Er nú ekki kominn tími á blogg? Ástæðan fyrir því að ég hefi ekkert blogað er ekki sú að ekkert hafi gerst, ég hef bara ekkert verið í tölvunni nema í einstaka havaríi að athuga hvort kennaragreyin hafi nokkuð laumað inn einkunnunum mínum úr jólaprófunum. En hvað sem því líður, nú er hafin ný önn með tilheyrandi tölvunotkun, og má því búast við að þessi síð verði ögn líflegri en yfir hátíðirnar. Í gær átti ég afmæli og mér finnst mjög gaman að eiga afmæli. Þetta vita vinir mínir og gerðu allt til að gera daginn frábæran. Sem hann var fyrir utan þegar græni kjóllinn minn eyðilagðist. Ég var búin að vera að sauma hann frá því á síðasta ári (ok gamlársdag) og hugsaði mér gott til glóðarinnar að vígja hann á afmælisdaginn. Þetta er vandaðasta flík sem ég hef nokkurn tímann saumað, rennilásinn haganlega felldur inn í þunnt siffonefnið og fóðrinu óaðfinnanlega komið fyrir, allir saumar eins beinir og best verður á kosið. En þegar til kastanna kom og ég og Steini vorum að setjast við borð á veitingastaðnum Ban-Thai sprakk rennilásinn minn fíni og ég var með stórt gat á bakinu. Sem betur fer var ég með sjal til að fela ósköpin en ég gat ómögulega rennt lásnum aftur niður, svo með dyggri hjálp Steina tókst mér loks þegar heim var komið að troða mér í gegn um gatið á bakinu og fór að reyna að laga rennilásinn. Þá vildi ekki betur til en að ég rykkti rennilásnum af og nú er kjóllin eftir því sem ég best veit ónýtur, vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að setja í nýjan rennilás en ég veit ekki hvort ég legg í það, þvílík var vinnan í fyrra skiptið. Besta lausnin kom nú frá Þuru sem bauðst til að sauma utan á mig kjólinn fyrir kvöldið og í lok þess gæti ég svo klippt hann af mér.
En nóg um kjólinn, því margt skemmtilegra gerðist í gær, ég og Ella fórum í sund og ég vil óska henni til hammara með að hafa yfirstigið þann djöful að vera hrædd við blóðsugur í formi hjúkrunarkvenna. Steini kom mér á óvart á margan hátt og þakka ég honum fyrir. Ég fékk frábærar gjafir, grunsamlega margar sem hvöttu til sauma og prjónaskapar, þ.á.m. saumavélanálar, dýrindis kínverskt silki, sikkerhedsnælur og saumaskæri. Svo fékk ég meðal annars tvær bækur, ilmvatn og æðislega peysu sem mamma mín þæfði. Takk fyrir gjafirnar allir.
Og loksins fékk ég langþráðan meter af bjór á Kaffi Vín. Mæli með honum. Ekki meira í bili, bæ.
laugardagur, janúar 10, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli