fimmtudagur, september 16, 2004

Þegar ég vaknaði í morgun eftir svefnlitla nótt í risherberginu mínu og gekk inn á baðherbergi áttaði ég mig á tveimur hlutum. Að ég hafði gleymt að setja niður klósettsetuna í gær, og að það var komið haust. Oní klósettinu, beint fyrir neðan gluggann var eitt stórt laufblað, af ösp ef mér skjöplast ekki. Herbergið mitt var líka fullt af laufblöðum sem höfðu fokið inn um gluggana. Jakob, sá danski sem deilir með mér risinu gat ekkert sofið í nótt fyrir veðurofsanum. Hann sagði að svona veður í Danmörku væri kallað fellibylur... Ég sagði honum bara að bíða eftir vetrinum, þá fengi hann að sjá alvöru veður.

Annars er búið að vera notalegt að sitja uppí sófa með teppi og te og prjóna lopapeysu svona síðustu daga, og horfa á ALLAN Lansann (Riget) sem Jakob á á DVD. Ekki leiðinlegt, en svo man ég stundum eftir því að ég er í skóla og þarf víst einstöku sinnum að læra líka, en það er nú allt í lágmarki hjá mér eins og er, það er bara svo miklu skemmtilegra að gera ekki neitt, er það ekki?

Nú er ég á leiðinni í grillveislu með fólkinu úr vinnunni í sumar... já, í þessu veðri.. það er kosturinn við að vinna í gróðurhúsi.. þar er hægt að vera í öllum veðrum. Það verður notalegt að naga á kótilettu á meðan regnið bylur á glerveggjunum. Jó étvágyot... bon appetit!

Engin ummæli: