við mig en síðan varð hún besta vinkona mín. Hún spurði mig: "Af hverju kemur þú ekki á hverjum degi?" Ég sagði "Af því ég á heima rosalega langt í burtu." Hún: "Í La Paz?" Ég: "Nei, miklu lengra" Svo taldi hún upp allar borgir í Bólivíu sem hún þekkti, og alltaf sagði ég nei. "Hvar þá eiginlega?" Og ég reyndi að skýra út að það þyrfti að fara yfir sjóinn og vera í flugvél í marga marga klukkutíma. Ég er ekki viss um að það hafi skilist almennilega, enda erfitt að ímynda sér það ef maður hefur aldrei séð hafið og þekkir varla einu sinni neinn sem hefur nokkurn tímann farið í flugvél.

Það er víst regla að styrktarforeldri sem koma í heimsókn megi ekki gista í þorpinu, en þau buðu mér að vera yfir nóttina, og þar sem ég vissi að þetta væri kannski eina skiptið sem ég hitti þau, og það var svo gaman, þáði ég það. Ég vona bara að það skapi ekki vandamál í þorpinu í framtíðinni, ef fleiri foreldrar koma í heimsókn. Við vöknuðum svo eldsnemma daginn eftir og ég fylgdi fimm yngstu krökkunum í skólann. Þar kvaddi ég þau öll, og þegar ég hafði knúsað síðasta barnið bless kom til mín pínulítill strákur skítugur í framan og knúsaði mig líka. Þá fékk ég sting í hjartað. Ég hef líklega litið út eins og einhver María mey, hvít og ljóshærð og faðmandi börn hægri vinstri.

Ég fór heim á hótelið með tárin í augunum. Ég vissi ekkert hvernig heimsóknin yrði fyrirfram og hafði ekki gert mér grein fyrir að ég myndi kynnast ekki bara Felix heldur öllum hinum börnunum svona vel á einum sólarhring. Vonandi get ég hitt þau einhvern tímann aftur.

Ég hafði ætlað að fara til La Paz sama dag en það voru mótmæli svo vegurinn var lokaður, svo ég var bara einn dag enn í Oruro. Þar sá ég til dæmis þessi fínu lamadýrafóstur sem galdrakonur seldu á básum ásamt öðrum nauðsynjavörum til fjölkynngi.

Í

















Bólivía er allt öðruvísi en Chile. Þar er mun meiri fátækt, fólkið er flest frumbyggjar, þ.e. lítið blandað við Evrópubúana sem komu seinna, allt er miklu fátæklegra og margfalt ódýrara. Ég vissi þetta allt áður en þegar ég kom til La Paz fékk ég eiginlega kúltúrsjokk, og fannst ég loksins komin til Suður-Ameríku. Fólkið, bílarnir, mótmæli þar sem fólk skaut úr loftbyssum niðri í bæ, fátæktin, betlararnir og götubörnin, þetta var allt svo yfirþyrmandi, sérstaklega af því ég var þarna ein. Það var kannski ekki það merkilegasta þegar ég sá konur sitja á gangstéttinni með ritvélar að skrifa upp bréf fyrir fólk sem þarf á þeim að halda og er ólæst, en það hafði samt eitthvað svo mikil áhrif á mig, og ég áttaði mig á að kúltúrsjokkið var eiginlega meira að fara frá Santiago til Bólivíu en Íslandi til Santiago. Ég segi Santiago því að munurinn er mikill eftir landshlutum, já og bæjarhlutum. Partar af Santiago eru eins og La Paz, en það er mjög auðvelt að komast hjá því að sjá þessa fátækt nokkurn tímann með því að halda sig í sömu þremur eða fjórum hverfunum.


Það er sitthvað eftir af ferðinni, þ.e. öll ferðin til baka, en ég held að þetta sé orðið gott í bili. Sjáum til hvort mér endast kraftarnir í að klára þetta.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

For real-- that was a magical trip, I love the pictures:)
Greetings.

Þórdís sagði...

Alltaf jafn gaman að lesa. Ótrúleg lífsreynsla sem þú öðlast þarna!

Kv. Þórdís Skrudda.

Nafnlaus sagði...

Ohhh þarna fékk ég tár í augun...
ég er farin að glósa, punkta hjá mér alla athyglisverða staði sem þú talar um á blogginu þínu... endilega haltu þessu áfram ;)

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frásögnina Svanhvít. Ég vil endilega hvetja þig til að skrifa afganginn þegar kraftarnir koma aftur :-)

xxx Sigga.