mánudagur, ágúst 11, 2008

Húsið

Það er enginn hörgull á drama hér í húsinu frekar en venjulega. Þetta var trúnóhelgin mikla, þar sem ég fékk að heyra um ástamál margra vina minna. Enn á ný eru það þó aðallega strákarnir sem opna sig svona, enda eins og ég hef komið að hér áður miklum mun dramatískari en stelpurnar, þar sem þeir eru latínó og stelpurnar gringur. Vandamálin eru auðvitað þau sömu og alls staðar í heiminum, og snúast um sambönd, eða aðallega sambandsslit, hvort sem þau eru nýafstaðin og eftirséð eða yfirvofandi og óhjákvæmileg.
Rodrigo kom heim áðan, í frekar miklu uppnámi, settist við borðið hjá okkur og fékk sér af grænmetislasagnanu sem ég var allt eftirmiðdegið að elda oní allan herskarann, og tilkynnti okkur að í dag væri mikilvægur dagur í lífi hans. Hann hafði nefnilega komið út úr skápnum fyrir mömmu sinni. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um að hann hefði ekki verið löngu búinn að segja henni það, þar sem hann er nú þrjátíu og fimm ára og kom út fyrir mörgum árum, en ég gleymdi víst smá að við erum í Chile, þar sem ekki eru nema fjörutíu ár síðan hommum var safnað saman, þeir settir upp í skip, svo var stímað út á rúmsjó og þeim sturtað útí. Auðvitað hefur margt breyst á þessum tíma en það er samt ekkert grín að "lenda í því" að vera gay. Að sjálfsögðu vissi mamma hans þetta alveg, enda var þetta orðið frekar bjánalegt, til dæmis að þeir skyldu alltaf fá að geyma dót Cesars kærastans hans inni hjá mér eða Kelly þegar mamman kom í heimsókn. Mamman tók þessu víst bara ágætlega (enda kannski búin að búast við þessu lengi), svo hann var alveg gríðarlega feginn. Hitt er aftur verra að hann veit ekki alveg hvað hann á að gera við sambandið sem hann er í, en það er önnur saga, sem og krabbamein föður hans, sem tók sig upp á ný og nú þarf að taka úr honum allar tennurnar.
Aðrar slæmar fréttir eru að nítján ára bróðir Sebastians vinar míns framdi sjálfsmorð í vikunni. Hann stökk fram af háu bjargi í borginni Arica alveg nyrst í Chile. Þetta eru hræðilegar fréttir og vinur minn er auðvitað alveg miður sín. Það var undarlegt að hugsa til þess að ég hafði klifið þessa sömu hæð bara tveimur vikum áður þegar ég var í Arica (myndir á Facebook, bjargið með stóru Kristsstyttunni). Maður veit lítið hvað skal segja þegar svona lagað gerist, enda kannski líka fátt að segja.

Ég skrapp til Valparaíso á föstudaginn til að hitta vini mína þar, það er alltaf notalegt, enda dekrað við mig á allan hátt og mikið um gott spjall og vín. Þar var auðvitað mikið rætt um Mörtu hina norsku, sem er enn sárt saknað, þótt nú séu komnir þrír mánuðir frá því hún fór. Einn vinanna er svo yfir sig ástfanginn af Kelly en hún fór líka til Valpo um helgina. Hann var svo spenntur að hitta hana en hún endaði á að gefa honum "þú ert næs gaur en ég held við ættum bara að vera vinir" ræðuna. Greyið hringdi í mig skælandi um leið og hann var búinn að kveðja hana svo ég þurfti að leika sálfræðing á meðan ég skar lauk í lasagnað.
Húlíó hinn mexíkóameríski gerir allt fyrir ástina eins og Páll Óskar og fer í fyrramálið til Perú til að hitta hana Petru sína, sem er þar á ferðalagi. Hann þarf reyndar að vaða eld og brennistein til að komast þangað því hann gerði ekki ráð fyrir að það er ekki það sama að ferðast í Bandaríkjum Norður-Ameríku og þriðjaheimsríkjunum í Suður-Ameríku, og sex klukkustunda rútuferð á blaði breytist í tuttugu tíma ferð í gamalli rútu með fiðurfé eða geitum, og brottfarartímar flugvéla eru meira svona viðmið en raunverulegur farartími. Honum tókst líka að lenda í slagsmálum, hann var einn á risastórum næturklúbbi sem er þekktur fyrir vandræði, tók tal við einhverja stelpu sem sat þar ein, en þá birtist auðvitað kærastinn og sparkar í höfuðið á honum þar sem hann situr, og lemur hann svo. Húlíó er frekar stór og þéttur (þótt hann hafi lést um svona 15 kíló frá því hann kom hingað, bara af því að hætta að borða bandarískan mat) og sneri hann fljótt niður, og þegar átti að bera hann út ásamt hinum voru vitni sem staðfestu að hann hefði ekki byrjað slagsmálin, svo hann slapp með skrekkinn, og flýtti sér heim.

Næsta helgi ætti að verða áhugaverð. Á fimmtudaginn er planið að fara á hommadiskó til að fagna fimmtugsafmæli Madonnu, sem er ekkert lítið mál, að minnsta kosti hér á bæ. Á föstudaginn út af einhverjum dýrlingnum og ég á von á heimsókn frá fyrrverandi kærasta vinkonu minnar og gítarnum hans, þar sem ég fæ að heyra um - nema hvað - þeirra sambandsslit, og svo eldsnemma á laugardaginn fer ég í kórferðalag, á kóramót í Andesfjöllunum. Það er eldriborgarakórinn í þetta sinn, og ég er komin með útfjólubláan kórbúning sem passar skuggalega vel á mig. Það var Ívan gamli sem útvegaði mér hann og hann virðist hafa stúderað óþægilega mikið hvernig ég er í laginu, því hann rétti mér kjólinn og sagði: "ég veit að þessi á eftir að smellpassa." Og svo sagði hann soldið annað dónalegra sem ég vil ekki hafa eftir hér.

Í dag var undarlegur dagur í Chile, Dagur barnsins. Hann gengur út á að foreldrar og guðforeldrar og afar og ömmur kaupa gjafir handa börnunum og fari með þau á McDonalds. Þetta básúna allar dótabúðir í margar vikur á undan svo það fari örugglega ekki framhjá nokkru barni að það eigi að biðja um dót fyrir þennan dag. Raunar eru allir svona dagar miklu mikilvægari hér en á Íslandi. Valentínusardagurinn, mæðradagurinn, feðradagurinn, vinadagurinn, allt eru þetta dagar sem hver einasti Chilebúi heldur upp á. Svona var þetta líka á Spáni, ætli þetta hafi eitthvað með kaþólskuna að gera?

Þetta er nú orðið gott. Ferðasagan bíður, en rúmið líka, og táknfræðitíminn á morgun.
Ég bið ykkur vel að lifa, og að hlusta á nýju Megasarplötuna, hún er dásemd. Tónlist.is hefur nýst mér vel.

(uppfært 12. ág. kl 00.39, bætti inn Húlíósögu og tók eitt umframorð)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jesús minn, þetta er allt eitthvað svo svakalegt þarna.
Þú ert greinilega í miðjum dramapunkti heimsins þar sem allt drama á upptök sín og dreifist svo út frá sér. Ekki ósvipað og þegar maður fleytir kerlingar á vatni.

Tóta sagði...

Ég elska bloggið þitt. Það er svo skemmtielgt og mér finnst ég hreinlega farin að þekkja allar persónurnar í þessari sápuóperu. Held þú ættir að skrifa bók um þau barasta.

Nafnlaus sagði...

Ég er búin að kaupa mér alla flugmiða sem ég ætla að kaupa fyrirfram. Ég er komin með visa til Kúbu og í dag keypti ég mér bakpoka. Það liggur við að ég fari að pakka niður strax, svo æst og spennt er ég að skoða mig um í löndum grenjandi karlmanna... óle!