þriðjudagur, mars 21, 2006
Haltu mér, slepptu mér, (tragísk ástarsaga)
Þegar dátinn var loksins búinn að ná draumadísinni sinni á sitt band frá vonda breska hermanninum tókst hjá henni svo mikil togstreita að dátinn var oft við það að hafa sig á brott, enda kitlaði það að fara út í hinn stóra heim þar sem meira var um að vera og hitta þar fagrar snótir, því vissulega var sú íslenska afar óspennandi þegar upp var staðið, hún sem hafði virst svo skynsöm og heillandi þegar hann kynntist henni og hún söng „það er draumur að vera með dáta“. Hann var nú orðinn áhugalaus um sambandið og sýndi henni lítinn sem engan áhuga lengur.
_____
Upp á síðkastið var hún alltaf svo uppstökk og sífellt að skipta um skoðun, vissi ekki hvort hún átti að fara upp eða niður, til hægri eða vinstri. En hún hafði ekki þor í sér til að segja honum að nóg væri komið, enda var alltaf eitthvað sem kom upp á, og auðvitað hafði hann verið henni mikil stoð og stytta, borgað fyrir hana ferðir til útlanda og svoleiðis. Hvernig gat hún svosem verið án hans? Var hún ekki löngu orðin meðvirk og ófær um að vera ein? Það var svo gott að hafa einhvern sem hélt yfir manni verndarhendi, jafnvel þótt höndin sú væri vopnuð byssu.
_____
Þegar hann svo tók af skarið og pakkaði niður til að halda í einhverja allt aðra heimsálfu gat hún ekki haldið aftur af tárunum, þau höfðu nú verið gift í 55 ár! Hvernig gat hann yfirgefið hana svona? Og án alls fyrirvara! En hún var stolt og sagði framan í opið geðið á honum að hún ætlaði ekkert að halda honum ef hann vildi endilega fara, hún gæti þetta alveg ein, væri hún ekki sjálfstæð líka? ... og þegar hún hugsaði þetta betur þá sá hún að hana var svosem farið að gruna þetta, já, gott ef hún vissi þetta ekki bara fyrirfram. Nú var bara að taka sig saman í andlitinu og hefja nýtt líf. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli