fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Fimmtíu þúsund manns og frír strætó og fánajakkaföt og forsetinn og fokking Laddi... Maður verður miklu meiri Íslendingur af því að vera mörg þúsund kílómetra í burtu, svo auðvitað horfir maður í beinni á landsliðið koma heim. Ég vakti meira að segja á laugardagskvöldið fram undir morgun til að horfa á leikinn, dansaði til þrjú og sat svo á gólfinu og horfði á leikinn í beinni á argentínskri netveitu, og með textalýsinguna á Mbl og Vísi í gangi.

Það sem var þó mest gaman við útsendinguna í dag var að sjá viðbrögðin hjá könunum sem horfðu með mér: "Vá hvað forsetinn ykkar er ljóshærður!" "Vá hvað ALLIR eru ljóshærðir!" Hvað eru eiginlega margir þarna? Öll þjóðin? Ég meina þið eruð nú ekki það mörg." "Ingimundur Ingimundarson, er það í alvöru nafnið á honum? Og geta allir borið þetta fram?"

Hér í Chile fagna menn líka silfri, það var hann Fernando Gonzalez sem vann það í tennis. Chile hefur aldrei verið mjög sigursælt á ÓL og hefur aðeins tvisvar unnið gull (fyrir tennis), örfá silfur og nokkur brons.

Ég er búin að hafa mjög lítið að gera í skólanum en þeim mun meira í tónlistinni. Ég er ennþá í báðum kórunum og er núna komin í aðra grúppu sem sérhæfir sig í barokk- og endurreisnartónlist, bæði frá Rómönsku-Ameríku og Evrópu. Þar spila ég á blokkflautu. Við vorum með tónleika fyrir viku með barokktónlist frá Perú og fleiri löndum, á undarlegustu tungum.

Hér er vídjó frá tónleikunum af laginu Hanacpachap, á frumbyggjamálinu quechua (ketsjúa).

Um daginn fór ég með kórnum frá elliheimilinu Grund (eða því sem næst) á kóramót. Það var glettilega gaman. Kórarnir misgóðir, svo að okkar gamlingjakór var með þeim betri, en þó voru nokkrir sem stóðu algjörlega upp úr.

Hér er okkar flutningur á Laudate Dominum Mozarts, aðallega sett hingað svo þið getið heyrt hvað hún Alyson syngur fallega. Hún er sextán, er það ekki frekar magnað?

Svo var skrúðganga þar sem allir kórarnir voru látnir ganga í röð og syngja svo fyrir framámenn í litla bænum þar sem við vorum. Ég, sem ljóshærða skrítna stelpan, var auðvitað látin vera fánaberi með Alyson. Svo var ég króuð af útí horni og tekið við mig sjónvarpsviðtal fyrir stöð tvö þar í landi þar sem ég var beðin um álit mitt á þessari hátíð allri saman. Eitthvað náði ég að bulla og vona svo að engum takist að finna þetta svo ég þurfi ekki að horfa.

Í hinum kórnum mínum erum við svo á fullu að syngja níundu sinfóníu Beethovens. Ég lenti í að bera fram þýska textann fyrir kórinn, eins og ég þarf alltaf að gera í báðum kórum ef sungið er lag á ensku eða þýsku eða einhverju evrópsku tungumáli. Í gær var frábær æfing með raddþjálfara sem tókst að ná ótrúlegustu hljóðum út úr mér. Ég hef aldrei sungið svona vel áður. Nú er mig virkilega farið að langa í söngtíma, og er búin að finna rétta kandidatinn. Sjáum hvað ég geri, ég hef allavega nógan tíma.

Já, eitt enn, á síðustu vikum hef ég komist að því að langflestir vinir mínir frá Chile eru samkynhneigðir. Ekki orð um það meir núna, kemur seinna. Enda kemur einhver nýr út fyrir mér á hverjum degi eða því sem næst, svo ómögulegt að segja hvað þeir verða orðnir margir í næstu færslu.

En nú er kominn háttatími fyrir "skínandi gullstjörnuna okkar frá Íslandi" (Já, sá eini sem er ekki hommi í barokkgrúppunni kallaði mig þetta. Ég vildi eiginlega frekar að hann væri hommi.)

Engin ummæli: