þriðjudagur, október 23, 2007

Afturkreistingar

Ég steiki kleinur eins og allt gott og heiðvirt fólk. Mínar kleinur eru óaðfinnanlegar, gullnar eftir rétt hitastig feitinnar, ekki of stórar og ekki of litlar. Svoleiðis ættu allar kleinur að vera. En til er fólk sem gerir öðruvísi „kleinur“. Það setur til dæmis kúmen í þær og sleppir kardimommudropunum, eða hefur þær minni en mínar kleinur. Sumir súkkulaðihúða þær meira að segja! Það særir mig djúpt að á heimilum landsins skuli slíkt viðgangast. Mér finnst að persónu minni vegið að þetta fólk skuli kalla sitt bras kleinur. Veit þetta fólk ekki að hér er aldalöng hefð fyrir kleinusteikingum sem ekki er hægt að kasta á sorphaugana? Vissulega mætti skipa nefnd sem ákveður hvort ekki megi kalla þessar eftirlíkingar einhverju öðru nafni (ég sting upp á „afturkreistingum“) en það er óhugsandi að kalla þetta kleinur eins og þetta sé sami hluturinn.

Allir sannir Íslendingar hljóta að vera mér sammála í þessu.

10 ummæli:

Bastarður Víkinga sagði...

Það ætti þó að sleppa svo lengi sem afbrigðin fái viðeigandi lýsingar: Kúmenkleinur, súkkulaðikleinur, smákleinur og ... öh, kardimommudropalausar kleinur?

Síðan eru bara kleinur, eða kleinur classic.

Regnhlif sagði...

Að troða kúmeni í kleinur er glæpur gegn mannkyninu.

Tóta sagði...

Amma mín setur kúmen í sínar kleinur og mér finnst þær bestu kleinur í heimi.

Svanhvít sagði...

Krakkar, krakkar, krakkar.
Ég var ekkert að tala um fokkin kleinur! Hér áttu að skapast heitar umræður um vígslu samkynhneigðra og þjóðkirkjuna en ekki saklaust kleinuspjall, people.

Bastarður Víkinga sagði...

Þetta var aðeins of subtle hjá þér.

Og þú hefur augljóslega aldrei hitt alvöru kleinufanatík.

Svanhvít sagði...

Nei, það er enginn texti of subtle, bara ófullkomnir lesendur (var að lesa um hinn fullkomna lesanda enn og aftur).

Regnhlif sagði...

Ó. Þá dreg ég kúmenkomment til baka. Fjölbreytni er af hinu góða! Já.

:)

gulli sagði...

jú jú. fjölbreytni er góð.. en súkkulaðikleinur! er það ekki soldið hommalegt?
(þið sjáið að ég er alveg klúless um hvað umræðan raunverulega snýst)

Tinnuli sagði...

Bíddu, hvar var hinn innbyggði lesandi?

Orri sagði...

mig langar í kleinur.