miðvikudagur, september 01, 2004

Jó napot kívanok. Hogy vagy? Én jó vagyok, köszönöm. Most Islandon vagyok, de vasárnap Budapesten voltok. Esik az esö islandon.

Verið þið sæl, nú er ég komin heim frá landinu unga, og þykist aldeilis hafa forframast. Það var vel tekið á móti mér þegar ég steig út úr flugvélinni, vindurinn feykti mér næstum því út af landganginum, og stelpan frá Kaliforníu sem hafði setið við hliðina á mér í vélinni æpti og öskraði, greyið var í sandölum og stuttermabol, og hafði vísast aldrei lent í öðru eins veðri. Aðeins hlýrri móttökur fékk ég frá mömmu þegar ég komst loksins í gegnum tollinn. Það var frábært að koma heim í sveitina og mamma gerði fiskibollur handa mér, uppáhalds mömmumatinn minn. Í dag liggur leiðin í bæinn, og líklega beint á Reynimelinn, þar sem ég mun búa og starfa næstu 5 mánuðina, með dönskum dreng, pólskri stúlku og íslenskum fötluðum dreng sem heitir Benni og við ætlum að aðstoða í vetur. Fyrir þremur mánuðum hefði ég ekki trúað því hefði einhver sagt mér að eitthvað þessu líkt myndi gerast... en skjótt skipast veður í lofti eins og sagt er, og þess vegna er ég að fara að flytja í dag, í 3 sinn á einu ári.. Kvisthagi, Ásvallagata, Kvisthagi, Reynimelur. (Og ef ég tek Ungverjaland með er það 4 sinnum.)

Ég hlakka til að hitta ykkur öll og djamma með ykkur, ég er laus um næstu helgi ef einhver býður sig fram, en líklega á það eftir að vera erfitt fyrir mig að kaupa bjór fullu verði á bar í Reykjavík, eftir að hafa borgað ca 70 kall fyrir bjór í heilan mánuð. Vinkona mín Iveta frá Slóvakíu er núna örugglega að drekka bjór fyrir 20 kall en það kostar bjórinn á þessum árstíma í bænum hennar.. hún trúði ekki að nokkur maður gæti keypt sér vín á Íslandi, hún sagði að fjölskyldan hennar gæti keypt mat fyrir heila viku fyrir þennan pening..

Ojá, svo byrjar skólinn á mánudaginn, það verður ekki leiðinlegt, því kúrsarnir sem ég ætla í eru allir frekar spennandi, Færeyska og íslenska, Latína f. byrjendur, Spænsk málnotkun og spænsk málfræði og Straumar og stefnur í bókmenntafræði (sem er samt víst kúrs dauðans). Svo verð ég að finna mér nýjan kór, ég þarf að kanna fleiri áður en ég kem mér fyrir, hvernig væri að prófa Langholtið núna?

En ekki hika við að hafa samband ef ÞÚ vilt hitta mig um helgina, ég er til....

Engin ummæli: