þriðjudagur, ágúst 23, 2005


Sniðugt í útlöndum:

FINNLAND
Eins og allir vita drekka Finnar mikið. Þeir drekka sterkt áfengi í tunnutali og það sér ekki á þeim fyrr en á ca. sjöundu tunnu. Þá fara þeir að tala sænsku og það er fyndið. Úti á Spáni kynntist ég fjórum Finnum, hverja ég ætla að fara að hitta á fimmtudaginn. Þessir Finnar sögðu mér frá ansi skemmtilegri hefð sem viðhefst í háskólum.

Allir háskólanemar eiga galla. Djammgalla. Og þá meina ég galla, í orðsins fyllstu merkingu , sbr samfesting, álíka og bifvélavirkjar nota við vinnu sína. Þessum göllum klæðast nemarnir þegar þeir fara á djammið, og geta þá drukkið og ælt og hellt niður á sig að vild, OG - sem er eiginlega betra - þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af hverju þeir eiga að fara í á djammið. Eru þá oftast bara í joggingbuxum innanundir eða einvherju þægilegu.

Galla þessa skreyta þeir svo með barmmerkjum, bótum, fánum, límmiðum og þess háttar, og er markmiðið skilst mér að vera sem frumlegastur og dónalegastur í þessum merkingum. Hver háskóli hefur sinn lit, og svo þegar skólarnir hittast eru nemendurnir í öllum regnbogans litum.


Þetta finnst mér skemmtileg hefð.

Engin ummæli: