þriðjudagur, janúar 29, 2008

Hér fer ekki mikið fyrir djúsí bloggi þessa dagana. Góðir menn hafa komið að máli við mig og farið þess á leit að hér verði fyllt á síður, en venjulega finnst mér best að þær fylli sig sjálfar þegar þannig stendur á.

Af mér er helst að frétta að eftir að hafa þýtt 64 þætti af venesúelskum sápum er ég orðin nokkuð vel skrúbbuð og tilbúin að takast á við eitthvað nýtt. Þetta var fínt en nú er það búið. Ég á auðvitað eftir að sakna Alcides míns, og pabba hans Ignacios, vonda flugfélagseigandans, og eins Divinu Alegría og Dulce Maríu, en aðra karaktera eins og Enrique, Morönu og Chöchu og bölvaða tvíburana græt ég ekkert að slíta samskiptum við. Ég áttaði mig líka á því að þetta væri að verða komið gott þegar mig fór að dreyma Dulce Maríu og holdafarsvandamál hennar. ("Dulce, þú ert ekkert feit.")

Nú er það Fréttablaðstörn til 14. feb og þá lýkur líklega minni vinnu hjá 365 í bili eftir tvö bara ágætis ár. Svo er partí 15. feb, fyrir alla sem ég þekki, á Kaffi Kúltúra. Mest langar mig að hægt verði að fá sér Pisco Sour á barnum en það verður allt að koma í ljós. Það verður allavega bjór. Þó að ég bjóði þér ekki persónulega máttu samt koma, þ.e. ef þú ert ekki einhver ógurlegur bjórsvelgur sem ég þekki ekki.

Um áramót ætlaði ég að vera voða sniðug og gera annál eins og svo margir, og fara í gegnum atburði ársins í lífi mínu með því að styðjast við bloggfærslur. Þegar á reyndi komst ég þó að því að bloggið er mjög léleg heimild um það sem ég í raun var að gera. Þar vantar til að mynda inn í stóratburði eins og Passíusálmatónleika í Hallgrímskirkju um páskana og allt sem við Þura gerðum í London, en á móti var mikið þvaður um orð, greinarmerkjasetningu og stílfræði. Það "mætti halda" að ég væri nörd.

Ég ætla hins vegar bráðum að fara að færa mig héðan og yfir á svankvit.blogspot.com (nei, ekki alveg strax) hvaðan ég mun blogga frá Chile og til frambúðar, líklega. Tilkynni það formlegar síðar.

Óðar stundir

9 ummæli:

Þura sagði...

Ég hef nokkrar athugasemdir, skal telja þær upp í sömu röð og þær eiga við textann:

1. Fylla þínar síður sig sjálfar? Vá tryllt
2. Ekki gera út af við þig með vinnu
3. Tek að mér að vera ógurlegi bjórsvelgurinn sem mætir ekki í partýið (þó ég þekki þig)
4. Meintirðu ekki "það sem við Þura gerðum á Akureyri" en ekki í London?
5. Nörd , tékk!

Óð stund.

Svanhvít sagði...

Satt, það sem við Þura gerðum á Akureyri var talsvert meira djúsí en það sem við gerðum í London;)

Bastarður Víkinga sagði...

Viltu ekki bara gefa skít í þennan bloggblett og fá þér almennilegt spekingablogg?

Tinnuli sagði...

Hvað með Skjannhvít.is?

Nafnlaus sagði...

en hví að breyta? vefmey er svo brilljant.

Svanhvít sagði...

Það yrði þá 'vefmey' en ekki með greini, því þetta er strangt til tekið röng beyging sem hefur farið í taugarnar á mér núna í nokkur ár og þess vegna vil ég skipta.

Skjannhvít er auðvitað snilld og auðvitað væri 'ógó' gaman að vera alvöru spekingur...

Nafnlaus sagði...

Well...have a nice party*( wish to be there)...
I´ll read about your adventures and hope to see you in SD later this year:)

Bastarður Víkinga sagði...

Ég skal glaður gefa þér spekingablogg í brottfarargjöf.

Nafnlaus sagði...

Ég var að fá hugmynd! Þar sem ég er orðin frekar súr í hausnum af öllum bandarísku dramaþáttunum sem ég ligg yfir þegar ég er ekki að þýða, væri þá ekki alveg brilliant að færa sig sunnar og byrja að fylgjast með þáttunum 'þínum'? Helduru að það sé hægt að nálgast þetta á netinu?
Jeminn...

Já og ég segi líka að þú eigir að fá þér eitthvað annað en blogspot.