Ferðasagan er enn ósögð, ég veit það, hún er bara svo ofsalega löng, kemur vonandi bráðum, eða þá bara strípur úr henni (highlights ho ho). Það sem ég verð hins vegar að segja frá er tíminn sem ég fór í áðan. Nú er nefnilega vetrarfríið búið og skólinn byrjaði í dag. Ég fór í tíma í öðrum kampus en ég hef verið í, mun eldri og miklu fallegri, en það tekur langan tíma að komast þangað.
Tíminn var "Táknfræði í kvikmyndum". Kennarinn er 82 ára, hávaxinn og glæsilegur með sítt skegg og hár, alveg eldklár og líklega nokkurs konar goðsögn, eftir því hvernig hann talaði og hvernig nemendurnir komu fram við hann, og af því að það er ýmislegt um hann á netinu, til dæmis þetta myndband af honum að spila á flautu. Ég sat heilluð í þrjá klukkutíma og fannst ég vera komin í tíma hjá Robert Langdon, enda byrjaði hann á að ræða táknfræði í Disneymyndinni Mjallhvíti, þaðan í Pentagon-bygginguna og hvernig formið á henni tengist frímúrurum og fornum kabbalah-kenningum um fimmhyrning sem táknar stríðsguðinn Mars, sem aftur tengist fimmhyrningnum í merki Súpermanns. Svo talaði hann heillengi um hversu mikið má lesa út úr fyrstu tveimur orðunum í Faðirvorinu, að maður tali ekki um ef maður heldur áfram. Þar á eftir voru það hans kenningar um 11. september 1973 (þegar Pinochet tók völd og Salvador Allende var drepinn) og samsæriskenning um páfaheimsókn til Chile, önnur um myndirnar úr Abu Ghraib þar sem bandarískir hermenn sjást pynta Íraka, sem hann heldur fram að hafi verið birtar viljandi af bandaríska hernum til að æsa upp allan hinn íslamska heim. Hann var líka með júngískan lestur á Rear Window eftir Hitchcock og sýndi okkur brot úr þremur myndum, Borgarljósum Chaplins, Royal Wedding með Fred Astaire og jólaþáttinn með Mr. Bean. Í öllum þessum brotum sýndi hann okkur falin skilaboð, eins og í þessu atriði, sem virðist vita meinlaust, bara sætur dans í upphafsatriði Royal Wedding. Þessi dans táknar hins vegar baráttu Bandaríkjanna fyrir sjálfstæði frá Bretum, Astaire táknar gamla konungsveldið og stúlkan er nýlendan freistandi, sem nýtir tækifærið og rænir hann krúnunni, svo hann neyðist til að láta hana fá aðra til að heimta sína til baka. Myndin er frá 1951 en á að gerast 1947 þegar það var konunglegt brúðkaup í London, ofsa djúsí. Miðað við þetta getið þið ímyndað ykkur hvað hann fann hjá Chaplin og Mr. Bean.
Ég veit ekki hvort ég held áfram í þessum tíma, því ég get ekki fengið hann metinn við HÍ þar sem hann er ekki á MA-stigi, en ég skemmti mér að minnsta kosti stórvel í þessum tíma, sama hvað verður. Þetta er kannski heldur mikið af samsæriskenningum fyrir mig, ef fram heldur sem horfir, því þótt það sé gaman að þeim verður það líklega fullmikið að hlusta á í þrjá tíma á viku. Sjálfur sagði kennarinn að þessi kúrs myndi breyta lífi okkar, og að við myndum ekki sjá bíómyndir, já eða nokkurt listform, í sama ljósi aftur. Hann ætlaði að svipta okkur sakleysinu.
Í morgun fór ég líka til læknis, lýtalæknis reyndar, út af örinu á enninu, vildi bara athuga hvað er hægt að gera. Það er svosem ekki í frásögur færandi nema af því að inni hjá lækninum var ég í mesta lagi fimm mínútur en allt stússið við að fá að borga fyrir tímann tók mig einn og hálfan tíma. Eins gott að ég mætti 40 mínútum fyrr til læknisins til að redda þessu öllu, samt var ég ekki búin fyrr en korteri eftir að ég átti pantaðan tíma, og átti þá eftir að redda fleiru eftir tímann. Ég var send á milli bygginga, og innan bygginga á milli sala, innan sala á milli borða, og svo fram og til baka endalaust á milli allra þessara aðila. Og þetta er fínasta og þróaðasta heilsugæsla landsins, eða um það bil. En þrátt fyrir lúxusinn er flækjustigið hið sama og á þeim vanþróaðri, gott ef ekki enn meira.
Vonandi skemmtu allir sér fallega um verslunarmannahelgina, ég lét mér nú eiginlega bara leiðast og hlustaði á Julio tala um svissnesku ástina sína sem er núna farin í ferðalag og hann mun bara sjá nokkra daga í viðbót þegar hún kemur hér við á ferðum sínum. Hann er furðuleg blanda af mexíkóa annars vegar og hreinræktuðum Texasbúa hins vegar, sem talar hátt um réttindi sín sem Bandaríkjamanns og gerir mig stundum alveg brjálaða með blaðrinu í sér.
Þá er það rúmið, en fyrst eitt vídjó, þetta er úr Magnificat eftir John Rutter, sem ég er að fara að syngja á tónleikum á fimmtudaginn ef einhver vill kíkja. Ókeypis inn.
Fecit Potentiam
þriðjudagur, ágúst 05, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Oh ég hefði viljað vera í þessum táknfræðitíma. Ég elska svona táknfræði og samsæriskenningar.
Reyndar hefði ég líklega ekki grætt mikið á tímanum. Grunar að hann hafi fraið fram á spænsku og frasinn "uno cerveza Por favor" (sem er það eina sem ég kann í spænsku) hafi aldrei heyrst.
ni, lítið um cerveza, en þú hefðir alveg skilið Mr. Bean og Chaplin.
Kennarinn talaði samt eins og 18 ára strákur, notaði allt sama slangrið, sem var ógeðslega fyndið. Áður en hann sló fram einhverri langsóttri pælingu sagði hann "eftir að hafa heyrt þetta eigið þið eftir að segja "ég var í tíma hjá alveg útúrsúrum gaur maður"". Frekar fyndið, þar sem hann er nú 82, sérstaklega miðað við hvað fólk talar mismunandi hér eftir stétt og aldri.
haltu áfram í þessum tíma!!! skítt með það hvort hann er metinn eða ekki, hljómar ekkert smá spennó.
Skrifa ummæli