Mánudagur enn á ný (já eða þriðjudagur)
Það er ekki ennþá kominn vetur í Santiago, sem þykir furðulegt, en fyrirbærinu La niña (Stelpan) sem er einmitt andstæðan við El niño (Strákurinn), er kennt um þetta undarlega veðurfar, og hinn sökudólgurinn er hin ægilega hlýnun jarðar. Nú segja þeir að veturinn verði mjög kaldur og lítið um rigningu, en það veit ekki á gott því þurrkarnir sem hafa staðið yfir í sumar og munu halda áfram í vetur valda því að það þarf að spara rafmagn.
Í vetur verður rafmagn (og þar með heitt vatn líka) líklega tekið af borginni í nokkrar klukkustundir á dag til að spara, og ég get ekki sagt að ég hlakki til þess. Mengunin verður líka mun meiri í vetur, þegar fólk kyndir húsin sín meira, svo ég á eftir að nötra úr kulda og anda að mér eitruðu lofti á meðan Frónbúar dandalast í útilegum í íslenska sumrinu, sem er bara alls ekkert svo slæmt svona í minningunni.
Þessi rúmi mánuður í milljónaborginni hefur orðið til þess að ég er komin með mun meiri umhverfismeðvitund en nokkurn tímann á Íslandi. Þegar ég sé allt þetta fólk og alla þessa bíla fer að síast inn að það skiptir líklega máli hvort maður notar lítinn eða mikinn uppþvottalög þegar maður vaskar upp, því allt hitt fólkið notar líka uppþvottalög þegar það vaskar upp, og ein teskeið eða tvær er bara alveg slatti ef maður margfaldar með einhverjum milljónum. Nú er líka svo komið að ég engist alveg þegar ég fer út í búð og fæ matinn minn í svona sex aumum plastpokum, og kannski þrír hlutir í hverjum poka. Væri þá ekki betra að hafa pokana aðeins sterkari?
En nú verður tekinn upp þráðurinn í Bustamante-sápunni þar sem frá var horfið enda líklega margir óþreyjufullir að vita hvað hefur drifið á daga okkar.
Vinir okkar frá Viña del Mar komu um helgina, þeir láta okkur gringurnar ekki í friði, og tveir þeirra eru búnir að ná sér í tvær okkar, þá bandarísku og þá norsku (þó að sú norska sé ekki alveg sannfærð). Afbrýðisami vinur Kelly hinnar bandarísku úr síðasta þætti hefur ímugust á þessum piltum, sem er aðallega af því að þeir rændu henni frá honum, en líka af því þeir settu víst upp einhvern svip þegar hann sagði þeim í hvaða skóla hann hefði gengið, hann var víst of mikill ríkisbubbaskóli. Hann líður mjög fyrir að fjölskylda hans á peninga, og þolir ekki að vera kallaður cuico, chileískt orð sem þýðir snobb og er notað um þá sem eiga peninga og sýna það.
Kelly flutti út fyrir tveimur vikum, en ákvað í dag að flytja aftur inn, því nýja íbúðin (sem hún flutti í því leigan var lægri) var ísköld og skítug og ógeðsleg, og auðvitað af því að hún saknaði okkar... Og í þetta skipti ætlar hún að láta okkur tala spænsku við sig.
Við Rodrigo kvöldumst voðalega nú um daginn þegar þýska stelpan fór upp í fjöll á laugardegi og hafði ekki skilað sér á mánudagsmorgni, og við ekki með síma hjá henni. Það var óþægilegur hálfur dagur, þar til við komumst að því að hún hafði tekið rútu til baka um morguninn og farið með bakpokann og allt klabbið beint í vinnuna, sallaróleg og án þess að vita að við vorum búin að láta úlfa éta hana og hræðilega mannræningja nema hana á brott.
Rodrigo er allur að koma til eftir sambandsslitin ógurlegu (5 ár eru langur tími) og það er aðallega Cesari að þakka, krúttuðum strák sem R. var fljótur að næla sér í. Hann er jafnmikill Bjarkarfanatíker og R. og þeir vinna báðir í ferðaþjónustu, svo þeir eiga ágætlega saman. Systir R., Pipi, er þó ekkert svo hrifin af ráðahagnum og talar ennþá mikið við Claudio, hans fyrrverandi, og um þarsíðustu helgi, þegar R. fór í helgarfrí á ströndina með nýja ástmanninum og Pipi var hér í íbúðinni leyfði hún fyrrverandi meira að segja að gista í tóma herberginu... með "vini sínum". Þetta má R. auðvitað alls ekki vita, og ég trúi eiginlega ekki að ég sé að blaðra þessu hér á netinu... hversu góð er þessi nýja þýðingavél sem var verið að opna?
Svo verð ég að segja frá einni aukapersónunni í sápunni, en það er Brauðmaðurinn, Jorge Rivera, vinur Rodrigos, sem er að setja á fót nokkurs konar heimsendingarbakarí. Hann selur alveg hrikalega hollt hörfræjabrauð sem hann gengur með í hús eftir pöntunum og hugsaði sér líklega gott til glóðarinnar að hér væri fullt hús af gringum með fullt af peningum til að kaupa fullt af brauði. Hann kemur hingað á nokkurra daga fresti og hver einasta okkar hefur fengið minnst hálftíma langan fyrirlestur um gæði þessa blessaða brauðs, þar sem við fáum að vita allt um ómega-3 og hörfræ og sjávarsalt og heilhveiti. Brauðið er gott, og Brauðmaðurinn fór á Gus Gus-tónleika í fyrra og hlustaði mikið á Sykurmolana í denntíð, svo auk þess að tala um brauð finnst honum ægilega gaman að tala um Ísland. Þetta er svona ein af aukapersónunum sem lífga upp á daginn hérna í íbúðinni.
Í gær, eftir átök helgarinnar, horfðum við Rodrigo á Heima, Sigur Rósar-myndina, sem við höfðum ætlað að gera lengi. Við dottuðum bæði, enda er þetta ein af þessum myndum sem er allt í lagi að sofna yfir, það er eiginlega bara betra. Falleg stund. Það var fyndið að sjá glitta í gamla vini og félaga eins og Möttu og Tobbu í sjónvarpi í Chile. Það sem var samt eiginlega fyndnara var þegar sæta stelpan í þýðingafræðitímanum í morgun sem brosir alltaf svo fallega sagði mér að um helgina hefði hún séð heimildamynd um íslenska hljómsveit sem heitir "Síkúr Ross, eða eitthvað svoleiðis. Er Ísland í alvörunni svona?" Jú, það er bara eiginlega alveg svona.
Annars er nóg að gera í skólanum, mikið af skáldsögum sem þarf að lesa, mikið af fyrirlestrum og prófum, sem ég er eiginlega komin úr æfingu að taka. Ég fór í próf á föstudaginn og áttaði mig á því að það var fyrsta prófið mitt í tvö ár! Á eftir fékk ég mér sushi og bjór á sætum restaurant til að fagna því að það gekk ekki hörmulega. Ætli reikningurinn fyrir það hafi ekki verið svipað hár og fyrir einn sushibita á Íslandi... heyrist allt vera að fara til fjandans þar.
þriðjudagur, apríl 15, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
ji hvað þetta varð eitthvað langt...
Vegleg úrvalssápa! Ég fékk mér einmitt sushi og bjór á Iðu fyrir nokkrum dögum þér til undirmeðvitundarsamlætis. Það kostaði. En þar sem ég er Íslendingur er mér alveg sama og borga bara. Vinn bara meira ef ég stefni á kúpuna, ekki málið. Og ekki hafa áhyggjur af þýðingarvélunum, þær munu aldrei bera sigurorð af mannsandanum. Kær kveðja úr svifryksskálinni :-)
Ég elska bloggið þitt
Ohhhh þetta er svo skemmtilegt blogg! Spá í að gera bara redirect af blogginu mínu á þitt blogg:)
þetta var frábært blogg. Svo heimsborgaralegt....næst þegar ég fæ mér súsí hugsa ég til þín!
kv. Sigga
Ég brosi alltaf út að eyrum þegar ég sé að það er komið nýtt blogg hjá þér.
Þú ert eðal bloggari!
P.s.
Fyrir hreina tilviljun var ég að borða sushi og drekka bjór þegar ég las þessa færslu.
Æ hvað þið eruð indæl elsku fólk, þetta er nú ekki svona skemmtilegt!
Sushi og bjór er greinilega málið. Það er líka kreisí blanda.
Jesss... er búin að bíða lengi eftir sápuskammti. Þetta er svona sápa sem þarf ekkert að spara.
Hvað búa eiginlega margir þarna? Er ekki enn búin að ná því.
Ég borðaði einmitt sushi og drakk með því bjór fyrir ekki svo löngu síðan. Það kostaði ekki mikið. Ég er að hugsa um að gera það að minnsta kosti tvisvar sinnum áður en ég fer heim. Heima ætla ég nefninlega ekki að borða neitt. Heima ætla ég heldur ekki að drekka neinn bjór. Heima er annars frábær mynd.
Já, ekki skrítid ad thad sé erfitt ad átta sig á fjoldanum, enda fólk alltaf ad koma og fara.
Thad er semsagt pláss fyrir sex, en nú erum vid fimm, Rodrigo og 4 stelpur.
Thýski strákurinn er farinn og hippastelpan Amber líka, í stadinn fyrir hana er komin skrítna taugaveiklada bandaríska stelpan sem horfir rosalega mikid á matinn minn alltaf (thad fer pínu í taugarnar á mér), thýsk stelpa er hér í mánud í herberginu hennar Kelly en svo kemur Kelly og faer herbergid aftur. Svo er víst ad koma japanskur strákur um mánadamótin. Jájájá.
Nei, ég held ég bordi ekki neitt heldur thegar ég kem heim. Nema thegar mér er bodid í mat.
Skrifa ummæli