Meiri helgin
Þetta var stórmerkileg helgi. Ekki að ég sjálf hafi gert neitt merkilegt, nema skemmt mér, og þá sérstaklega við að fylgjast með einkasápuóperunni minni á Bustamante 273. Hún tekur öllum venesúelskum sápum fram, og ég fæ að fylgjast með í beinni, og meira að segja taka þátt. Það er búið að vera svo mikið drama hér á bæ síðan ég kom að Kelly (bandaríska vinkona mín, sem var reyndar að flytja annað rétt áðan, sniff) segir að ég hljóti að hafa þessi áhrif, einhvers konar anti-ástarengill. Allt fer í háaloft í kringum mig og ég fylgist með, með popp í annarri og kók í hinni (nei annars, poppið hér er vont, það er sykrað).
Það væri of langt mál að telja upp allt dramað, en þar á meðal er t.d. nýja gringan sem spyr asnalegra spurninga og rambaði lengi um hvað hún þyldi ekki hassreykingar við Amber (sem eins og dyggir aðdáendur sápunnar muna er hippastelpan sem reykir meira en The Dude í Big Lebowski), Kólumbíumaðurinn Javier og mamma hans sem ætluðu að vera í hálfan mánuð en þurftu skyndilega að fara eftir þrjá daga, vinirnir fjórir sem komu frá Valparaíso til að heimsækja okkur og ofurafbrýðisamur vinur Kelly sem var næstum búinn að drepa (já) einn af þeim, biluð lyfta um miðja nótt með mér og þeim afbrýðisama og flösku af pisco föstum innanborðs (þurfti að stökkva milli hæða), mikil óendurgoldin ást, og það sem er virkilega ömurlegt, Rodrigo, sem ég leigi hjá, var að hætta með kærastanum eftir fimm ára samband. Grátandi, öskureiðir, sorgmæddir, afbrýðisamir, ástfangnir og hryggbrotnir karlmenn í öllum hornum og við skandinavísku fylgjumst furðu lostnar með þessu öllu saman.
En þetta er þó ekki nema hluti af dramatíkinni í Santiago þessa helgina, því í gær var "Dagur hins unga baráttumanns" þar sem minnst er morðs á bræðrum sem voru drepnir 1985 þegar þeir voru að mótmæla herforingjastjórn Pinochets.
Í fyrra voru meira en sjö hundruð manns handtekin fyrir óspektir, og því voru lögreglumenn bókstaflega alls staðar í gær og fyrradag (mótmælin byrjuðu á föstudeginum), og nú var talsvert minna um óeirðir (bara 230 handteknir, og einn var drepinn). Á föstudaginn var gefið frí í skólum og vinnustöðum í miðborginni seinnipartinn til að fólk kæmist öruggt heim til sín (íhaldssami háskólinn minn sendi póst en sagði ekki einu sinni af hverju við fengjum frí), og lögreglan notaði táragas og vatnssprengjur til að reyna að stilla til friðar. Þetta eru ekki mjög málefnaleg mótmæli og að miklu leyti krakkar og "óeirðaseggir" sem nota tækifærið til að kúka á götuna og lemja fólk, af því þeir geta það. (Nei, mamma, amma, hver sem er hræddur um mig, ég fór ekki niðrí bæ og var ekki í neinni hættu.)
En þetta gengur ekki, lærdómurinn bíður, og skattaskýrslan. Best að gera eitthvað. Lifið heil.
mánudagur, mars 31, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
OMG Þú býrð í Mekku slúðurskjóða! Þetta er nú aldeilis spennandi sápa. Bíð spennt eftir næsta þætti, vona að Rodrigo nái aftur saman við kærastann. Bestu kveðjur og takk fyrir skemmtilegt blogg
Vá Svanhvít þetta er rosalegt. Ég er hérna bara að hugsa um sólböð og hreyfa mig nóg vegna þess að ég gét svo mikið og þú ert á vígvelli nánast. já SÆLLL.
Rosa gaman að lesa bloggið frænka. Sakna þín.
Heyrumst/skjáumst Fjóla
Blóðhitinn lætur ekki að sér hæða... þess er væntanlega ekki langt að bíða að einhver missi minnið, eignist rangfeðraða þríbura eða týnist í flugslysi.
Ég bíð spennt eftir næsta bloggi!!!
Þetta er ekkert smá, lyftu drama og alles.
Þetta er Björk.... ætlaði ekki að skrifa sem leynipenni
Þetta er Björk.... ætlaði ekki að skrifa sem leynipenni
Þetta er Björk.... ætlaði ekki að skrifa sem leynipenni
Jess...elska sápur!
Góða viltu samt bara halda þig sem mest innan dyra, liggur við að ég hætti bara við að koma þegar ég heyri um svona læti.
Hoppaðiru milli hæða í lyftu! Er ekki í lagi með þig!! Þú hefur greinilega ekki heyrt um lyftu-indverjann!
Nei ég hef greinilega ekki heyrt um lyftu-indverjann...
Öss *hristi hausinn*
Sendi þér póst um þetta mál...
Skrifa ummæli