Fötin mín í sjónvarpinu
Þetta hlýtur að vera fyrirboði um eitthvað – fötin mín eru farin að spóka sig í sjónvarpinu, líklega að hita upp fyrir mig... ætli ég verði næsta stjarnan í einhverjum raunveruleikaþættinum?
Í síðustu viku var trefillinn minn í þættinum At, reyndar ekki í stóru hlutverki, og þó, það var verið að kynna Búðina, sem er forláta búð á Laugaveginum, og þá var einmitt sýndur í nærmynd trefillinn minn sem er búinn að sitja þarna uppi í hillu hjá þeim síðan fyrir jól að reyna að selja sig (vændistrefill). Hitt er verra að prjónatöskurnar mínar voru ekki sýndar, þær eru sönn völundarsmíð og bíða óðfúsar eftir kaupanda *blikk blikk*.
En ekki nóg með þetta, því á morgun, þ.e. annað kvöld verður jakkinn minn í aðalhlutverki. Og þetta er enginn venjulegur jakki, því þetta er Sgt. Pepper’s jakkinn minn. Hann verður þarna í góðum hópi Steina jakka og Þuru jakka. Þetta eru mjög gáfaðir jakkar, því þeir ætla að keppa í Gettu betur og leitast við að rústa MR-ingum. Og þar er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Fyrir þá sem þekkja örlítið til eru það fjólublái, bleiki og gullitaði jakkinn sem keppa, líklega á móti gráum og svörtum rúllukragabolum. Fyrir þá sem ekki þekkja eru hér myndir af jökkunum. Ég óska hýslum jakkanna góðs gengis á morgun, eða, ef allt fer illa, góðs flipps.
Að blogga er það síðasta sem ég ætti að vera að gera núna, kvöldið fyrir 50% próf.
miðvikudagur, febrúar 25, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli