fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Á Íslandi er það veikleikamerki að láta veðrið stjórna sér. Nema þegar það er gott, þá fellir fólk niður störf og "eltir góða veðrið" í fríinu. En að láta leiðinlegt veður hamla því hvort maður fer á djammið eða ekki, nei, það gerir maður ekki.
Ég og vinkona mín bandarísk ætluðum að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera eitt síðdegið í vikunni þar sem hún slapp snemma úr vinnu. Það var búið að rigna svolítið um daginn, bara nokkrir aumingjalegir dropar á strjáli, en viðvarandi þó. Mér datt ekki í hug að þetta myndi setja strik í reikninginn og kom með hverja snilldarhugmyndina á eftir annarri, skipulagði ferð í kirkjugarðinn sögufræga, á safn um pyntingarnar á einræðistímanum og meira að segja veðreiðar. En þessir dropar drógu allan mátt úr vinkonu minni. Hún hló bara að öllum mínum tillögum og hafnaði þeim með orðunum: "En það er rigning!"
Ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því hvað við látum veðrið lítið angra okkur, og við sem höfum svona mikið af því. Hér kvartar fólk og kveinar fari hitinn undir 15 gráður og í rigningu lamast allt og fólk situr bara heima. Það var felld niður kóræfing um daginn því að það var svo kalt.
Ég man eftir djömmum í Reykjvíkurborg þar sem maður eður slabb upp á miðja nælonsokkaklædda kálfa í spariskónum til að komast á milli staða, bíður í röð í nístingskulda og reynir að skýla sér frá stórhríðinni með því að halla sér agnarögn of mikið upp að ókunnuga hávaxna manninum við hliðina á sér. Ég þarf samt að fara til Suður-Chile, þar ku veðráttan vera mun líkari því sem ég á að venjast, enda á svipaðri breiddargráðu, bara í hina áttina.

2 ummæli:

Gunni sagði...

Sumarsmellurinn á Íslandi þetta árið er lagið Bahama með Ingó og veðurguðunum. Þeir koma frá Selfossi.

Það er eitthvað mjög íslenskt við það að sumarsmellurinn fjalli um sólarstrendur og nafn hljómsveitarinnar tengist veðri.

Íslendingar tala afskaplega mikið um veðrið en láta það kannski ekki stjórna sér.

P.s.

Þetta er leiðinlegasta komment sem ég hef skrifað.

P.p.s

Ég þoli ekki fólk sem segir eitthvað leiðinlegt og tekur það sérstaklega fram að því finnist það leiðinlegt.

Svanhvít sagði...

Ha ha ha, kannski svona svipað leiðinlegt komment og færslan mín, enda við bæði að tala um veðrið, ekki satt?

Leiðinlegt

í Chile-spænsku er til orðið "fome" (borið fram alveg eins og maður myndi lesa það á íslensku). Mjög gagnlegt orð sem þýðir allt sem er leiðinlegt, eða slappt, svona eins og slappt partí, leiðinleg kennslustund eða einhver sem fer snemma heim af djamminu (sem er dauðasynd), allt er þetta "fome", og það vill enginn vera kallaður. Við erum líklega mjög fome.