fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Góður Valentínus

Dagurinn reyndist nú bara ágætur, ég gerði engin teljandi asnastrik eða kjánaprik heldur átti góð samtöl við tvær framúrskarandi fræðikonur, borðaði góðan þorsk og skemmti mér konunglega á krossgátukvöldi þar sem borð númer átta (Fréttablaðið) var að sjálfsögðu með öll svör rétt en við vorum því miður ekki dregin upp úr hattinum þegar kom að verðlaunaafhendingu. Dagurinn endaði svo á Domo þar sem Sigga Toll (besta söngkona Íslands) og Babar fluttu dásamlega djasstónlist úr ýmsum áttum, sérstaklega var In particular og Vaseline flott, mér finnst alltaf svo skemmtilegt þegar þessi hópur tekur lög og brýtur þau svolítið upp.

Ég áttaði mig samt ekki á því af hverju allir voru svona ástleitnir þarna á tónleikunum. Pör nýttu hvert tækifæri til að stela kossi og ég stalst til að lesa á SMS sem gaurinn fyrir framan mig fékk, það var einlæg ástarjátning, og ég skammaðist mín fyrir að hafa kíkt. En það var ekki langur tími sem leið þar til ég fattaði (í fjórða skiptið í dag) hvaða dagur er.

En mig langar að segja soldið frá þorskáti mínu þessa dagana, sem sumir hafa fengið veður af. Þannig er mál með vexti að ég bauð mig fram í rannsókn hjá Landspítalanum þar sem er verið að athuga áhrif þorsks á líkamann, og í 8 vikur á ég að borða þorsk 5 sinnum í viku, og fylgja ströngu mataræði allan tímann. Svo er ég mæld eftir kúnstarinnar reglum og blóði er dælt úr mér í tíu lítil glös og svo eru rannsóknarkonur sem hringja í mig og passa að ég geri þetta nú allt eftir bókinni. Ég fæ þorskinn hjá þeim og uppskriftir en má elda hann eins og ég vil (eftir þetta get ég gefið út matreiðslubókina 40 leiðir til að elda þorsk fyrir einn) og þarf að borða heljarinnar ósköp af grænmeti með (annars er þetta bara mjög venjulegur matur). Hins vegar má ég ekki borða neinn annan fisk, eða lýsi, kavíar, skelfisk, Á þessu mataræði á maður svo að grennast eitthvað, og það er auðvitað bara frábært. Ég er búin með eina viku og gengur nokkuð vel, en bið ykkur að bjóða mér ekki óvænt í pizzupartí eða ísbíltúr, því ekki viljið þið skekkja niðurstöður rannsóknarinnar, er það?

Og ef einhver kann skemmtilega og einfalda þorskuppskrift má hann alveg láta hana fljóta hér með!

3 ummæli:

Svavar Steinarr sagði...

Uhm...
eitthvað hlýtur þú að fá fyrir allt þetta þorskát? er það ekki?

Svanhvít sagði...

Þorskinn. Mér finnst hann góður, og hann sparar mér mörgþúsund krónur í matarinnkaup.


Og betri heilsu ... það er ekki svo lítið nú á þessum síðustu og verstu, ikke?
Svo mánaðarkort í hreyfingu í lokin skilst mér.

Svavar Steinarr sagði...

Ég hefði viljað fá bikar, gullbikar.